Þegar ég var þingmaður á árunum 2009-13 hitti ég oft fólk sem hafði lent í allskonar hremmingum í kerfinu. Þessar sögur voru margar hverjar lyginni líkastar og stundum trúði maður þeim vart. Þá reiddi fólk fram gögn - greiðsluyfirlit, úrskurði umboðsmanns Alþingis og tölvupóstssamskipti og maður skammaðist sín fyrir að vera hluti af þessu batteríi.
Á þessum tíma kynntist ég konu sem stundum mótmælti á Austurvelli. Hún sagði mér frá aðstæðum sínum. Hún var öryrki og gift manni frá ríki innan ESB. Þar höfðu þau búið um hríð og þess vegna fékk hún næstum engar örorkubætur. Ég man upphæðina ekki nákvæmlega en mánaðargreiðslan var langt innan við 50.000 krónur. Vegna tekna maka, sem þó voru óverulegar, átti konan enga rétt á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Þau lifðu á loftinu.
Þetta gat nú ekki átt að vera svona fannst mér og vildi endilega hjálpa eða í það minnsta reyna að skilja þetta. Konan sagði mér að hún væri í sambandi við starfsmann Öryrkjabandalagsins og saman væru þau að reyna að þoka þessu máli áfram. Umbeðin kom hún mér í samband við þann hjá ÖBÍ sem var að vinna í þessum málum og ég bauð fram aðstoð mína - ef það væri eitthvað sem ég gæti gert.
Starfsmaður ÖBÍ tók mér fagnandi og útskýrði framkvæmdina fyrir mér og að ÖBÍ teldi þetta gróft brot á mannréttindum fólks. Þau hjá bandalaginu ættu þó í mestu erfiðleikum með að fá þetta leiðrétt eða vinna í málinu því þau hefðu enga hugmynd um hve stór hópur þetta væri, hvaða fólk þetta væri og hve miklar skerðingarnar væru. Ítrekað hefði verið leitað til stjórnvalda og stofanna en ÖBÍ fengi einfaldlega engar upplýsingar.
Almennir þingmann hafa lítil völd en þeir geta spurt spurninga og krafist svara. Því lagði ég fram fyrirspurn til ráðherra 25. febrúar 2013 um skerðingar á greiðslum örorkulífeyrisþega vegna búsetu í útlöndum á árunum 2009-12. Svarið barst 15. mars sama ár og þá var umfangið loks ljóst. Þessar upplýsingar voru til í kerfinu allan tímann, Tryggingarstofnun vildi bara ekki láta þær af hendi. Stuttu seinna var kosið og ég hætti á þingi og gat því ekki fylgt málinu frekar eftir.
Nú hefur umboðsmaður Alþingis sent frá sér álit um að íslensk lög og framkvæmd Tryggingarstofnunar stangist á við evrópureglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa. Reglugerðin byggir á grunnreglum EES-réttarins um frjálsa för fólks, og henni er ætlað að koma í veg fyrir að fólk sem flytur milli ríkja innan EES-svæðisins missi almannatryggingaréttindi sem það hefur áunnið sér í viðkomandi ríkjum.
Nú sitja einhverjir starfsmenn Tryggingarstofunar sveittir við að reikna út hvað ríkið skuldar öryrkjum sem búið hafa í útlöndum en samkvæmt fréttum ætlar ríkið einungis að leiðrétta svikin fjögur ár aftur í tímann. Annað er sagt fyrnt þótt svikin hafi sennilega staðið yfir síðustu 25 ár. Ég er ekki lögfræðingur en ég veit ekki betur en að fyrningarfrestur rofni eða framlengist ef reynt er að rukka kröfuna. Það veit ég að Öryrkjabandalagið hefur reynt eftir bestu getu og þeim upplýsingum sem legið hafa fyrir hverju sinni, sem og einstaklingar sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum svikum ríkisins. Á sama tíma leggja sveitarfélögin á ráðin um hvernig hægt sé að ná fjárhagsaðstoð sem greidd var þessum hópi öryrkja til baka.
Getum við ekki bara ákveðið hér og nú að hætta að vera fávitar, leiðrétt þessi mistök og gætt þess að koma ekki svona fram við fólk í framtíðinni? Eða ætlar ríkið virkilega að draga lappirnar, láta öryrkja standa í málaferlum og tapa málinu svo eftir sjö ár fyrir mannréttindadómstól Evrópu?