Auglýsing

Eitt af síð­ustu verkum Alþingis fyrir jóla­frí var að afgreiða frum­varp um breyt­ingar á lögum vegna afnáms ákvæða um upp­reist æru. Ástæðan fyrir því að ráð­ist var í þessar breyt­ingar ætti að vera öllum aug­ljós: Upp­reist æru fyr­ir­komu­lag­ið, með sitt hulda fyr­ir­greiðslu­form þar sem áhrifa­menn í sam­fé­lag­inu kvitt­uðu upp á synda­af­lausnir fyrir dæmda glæpa­menn, var aug­ljós­lega ekki boð­legt í nútíma­sam­fé­lagi.

Á meðal þess sem þurfti að breyta í mýmörgum lögum var að fella þurfti á brott orðin „óflekkað mann­orð“, sem krafa var gerð um í þeim að væri til stað­ar. Í mörgum til­vikum er þess í stað gerð krafa um „gott orð­spor“, sér­stak­lega í þeim laga­bálkum sem snúa að fjár­mála­kerf­inu.

Það hug­tak er ekki almenni­lega skil­greint í lög­um, en er þó að finna í lögum um fjár­mála­fyr­ir­tæki. Þar seg­ir: „Stjórn­ar­menn og fram­kvæmda­stjóri skulu vera lög­ráða og hafa gott orð­spor og mega ekki á síð­ustu fimm árum hafa verið úrskurð­aðir gjald­þrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnu­rekstur hafa hlotið dóm á síð­ustu tíu árum fyrir refsi­verðan verkn­að.“

Auglýsing
Í reglum um fram­kvæmd hæf­is­mats fram­kvæmda­stjóra og stjórn­ar­manna fjár­mála­fyr­ir­tækja, sem settar voru í októ­ber 2012, er þó settur rammi utan um hug­tak­ið. Í þeim segir að fram­kvæmda­stjórar og stjórn­ar­menn í fjár­mála­fyr­ir­tækjum megi „ekki hafa sýnt af sér hátt­semi, athöfn eða athafna­leysi, sem gefur til­efni til að draga megi í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heil­brigðum rekstri eða að líkur séu til að þeir muni hugs­an­lega mis­nota aðstöðu sína eða skaða félag­ið. Við matið er m.a. litið til hátt­semi aðila sem kynni að rýra trú­verð­ug­leika hans og skaða orð­spor fjár­mála­fyr­ir­tæk­is­ins ef opin­ber væri. Jafn­framt er höfð hlið­sjón af fyrri afskiptum Fjár­mála­eft­ir­lits­ins vegna starfa aðila eða vegna starfs­hátta eft­ir­lits­skylds aðila sem hann var í for­svari fyrir eða bar ábyrgð á.“

Er orð­spor íslenska fjár­mála­geirans gott?

Nú liggur fyrir að orð­spor íslenska banka­kerf­is­ins sem heildar er ekki gott, hvorki inn­an­lands né erlend­is. Ástæður þess liggja í banka­hrun­inu 2008, aðdrag­anda þess og eft­ir­mál­um.

Erlendis voru leik­endur með reynslu löngu búnir að sjá hversu mikil spila­borg íslenska banka­kerfið var, áður en það hrundi. Eftir að aðgangur íslensku bank­anna að því að sækja lánsfé á alþjóð­lega lána­mark­aði tak­mark­að­ist á árunum 2006 og 2007 drógu þeir ekki saman segl­in, heldur fundu nýjar, afdrifa­ríkar og alveg jafn áhættu­samar leiðir til að end­ur­fjár­magna sig.

Það fólst aðal­lega í söfnun inn­lána erlendis á ósjálf­bærum vöxtum og skamm­tíma­veð­lán­um, stundum kölluð ásta­bréfa­við­skipti, þar sem eignir voru veð­settar fyrir lausa­fjár­fyr­ir­greiðslu hjá seðla­bönk­um. Þetta sáu erlendir bankar strax í lok árs 2007 og upp­hafi árs 2008. Þetta sáu grein­ing­ar­að­ilar sömu­leiðis og þetta sáu erlendir seðla­bankar þegar leið á árið 2008, og þeir fóru að kvarta yfir því við íslensk yfir­völd að íslensku bank­arnir væru að mis­nota þær leiðir til end­ur­hverfra við­skipta sem boðið var upp á til að veita bönkum lausa­fjár­fyr­ir­greiðslu. Um það má meðal ann­ars lesa í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis.

