Á Íslandi og víða í hinum vestræna heimi ber meir og meir á afskiptaleysi fólks og áhugaleysi þegar kemur að kirkju og kristni. Heimurinn breytist ört og netvæðing heimsins hefur mikil áhrif og tekur stærri og stærri hluta af tíma fólks. Upplýsingamiðlun í netmiðlum er í smáskömmtum, brotakennd miðlun, sem tekur minna og minna mið af samhengi hlutanna. Ofan á þetta bætast svo falsfréttir af ýmsu tagi. Gagnrýni á kirkju og kristni er á köflum nokkuð herská og óvægin. Öll höfum við lífssýn eða gildagrunn sem líf okkar hvílir á. Lífssýn er í reynd ákveðið form trúar enda þótt í sumum tilfellum sé ekki um að ræða lífssýn sem byggir á hugmyndum um handanverandi Guð. Boðun lífsgilda er og verður ætíð einhverskonar birtingarmynd trúboðs.
Hugsanafljótið
Skoðum aðeins grundvöll vestrænna lýðræðisríkja. Þau hafa þegið allt sitt vit, öll sín gildi, alla sína hugsun og skilning á veruleikanum; allar hugmyndir um manneskjuna, um þjóðfélagið, um réttlæti, jafnrétti, skiptingu gæða, ábyrgð fólks hvert á öðru og hvað eina sem við teljum auð vestrænnar menningar. Allt er þetta komið úr einni og sömu uppsprettu.
Grikkir voru margir miklir hugsuðir, en þeir voru ekki mikið fyrir það að óhreinka hendur sínar og stunda líkamlega vinnu. Til þess voru þrælar og ambáttir. Hebrear eða Gyðingar voru meira fyrir moldina og fundu til skyldleikans við duftið. Kunn eru orð Gamla testamentisins: „Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. „Séra Hallgrímur Pétursson, einn af þekktustu fulltrúum hins gyðing/kristna arfs í íslenskir menningarsögu, sagði það saman með þessum orðum: „Hold er mold, sama hverju það klæðist.” Grikkir hefðu því varla stundað miklar rannsóknir á hinum efnislega heimi en Gyðingar og kristnir gátu auðveldlega grafið hendur sínar í mold og mykju ef þess var þörf. Grikkir trúðu á marga guði og goðmögn í efninu, í jörðinni. Þess vegna voru þeir ófúsir að grafa þar og raska ró guðanna. Í hebreskri hugsun er hins vegar skilið á milli Guðs og sköpunarinnar sem er efnisleg en ekki andleg sem slík og því í lagi að skoða hvað þar er að finna.
Þýzki, lútherski guðfræðingurinn, Friedrich Gogarten (1887-1967) fjallaði um samruna hins grísk/fílósófíska straums og hins gyðing/kristna í sínum fræðum og sagði að nútímavísindi væru bein afurð þeirra. Leiða má af hans hugsun að það afrek að koma mönnum til tunglsins og til baka hefði aldrei gerst ef þessir straumar hefðu ekki runnið saman í einn.
Hvar eru áhrif hugsanafljótsins helzt sýnileg í heiminum? Páll Skúlason sagði einkum tvennt vitna um áhrif hugsanafljótsins á heiminn: starf kristinnar kirkju um veröld víða og alþjóðleg vísindi.
Vísindi og trú eru ekki andstæður og til eru mörg dæmi þess að kristinn kirkja hafi stutt vísindi og beinlínis stuðlað að vísindarannsóknum í aldanna rás enda þótt til séu einnig dæmi um að valdamenn innan hennar hafi ekki í hvert sinn hoppað hæð sína af gleði yfir nýjum uppgötvunum vísindamanna. Slíkt á sér enn stað í heiminum að fólk viðurkenni ekki nýjar uppgötvanir og áherslur vísinda. Dæmi úr samtímanum er afstaða þeirra sem telja hlýnun loftslags náttúrunni sjálfri að kenna og vilja um leið náða mannkyn af glæpum sínum gegn lífríkinu. Kirkju og kristni hefur verið velt upp úr hinum neikvæðu dæmum í aldanna rás af andstæðingum hennar, en þeir hinir sömu, vilja lítt kannast við jákvæða afstöðu kirkjunnar til vísinda. Minna má á að margar af merkustu menntastofnunum veraldar eiga rætur sínar í kirkjunni, til dæmis helztu háskólar Evrópu og Bandaríkjanna.
