Þeim, sem tjáðu sig um ástand og horfur nú um áramótin, voru umhverfismálin ofarlega í huga og er ekki að undra. Varla er lengur um marktækan ágreining að ræða um að hlýnun lofthjúps jarðarinnar vegna losunar okkar á gróðurhúsalofttegundum muni valda þeim breytingum á veðurfari sem munu ógna fjölmennum samfélögum og jafnvel vistkerfunum í heild ef fram fer sem horfir. Ágreiningurinn er aðeins um hve hraðar og gagngerðar breytingarnar verða, sem fer eftir því hversu til tekst með að draga úr þessari losun.
Hlýnun lofthjúpsins hefur áhrif af tvennu tagi. Í fyrsta lagi munu stór svæði hætta að geta brauðfætt íbúana vegna minnkandi úrkomu og hækkandi hitastigs. Í öðru lagi veldur hlýnunin hækkandi sjávarstöðu, bæði með bráðnun jökulíss og þenslu vatnsins við hærra hitastig. Talið er nær óhjákvæmilegt að sjávarborð hækki af þessum sökum um hálfan metra á þessari öld og sumir spá miklu meiri hækkun. Þá eru þéttbýl strandsvæði og lágreistar eyjar í hættu.
Þetta hvort tveggja er líklegt til að raska svo búsetu á mögum þéttbýlum svæðum að búast má við stórfelldum fólksflutningum í þeim mæli sem ekki hafa áður sést. Við höfum nú þegar fundið smjörþefinn af slíku þar sem er hið títtnefnda flóttamannavandamál í Evrópu sem hefur kallað fram vaxandi andstöðu gegn viðtöku landflótta fólks. Viðbrögð stjórnvalda í Bandaríkjunum á landamærunum við Mexíkó benda ekki til þess að svona fólksflutningum verði tekið opnum örmum! Það þarf ugglaust fjörugra ímyndunarafl en mér er gefið til að gera sér viðhlítandi grein fyrir þeim ósköpum sem af þessu gæti leitt. Í þessu samhengi talaði David Attenborough um endalok þess sem við köllum siðmenningu.
Í samanburði við slíkar hamfarir eru jafnvel svo ömurleg fyrirbæri sem plastmengun sjávar og útdauði nokkurra dýrategunda næsta léttvæg.
Ýmsir telja að nú þegar sé of seint í rassinn gripið og hlýnun lofthjúpsins verði ekki stöðvuð úr þessu, hvað þá snúið við. Samt má ekki leggja árar í bát og vissulega er markvisst unnið að því að fá ríki heimsins til að bindast samtökum til að draga úr útblæstri en við ramman er þar reip að draga þar sem eftirspurn eftir orku er gríðarleg og sívaxandi og hún er að stærstum hluta framleidd með brennslu jarðefnaeldsneytis.
Þarna getum við Íslendingar lagt okkar litla lóð réttu megin á vogarskálarnar þar sem við búum yfir náttúrulegum orkulindum og það höfum við raunar gert með sölu raforku til álbræðslu, málmblendis, kísilvinnslu og gagnavera og getum gengið enn lengra í þá átt.
Fyrirætlanir í þá veru mæta hins vegar harðri andstöðu fólks sem metur meira að varðveita ásýnd landsins óbreytta en stuðla að því að skipta út brennslu jarðefnaeldsneytis fyrir lítt mengandi orkuvinnslu. Þegar þetta sama fólk læst hafa þungar áhyggjur af hlýnun jarðar finnst mér það komið í mótsögn við sig sjálft.
Ágætt dæmi um slíkan tvískinnung er málflutningur Andra Snævar Magnasonar í grein í Kjarnanum og í Kastljósi 7. janúar. Þar talaði hann eins og hann tryði því að við gætum stöðvað hinn orkufreka gröft eftir Bitcoin með því að neita að selja til þess rafmagn og að íslenskur orkumálastjóri gæti komið því til leiðar að álframleiðsla yrði skattlögð þannig að sá málmur yrði svo dýr að notkun hans yrði hætt að verulegu leyti. Já, langt er nú seilst til röksemda.
Engum þarf að blandast hugur um að væri þessari orkufreku starfsemi úthýst héðan yrði hún rekin annars staðar og þá knúin með brennslu kola eða olíu með tilheyrandi útblæstri koltvísýrings. Því hlýtur svo gáfaður maður sem Andri Snær að geta áttað sig á þó hann kjósi að tala á annan veg.
Það er vissulega vel meint að vernda fögur náttúrufyrirbæri svo afkomendur okkar geti notið þeirra en kemur til lítils ef allt fer á versta veg. Það leiðir hugann að gamalli myndasögu þar sem bjargvættur nokkur er látin segja við hinn nauðstadda: „Hafðu engar áhyggjur, ég skal bjarga þér þó það kosti okkur báða lífið“.