Í upphafi síðasta árs var að öllum líkindum slegið Evrópumet í svifryksmengun í Smárahverfi í Kópavogi samkvæmt opinberum mælingum. Um nýafstaðin áramót var mengunin þrisvar sinnum minni en árið áður. Hún var þó sautjánfalt yfir hættumörkum eins og ríkisvaldið skilgreinir þau. Mengunin virðist að mestu stafa frá flugeldaskotgleði íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Skaðsemi svifryks
Af lestri minnisblaðs Kópavogsbæjar um varhugaverða mengun í Dalsmára um áramót frá í september verður varla dregin önnur ályktun en að um hættulegt ástand sé að ræða. Í minnisblaðinu segir m.a:
„Ýmis efnasambönd er að finna í flugeldum og mörg þeirra eru skaðleg heilsu manna og dýra. Áhrif svifryks á heilsu manna er m.a. háð stærð agnanna en minnstu agnirnar ... komast djúpt í lungu manna og geta safnast þar fyrir eða farið út í blóðrás. Ef málmar eða PAH sambönd eru í rykinu eykst hættan enn frekar fyrir heilsu manna. Smæstu agnirnar eru taldar geta haft veruleg áhrif á heilsu og þroska barna. Helstu sjúkdómar sem raktir eru til svifryksmengunar eru öndunarfærasjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar.“
Í minnisblaðinu er m.a. hvatt til að „skoðuð sé betur möguleg hætta af málmum í flugeldum og áhrifum á jarðveg og umhverfi með mögulegum langtímaáhrifum á lýðheilsu.“ Í minnisblaðinu er auk þess bent á að „rannsóknir á uppsöfnuðum málmum í jarðvegi eru fáar ef nokkrar í umhverfi brenna og flugeldasýninga en ljóst er að málmarnir í flugeldunum safnast einhversstaðar fyrir.“ Í þessu samhengi má benda á að íþróttasvæði Breiðabliks, grunn- og leikskóli eru skammt frá mælistöðinni í Dalsmára.
Rétturinn til heilnæms umhverfis
Í umræðunni um þessi mál hefur lítið farið fyrir lagalegum rökum. Hér verður reynt að draga fram nokkrar röksemdir sem ekki hafa fengið mikla athygli:
1. Í stjórnarskrárinni er ákvæði sem kveður á um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Sambærilegt ákvæði er að finna í Mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu fellur réttur til heilsuverndar og heilsufars einstaklinga undir friðhelgi einkalífs sem liður í þeim rétti að geta notið einkalífs og heimilis á friðsælan hátt.
2. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur hefur verið, er kveðið á um skyldu aðildarríkja til að viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja. Auk þess er kveðið á um skyldu aðildarríkja samningsins til að gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar eru til árangurs og við eiga í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna.
3. Í Alþjóðasamningnum um félagsleg, efnahagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er aðili að, hvílir sú skylda á aðildarríkjum hans að viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
4. Í Félagsmálasáttmála Evrópu, sem Ísland er aðili að, kemur fram að aðildarríki hans skuldbindi sig til að gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að tryggja, að réttur til heilsuverndar sé raunverulega, er miði m.a. að því að útrýma eftir því sem auðið er orsökum heilsuleysis.
5. Í EES-samningnum segir m.a. að aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skuli grundvallaðar á þeim meginreglum að girt skuli fyrir umhverfisspjöll. Auk þess kemur fram að kröfur um umhverfisvernd skulu vera þáttur í stefnu samningsaðila á öðrum sviðum.
6. Óbeina tilvísun til réttarins til heilnæms umhverfis má ráða af markmiði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, þ.e. „að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.“
7. Meðal undirstöðureglna í innlendum sem og alþjóðlegum umhverfisrétti er hin svonefnda varúðarregla. Röksemdin að baki reglunni er óvissa. Þrátt fyrir óvissu ber eftir sem áður að grípa til fyrirbyggjandi varúðarráðstafana jafnvel þótt ekki sé mögulegt að sýna fram á orsakatengslin á milli tiltekinna afhafna og áhrifa þeirra.
Réttur brotinn?
Í ljósi ofangreinds verður að spyrja hvort að íslenska ríkið standi vörð um rétt íbúa Smárahverfis í Kópavogi til heilsuverndar og heilsufars með því regluverki sem nú er til staðar um flugelda í ljósi mælinga um svifryksmengun um áramót. Lykilspurningin hér er hvort ríkisvaldinu sé stætt á að heimila sölu varnings sem virðist valda jafn mikilli mengun og raun ber vitni. Endurskoðun á málaflokknum þarf að eiga sér stað.
Grundvallarhlutverk ríkisvaldsins
Björgunarsveitirnar eru fyrirferðamestur í sölu flugelda. Spyrja verður hvort það sé eðlilegt að einkaaðilar, mest megnis í sjálfboðavinnu (sem er virðingarvert), sinni einu af grundvallarhlutverkum ríkisvaldsins — að verja borgarana fyrir hættu og bjarga þeim úr hættu. Til að standa straum af kostnaði — sem væri rökrétt að væri greiddur af ríkinu — flytja þessir aðilar inn og selja vöru sem hefur mengun í för með sér, veldur tjóni á munum og skaðar fólk (í sumum tilfellum varanlega). Oft er látið eins og það sé hálfgerð skylda að versla umrædda vöru af björgunarsveitunum svo þær geti sinnt hlutverki ríkisvaldsins. Á ríkisvaldið ekki að koma meir að þessum málaflokki eða hreinlega taka hann yfir? Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Höfundur er íbúi Smárahverfis í Kópavogi og dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.