Hugsanafljótið mikla. Þaðan koma allar helstu hugmyndir okkar um lífið, um tilvist okkar, um samfélagið, um heiminn og hið stóra samhengi allra hluta.
Eigum við að kasta burt þessum arfi og halda að við getum búið til einhvern nýjan lífsgrundvöll án róta, án tengsla við fortíðina?
Þeim fjölgar sem misst hafa tilfinninguna fyrir mikilvægi þessa arfs og halda að þeir geti búið til eitthvað nýtt úr engu, í einhverskonar hugmyndafræðilegu tómarúmi.
Lífssýn og trú
Í Noregi, þar sem ég hef búið s.l. 4 ár, hef ég séð í fjölmiðlum talað um hlutlausa lífssýn, eitthvað sem hér er kallað livsynsnøytralt. Er eitthvað slíkt til í raun og veru? Þessari hugsun er m.a. beitt til að útiloka trúarbrögð, trúarleg tákn og tjáningu trúar í hinu almenna rými eins og þjóðfélagið er stundum kallað. Tveir norskir þingmenn rituðu um þetta í dagblað fyrir ári eða svo og vildu banna alla trú í hinu almenna rými. Þar á bara að vera pláss fyrir hlutlausa lífssýn. Ég andmælti þessari hugsun í grein sem ég skrifaði í dagblaðið Vårt land. Þar birti ég eftirfarandi þankagang.Er til hlutlaus lífssýn? Nei, að mínu viti er hún ekki til. En það eru til ólíkar hugmyndir um lífið og tilveruna, margskonar sýnir á lífið, en engin þeirra getur tekið sér það vald að skilgreina sig sem hlutlausa. Hlutlaus lífssýn er ekki til fremur en hringlaga ferhyrningur eða ferhyrndur hringur. Slíkir ómöguleikar eru kallaðir refhvörf (oximoron) innan mælskulistarinnar (rhetoric). Refhvörf eru notuð til að tjá það sem ekki er til, er í mótsögn við sig sjálft. Refhvörfum er beitt bæði í bundnu og óbundnu máli og þau birtast t.d. þegar orðum gagnstæðrar merkingar er blandað saman. Dæmi um refhvörf eru heitur snjór eða harðduglegur letingi.
Hlutlaus lífssýn er því ekki til en til eru ólíkar lífssýnir og það ber að virða. Lífssýn er trú á sinn hátt enda þótt ekki sé um að ræða trú á handanverandi Guð. En trú er það eigi að síður að hafa lífssýn. Þá er einnig mikilvægt að rætt sé af einurð, heiðarleika og sanngirni, um hugmyndafræði hverrar lífssýnar. Þannig skiljum við betur hvert annað. Ef við dorgum í hugsanafljótinu finnum við margt sem getur hjálpað okkur að skilja það sem er líkt og ólíkt. Hugsanafljótið geymir marga túlkunarlykla að þeim tilvistarspurningum sem flest okkar glíma við.
Hvað er okkur boðað í „saklausum” fréttaþáttum?
Á aðventunni, nánar tiltekið hinn 19. desember 2018, var sagt frá bandarískum trúboða í Morgunútvarpi RÚV sem tekinn var af lífi af frumbyggjum á eyju nokkurri í Austurlöndum. Hann hafði haldið þangað til að boða þeim kristna trú. Sagt var frá skólanum í Bandaríkjunum sem þjálfaði hann og aðra til að fara um heiminn og kristna fólk. Þetta var frétt um skrýtnar hugmyndir og fávíst fólk. Var þessi frétt bara tilviljun? Eða var hún kannski sett fram til að sýna fram á fávisku kristins trúboðs og þar með kristinna manna - og einmitt á aðventunni? Ég spyr.
Áramótaskaupið 2018 var enn eitt dæmið um vafasama túlkun á atburðum sem áttu sér stað á árinu. Mér fannst örla á fordómum og fyrirlitningu á þjóðkirkjunni í nokkrum atriðum sem voru miður smekkleg. Vafasamt má telja að alhæfa um heilar stofnanir og starfsstéttir út frá einstökum atvikum og gjörðum einstaklinga, hverra mál hafa ekki komið til kasta dómstóla.
