Sú krafa sem heyrist hvað hæst í yfirstandandi kjarasamningalotu um að laun dugi fyrir framfærslu er afar skiljanleg. Í kröfugerð SGS segir t.d. að „launafólk geti framfleytt sér á dagvinnulaunum og þau mæti opinberum framfærsluviðmiðum“. Nýjasta dæmið um þessa áherslu má sjá í grein starfsmanns Eflingar, Stefáns Ólafssonar, í Kjarnanum þann 3. janúar síðastliðinn. Lestur þeirrar greinar leiðir þó berlega í ljós að krafan um að laun dugi fyrir opinberum framfærsluviðmiðum byggist á slysalegum misskilningi.
Í greininni er notast við dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins (áður velferðarráðuneytisins) fyrir barnlausan einstakling árið 2017 á verðlagi ársins 2018. Árið 2017 var þetta viðmið 223 þúsund krónur en skv. höfundi greinarinnar var það 229 þúsund krónur árið 2018. Fyrir utan að horft er framhjá vaxta- og húsnæðisbótum er vandinn er sá að viðmið þetta er ekki með nokkru móti eðlilegur mælikvarði fyrir einhverskonar „lágmarks framfærslukostnaði“. Skoðum nánar.
Neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins eru tvö. Annars vegar er það fyrrnefnt dæmigert viðmið sem byggist á miðgildi neyslu heimila eftir fjölda barna og fullorðna, auk annarra þátta, samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands. Það viðmið endurspeglar útgjöld heimilis sem eru meiri en hjá helmingi sambærilegra heimila en minni hjá hinum helmingi heimila. Við þetta viðmið er notast í fyrrnefndri grein – neysluviðmið þar sem enginn skal vera með minni neyslu en helmingur landsmanna. Eðli málsins samkvæmt er fráleitt og ómögulegt að nota slíkt viðmið sem lágmarksviðmið.
Hins vegar eru það grunnviðmið sem „…eiga að gefa vísbendingu um hver lágmarksútgjöld geti verið í ákveðnum útgjaldaflokkum“. Þau viðmið eru hjá flestum heimilisgerðum um 40-60% lægri en dæmigerða viðmiðið. Til dæmis er dæmigert neysluviðmið, án húsnæðis, fyrir barnlausan einstakling á höfuðborgarsvæðinu 229 þúsund krónur á verðlagi 2018 á meðan grunnviðmið er 95 þúsund krónur (223 og 93 þúsund á verðlagi 2017 sbr. graf). Með röksemdum Stefáns Ólafssonar hér að ofan er því lágmarksframfærsla fyrir barnlausan einstakling, með húsnæði, nær því að vera um 220 þúsund krónur á mánuði á verðlagi 2018, þ.e. samtala grunnviðmiðs (95 þúsund krónur) og það sem kallað er lágmarkshúsnæðiskostnaður (125 þúsund krónur). Það er töluvert lægri upphæð en útborguð lágmarkslaun eru í dag.
Þessi notkun á dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins setur köfugerðir verkalýðsfélaganna í nýtt samhengi. Beiting þessa viðmiðs við kröfugerð veldur því að þriðju hæstu lágmarkslaun í heimi dugi ekki til að lifa af og leiða til kröfu um að útborguð lágmarkslaun nánast tvöfaldist á skömmum tíma. Eðli kröfunnar um 425.000 króna skattfrjáls lágmarks mánaðarlaun kemur enn skýrar í ljós þegar hún er borin saman við niðurstöður Hagstofunnar um regluleg laun fullvinnandi einstaklings. Meðallaunin, sem voru 585 þ.kr. árið 2017, skila nánast jafn miklu í vasann og ætluð lágmarkslaun eða 427 þ.kr eftir skatt. Þannig myndi launþegi á lágmarkslaunum ná að lifa skv. dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. Fleiri dæmi eru um þessa notkun á miðgildi útgjalda (dæmigerða neysluviðmiðið) sem mælikvarða á lágmarksframfærslu og það skýrasta er líklega í auglýsingu LÍV, SGS og VR sem birtist í október á síðasta ári.
Góð samfélög leggja sig fram um að fólk fái tækifæri til þess að afla tekna fyrir sig og sína svo það geti lifað sómasamlegu lífi. Ef það stendur einhverjum ekki til boða, t.d. vegna veikinda eða fötlunar, þá á samfélagið og velferðarkerfið að grípa fólk og styðja við það. Krafan um að lágmarkslaun og bætur dugi fyrir framfærslu er því eðlileg og skiljanleg. Vandinn er sá að ekki er til einn mælikvarði á hvað þarf til framfærslu líkt og félagsmálaráðuneytið bendir á.
Mikilvægt er að ákvarðanir á vinnumarkaði og hjá hinu opinbera um lágmarksframfærslu byggi ekki á fölskum forsendum. Þess vegna þarf að halda til haga að það er stærðfræðilega ómögulegt að enginn geti verið undir Meðal-Jóni og -Gunnu þegar kemur að neyslu heimila, nema neysla allra sé sú sama líkt sést á meðfylgjandi sýnidæmi. Krafan um að laun fylgi dæmigerðum neysluútgjöldum getur því aldrei verið grundvöllur ákvarðana um launabreytingar í landinu og er skaðleg upplýstri umræðu. Vonandi eru slík vinnubrögð ekki það sem koma skal í kjaraviðræðum ársins 2019.
Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
Krafa verkalýðsfélaganna er að allir geti staðið straum af miðgildisútgjöldum sem gengur aðeins upp ef útgjöld allra eru þau sömu eins og hópur B sýnir. Verði aftur á móti gengið að kröfunum mun miðgildi neysluútgjalda hækka, sem kallar á frekari hækkun lágmarkslauna til samræmis við dæmigerða neysluviðmiðið. Þannig myndast spírall sem engan enda tekur.