Hver kannast ekki við skammartilfinninguna ofarlega í kviðnum sem nístir mann þegar bent er á að maður hafi gert mistök?
Ég giska á að flest okkar þekki ágætlega þennan frumstæða verk, einfaldlega vegna þess að við gerum öll mistök og okkur finnst það óþægilegt því – eðli máls samkvæmt – gerast þau gegn vilja okkar.
Í gær var ég svo heppin að fá í fjórða sinn á einu ári að kenna nemum í heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands um mannréttindi. Í þetta sinn var þetta í Háskólabíó og um 400 fyrsta árs nemar sátu fyrirlesturinn varnarlausir eldsnemma á mánudagsmorgni, augljóslega komnir mislangt í því ferli að snúa við sólarhringnum eftir jólafríið.
Mér fannst þau svo falleg svona saman komin – þessar sifjuðu ungu manneskjur sem sumar munu hvítsloppaðar annast okkur í framtíðinni á okkar varnarlausustu stundum.
Ég var með eina glæru í lokin sem bar fyrirsögnina Trúnó og fjallaði um mistök sem gerð eru í heilbrigðiskerfinu. Ég deildi með nemendum þeirri reynslu minni að sem lögmaður hefðu slík mistakamál verið með þeim allra erfiðustu sem ég fékkst við, ekki síst vegna þess að kerfið varðist svo hatrammlega gegn viðurkenningu mistaka á allan hátt sem er afar kostnaðarsamt (bæði fjárhagslega og tilfinningalega) fyrir þann borgara sem brotið er á.
Ég kastaði því fram þeirri hugmynd að þau, sem heilbrigðisstarfsfólk framtíðarinnar, myndu þróa nýja afstöðu sem væri sú að gangast við og læra af augljósum mistökum frekar en hafna þeim og verjast fram í rauðan dauðann. Með þessum hætti væru meiri líkur á að allir lærðu af mistökum og að einstaklingar þyrftu ekki að burðast með sektartilfinningu vegna yfirklórs og afneitunar.
Ég fékk því miður staðfestingu á því hversu langt við eigum í land þegar ein hugrökk ung kona kallaði yfir allan salinn í Háskólabíó: „Fyrirgefðu, en okkur var kennt í hjúkrunarfræðinni nýlega að við ættum aldrei að játa mistök!”
Ég svaraði með þeim eina hætti sem ég gat út frá minni samvisku: „Það er siðferðilega út í hött.“
Eftir fyrirlesturinn spjallaði ég við prófessor í lyfjafræði sem benti á að hugsanlega þyrfti að lagfæra regluverkið svo heilbrigðisstarfsmenn yrðu ekki gerðir persónulega ábyrgir fyrir dómi á mannlegum mistökum. Ég held að það sé mjög góð hugmynd upp að því marki að ekki hafi verið um vítavert gáleysi að ræða (eins og t.d. ef einhver gerir mistök vegna ölvunar í starfi eða eitthvað slíkt).
Ástæðan fyrir því að lögregluofbeldi og læknamistök eru mun alvarlegri en annars konar brot í starfi er sú að fólkið sem fyrir verður missir traust á því kerfi sem á að vernda það. Það eru engin önnur sambærileg kerfi sem geta gripið fólk í tilteknum aðstæðum. Af minni reynslu að dæma upplifa þeir einstaklingar sem lenda í svona málum hálfgert aukaáfall yfir þeim ofsakenndu varnarviðbrögðum sem kerfin sýna í stað þess að gangast við mistökum sínum. Þá heggur gjarnan sá er hlífa skyldi. Fólk sem ber ótta gagnvart heilbrigðiskerfi og lögreglu er algerlega berskjaldað á þeim ögurstundum þegar öryggisnets er mest þörf.
Það að viðurkenna mistök, biðjast á þeim auðmjúklega afsökunar og sýna fram á að þau hafi verið notuð til að fyrirbyggja önnur sambærileg mistök, er að mínu mati, eina ábyrga leiðin til að fást við þá staðreynd að mistök munu ávallt eiga sér stað í öllum okkar sameiginlegum kerfum.
Ég held að flestum þyki mjög vænt um heilbrigðiskerfið okkar og við værum mjög mörg til í að sjá hugarfarsbreytingu í þessa átt. En slík hugarfarsbreyting krefst að sjálfsögðu hugrekkis. Hins vegar er það nú svo að með því að leggja niður varnir öðlumst við gjarnan bæði styrk og kjark. Við þetta bætist að hugrakkar gjörðir ala af sér aukið hugrekki. Út frá sömu forsendum held ég að kerfi sem hrekkur í sjálfvirka og hatramma varnarstöðu, þegar mannleg mistök koma upp, grafi með slíkum viðbrögðum undan sínum eigin stoðum.
Við eigum að kenna ungu fólki ábyrgð, gagnrýna hugsun og að standa með sjálfu sér.
Það að viðurkenna aldrei mistök heitir í mínum bókum aumingjaskapur og er eitruð afstaða í stóra samhenginu.