Margvísleg áhrif kristinnar trúar og kirkju
Nú er það svo að kristin trú er ekki bara til í einni „stærð”. Hún er til í mörgum stærðum og myndum. Á Norðurlöndum hefur til að mynda þróazt það sem kalla má manneskjulegur kristindómur (humanistisk). Hinar evangelísk lúthersk þjóðkirkjur á Norðurlöndum þykja tiltölulega frjálslyndar. Þær hafa á sinn hátt lagt grunn að bestu samfélögum veraldar með mannskilningi sínum og gildum. Þessi samfélög skora jafnan hæst í heimi í öllum könnunum sem mæla lífsgæði eins og jafnrétti, réttlæti, skiptingu gæða, lífskjör, heilbrigðisþjónustu, glæpi, spillingu og fleiri atriði. Þessi þjóðfélög hafa þróast á grunni kenninga kirkjunnar um mannlíf og samfélag. Að mótun þessara þjóðfélaga hafa komið auk kirkjunnar, stjórnmálaöfl, samtök launafólks, atvinnurekendur, skólar og menntastofnanir, menning og listir, svo dæmi séu tekin. Þetta er litríkur vefur, ofinn úr hugmyndum úr hugsanafljótinu, fagur refill sem birtir með þráðum sínum sögu þessara merku þjóða.
Trúboðinn sem sagt var frá á Rúv, er að mínu áliti, fulltrúi þröngsýnnar guðfræði, sem er býsna útbreidd í Bandaríkjunum. Svonefnir Evangelicals eru af reformertum stofni, kalvínskum grunni, og meðal þeirra þrífst víða þröngsýn guðfræði, trú á bókstaf og í mörgum tilfellum tortryggni í garð vísinda. Viðhorf úr ranni kirkna af þessum toga birtast t.d. í öfgafullri og skelfilegri mynd í hegðun núverandi forseta Bandaríkjanna og grunnhyggnum málflutningi hans sem hegðar sér oft eins og illa upp alinn stráklingur sem skeytir hvorki um heiður né skömm. Íslensk kristni er ekki af þessum meiði. Hún er aftur á móti gróðurreitur góðra hugsana, hlutmengi í hinum norræna garði, sem mótað hefur mannlíf og þjóðfélag á Íslandi í þúsund ár.
Kirkjan sem slík er félagsskapur fólks sem trúir á Krist og kærleikskenningar hans. Kirkjan er söfnuður breyzkra manna, karla og kvenna. Í gegnum aldirnar hefur þessi hópur fólks leitazt við að þroskazt að skilningi og innsæi og oft með góðum árangri. En sú leið til þroska hefur á sama tíma verið þyrnum stráð þar sem fordómar og fáfræði hafa blandazt inn í umræðuna. Slíkt hendir ekki bara það mengi sem við köllum kirkju. Hið sama hendir mengið þjóðfélag, mengið þjóð eða þjóðarbrot, mengið konur eða mengið karlar.
Vinur minn vitur og vís hitti mann á förnum vegi fyrir tæpum 20 árum sem sagðist hafa fengið nóg af Þjóðkirkjunni og skráð sig úr henni.
- Og hvers vegna gerirðu það, spurði vinur minn.
- Ég gerði það vegna biskupsins, hans Ólafs Skúlasonar, svaraði hann.
- Jæja, sagði vinur minn og spurði á móti: Varstu í kirkjunni vegna hans?
Hvers vegna ert þú í kirkjunni? Og svo spyr ég líka þau sem hafa yfirgefið hana: Hvers vegna skráðir þú þig úr kirkjunni? Er það vegna þess að einhver prestur hefur sagt eitthvað ógætilegt eða eitthvað sem þú samþykkir ekki eða gert eitthvað alvarlegt af sér? Er það vegna launa biskupsins? Er það vegna þess að þú heldur að kirkjan sé á framfæri ríkisins og vilt ekki sjá að Þjóðkirkjan hefur afhent ríkinu eignir uppá milljarðatugi. Samning kirkju og ríkis vill ríkið nú svíkja eftir 21 ár. Ég sagði á sínum tíma að það væri glapræði að láta ríkið hafa gullforða kirkjunnar og fá í staðinn pappírssamning sem stjórnmálamenn túlka sér í hag á hverjum tíma í atkvæðaleit í pólitískum hráskinnaleik. Ástæðurnar þínar sem hefur yfirgefið kirkjuna kunna að vera margvíslegar, en ég spyr: Standast þær rök og vitræna gagnrýni í öllum tilfellum? Foreldrar þínir, ömmur og afar, langömmur og langafar, sem fylgdu þúsund ára íslenskri hefð og báru þig til skírnar, voru þau öll vitgrannir kjánar, eða vildu þau bara í einlægri trú sinni fela þig á vald því æðsta og fegursta sem þau þekktu og búa þig þannig undir að lifa af í viðsjárverðum heimi eftir hugmyndafræði Krists og undir vernd hans?
Þjóðkirkjan er veraldleg stofnun og tímanleg sem leitast við að þjóna eilífum gildum. Henni eru mislagðar hendur eins og öðrum jarðneskum félögum og stofnunum. Hún hefur til að mynda oft á tíðum reynst fara klaufalega með sín mál á vettvangi fjölmiðla. Hún virkar stundum ögn bernsk í háttum á hinu veraldlega sviði. Hvers vegna tapar Þjóðkirkjan t.d. máli efti máli fyrir dómstólum? Þarf yfirstjórn kirkjunnar ekki að fá betri ráðgjöf á sviði lögfræði og dómsmála?Hvers vegna kemur Þjóðkirkjan svo illa út í fjölmiðlum sem raun ber vitni? Ég nefni stjórnsýslu innan kirkjunnar sem er ekki nógu vönduð eða skilvirk þegar ég ber hana saman við norsku kirkjuna. Hér er verk að vinna og ekki bara innan kirkjunnar heldur í þjóðfélaginu öllu.
Gott og vel. Kirkjan er mistæk. En hvað með að leggja kirkjuna til hliðar um stund og gleyma henni sem stofnun og mannlegu félagi, en huga að grunni kirkjunnar, Kristi sjálfum? Ertu á móti honum? Ertu á mót kærleiksboðskap hans? Ertu á móti kenningum hans um miskunn, náð, fyrirgefningu, viðurkenningu á öllu fólki, samstöðu með konum, skilningi hans á ólíkum viðhorfum fólks og lífsháttum? Hefurðu lesið Nýja testamentið og kynnt þér afstöðu Jesú til fólks á sínum tíma. Ertu virkilega á móti honum? Segja má að hann og Sókrates séu helstu hugsuðir og fulltrúar hinna tveggja elfa sem mynda hugsanafljótið. Ertu á móti þeim og þeirra hugmyndum? Hvorugur þeirra skrifaði staf á bók en eru báðir þekktir fyrir hugsanir sínar gegnum skrif annarra. Báðir voru dæmdir af yfirvöldum og teknir af lífi fyrir skoðanir sínar. En þar með var áhrifum þeirra ekki lokið.
Ég er í kirkjunni vegna þess að þar finn ég Krist og boðskap hans. Ég hitti þar líka manneskjur af öllu tagi, breyskar manneskjur, bara breyskar, mistækar eins og allar aðrar manneskjur, en betra vinnuumhverfi hef ég hvergi fundið og hef þó víða komið.
Hversu djúpt hefurðu hugsað afstöðu þína til lífsins, til fólks og heims? Hefur þú vit til að koma með eitthvað betra og dýpra en það sem fyllir hugsanafljótið og hefur tekið mörg þúsund ár að þroskast og þróast?
Maður nokkur hitti prest og sagði með fyrirlitningu að hann hefði engan áhuga á kirkjunni vegna þess að þar væru bara eintómir hræsnarar. Prestur svaraði og sagði: Hér er nú alltaf pláss fyrir einn í viðbót!
Gagnrýnisraddir
Á íslenskum fjölmiðlum starfar margt gott fólk og vel meinandi en á hinum síðari árum tel ég hafa sótt þangað einstaklingar sem virka mjög uppteknir af því að gagnrýna kirkju og kristni. Þetta er í flestum tilfellum ungt fólk með takmarkaða lífsreynslu eða skilning á sögu og menningu. Það telur sig margt vera hlutlaust og trúlaust en boðar samt trú sína - sem það kannast þó ekki við sem trú - með ekki síður miklum ákafa en trúboðinn sem frumbyggjar myrtu í Asíu og sagt var frá á RÚV á aðventunni. Fjölmiðlar eru ekki nógu prinsipp fastir að mínu mati því þeir leyfa starfsfólki í allt of mörgum tilfellum að vafra um í eigin hugmyndaheimi og fordómum án þess að vera rótfestir í gildagrunni síns miðils - ef hann er þá til á annað borð.
Ég tel að grunnskólar hafa brugðist hvað varðar miðlun hinna jákvæðu gilda sem bárust til landsins með kristninni. Ég hef hitt kennara sem veigruðu sér við að kenna kristinfræði vegna þess að þeir töldu sig ekki nógu trúaða? Hver hefur krafist þess að kennarar þurfi að játa kristna trú til þess að kenna um hana? Þurfa þeir að vera múslimar til að kenna um islam? Hvers vegna yfirgáfu Íslendingar sína gömul trú og tóku Kristni? Höfðu þeir ekki fundið betri lífsgrundvöll en þeir höfðu fyrir? Framhaldsskólar kenna varla staf um kristni eða kristna guðfræði. Við lærum ekki að hugsa á guðfræðilegum nótu og varla heldur heimspekilegum. Og því er umræðan eins og raun ber vitni á Alþingi, í fjölmiðlum, á netmiðlum og yfir latte- og expressobollum. Við erum ekki flink sem þjóð í rökræðum og erum fákunnandi í að ræða trú okkar. Margir eiga sína barnatrú sem aldrei hefur þó fengið að þroskast með rökræðum og því er hún lítt rædd.
Trú, lífsgildi og boðun
Hverju trúir þú? Hvaða trú boðar þú? Hvaða lífsviðhorf? Þú ert trúboði hvort sem þú vilt eða þorir að kannast við það eða ekki. Ég boða mína trú og gengst við því og skammast mín ekki fyrir það. Ég boða þá trú sem ég tel að hafi fært mér góðan og heilbrigðan lífsgrundvöll.
Lífsviðhorf má ræða, um hugmyndafræði má þrátta. Hugmyndafræði af öllum toga þarf að ræða og þrátta um. Hinn pólitíski rétttrúnaður, sem svo er nefndur, er stundum sagður borinn uppi af fólki á vinstri væng stjórnmálanna en fyrirfinnst í öllu hinu pólitíska litrófi held ég. Þessi rétttrúnaður leyfir ógjarnan að við Vesturlandabúar ræðum til dæmis inntak og hugmyndafræði islam. Slíkt er talin vanvirðing við múslima. En það má eftir sem áður tæta í sundur kirkju og kristni án þess að fulltrúar sama rétttrúnaðar lyfti sínum litla fingri. Við verðum að fá að ræða hugmyndafræðina, fá að fara í boltann, án þess að tækla fólkið sjálft. Kristin hugmyndafræði hefur verið tætt í sundur og brotin til mergjar í tvö þúsund ár og enn stenzt hún gagnrýni.
Þið, sem harðast gagnrýnið kirkju og kristni, búið við vestræn mannréttindi, sem sprottin eru úr hugsanafljótinu, sem Sókrates og Kristur eru helstu fulltrúar fyrir. Ykkur er velkomið að halda áfram gagnrýni ykkar. Tjáskipti eru mikilvæg og gagnrýni er þörf. Tjáningarfrelsi er stjórnarskrárvarinn réttur okkar allra. Gagnrýni á kirkju og kristni, á guðfræðikenningar og túlkun kirkjunnar á veruleikanum er ekki ný af nálinni. Kirkjan hefur sætt gagnrýni í tvö þúsund ár. Andstæðingar kirkju og kristni kunna að vinna einhverja sigra með gagnrýni sinni á hverjum tíma. Ég er ekki að fara fram á að ekki megi gagnrýna kirkjuna en ég bið um sanngirni og virðingu í tjáskiptum. Ég virði það að fólk hafi aðra trú en ég en ég bið fólk að skilgreina þá trú sína ekki á grundvelli illsku í garð kirkju og kristni heldur á eigin forsendum.
Sú gagnrýnin á kirkju og kristni, sem hent er á lofti nú á tímum, var þegar fyrir hendi á fyrstu öldum kristninnar. Öll rökin hefur kirkjan þekkt í tvöþúsund ár. Ekkert er nýtt undir sólunni, segir í máltækinu. Kirkjan hefur staðist þetta allt og svarað því öllu með sínum rökum fyrir margt löngu og gerir áfram með því að boða kærleiksboðskap Krists í orði og verki.
Kærleiksboðskapur Krists mun ekki úreldast og kirkjan lifir áfram. Íslenska þjóðkirkjan siglir nú í kröppum sjó en hún á hann að sem megnar að lægja vind og sjó. Þegar Pétri postula hafði opinberast hver Jesús væri í raun, sagði Jesús við hann: „Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.” (Matt 16.18)
Með bestu óskum um blessunarríkt nýtt ár.
Höfundur er sóknarprestur í Nes söfnuði í Noregi.