Eft­ir­lits­stofn­anir í löndum þar sem íslensku bank­arnir störf­uðu höfðu miklar áhyggjur af starf­semi þeirra löngu áður en þeir lögð­ust á hlið­ina. Þegar lána­mark­aðir lok­uð­ust fyrir íslensku bank­ana fóru þeir að beita óhefð­bundnum – og ólög­legum – leiðum til að halda sér á floti. Marg­háttuð umboðs­svik, alls­herj­ar­mark­aðs­mis­notkun og ótrú­leg áhættu­sækni í við­leitni sinni til að lifa af var það sem af þessu leiddi.

Að end­ur­skrifa sög­una ...

Þeir sem báru ábyrgð á þessu ástandi með beinum eða óbeinum hætti, hafa reynt að end­ur­skrifa sögu banka­hruns­ins síð­ast­lið­inn ára­tug. Helsta til­raun þeirra snýst um að selja svo­kall­aða umsát­urs­kenn­ingu, en í henni felst að ekk­ert sér­ís­lenskt hafi verið við það ástand sem skap­að­ist á Íslandi og olli hrun­inu. Að geisað hafi alþjóð­legt fár­viðri á fjár­mála­mörk­uðum og að Ísland hafi ein­fald­lega verið fórn­ar­lamb þess. Erlend ríkí og seðla­bankar hafi neitað að rétta Íslandi hjálp­ar­hönd og þess í stað brugðið fæti fyrir litla eyþjóð.

Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið fól meira að segja Hann­esi Hólm­steini Giss­ur­ar­syni, póli­tískum áróð­urs­manni sem átt hefur í við­skipta­sam­bandi við nokkra fyrr­ver­andi lyk­il­starfs- og stjórn­ar­menn hrun­banka við rekstur bóka­út­gáfu sem gefur meðal ann­ars út bækur um þeirra útgáfu af sögu síð­ustu ára, að gera skýrslu um helstu erlendu áhrifa­þætti banka­hruns­ins. Fyrir það fékk hann greitt tíu millj­ónir króna af skatt­fé.

Nið­ur­staða hans, sem byggði að mestu á við­tölum við helstu ger­endur í bönk­unum og stjórn­sýsl­unni fyrir hrun, var að íslensku bank­arnir hefðu í raun ekk­ert verið lak­ari en aðrir bankar, að Seðla­banki Íslands, og sér­stak­lega Davíð Odds­son, hafi verið hróp­andi í eyði­mörk­inni og séð allt sem miður fór fyr­ir, og að erlend ríki hafi hagað sér rudda­lega og með óbil­gjörnum hætti gagn­vart Íslandi á ögur­stundu.

Davíð Odds­son, sólin í sól­kerfi Hann­esar Hólm­steins, er nefndur 163 sinnum í skýrsl­unni og Ices­ave 211 sinn­um. Kaup íslensku bank­anna á eigin bréfum með eigin pen­ingum og for­dæma­lausir dómar vegna þeirra eru nefnd einu sinni.

... lagar ekki orð­sporið

Í skýrsl­unni heldur Hannes Hólm­steinn því hins vegar fram að brot íslensku banka­mann­anna, í sumum til­fellum heim­ild­ar­manna skýrslu hans, séu „mis­dem­eanor­s“, sem mætti þýða sem væg lög­brot. Hæsti­réttur Íslands er vit­an­lega að öllu leyti ósam­mála Hann­esi Hólm­steini og lýsti þessum brotum sem alvar­leg­ustu efna­hags­brotum Íslands­sög­unnar.

Auglýsing
Hannes Hólm­steinn heldur því blákalt fram að engin tengsl virð­ist vera milli þess­ara „vægu lög­brota“ og falls íslenska banka­kerf­is­ins. Hegðun íslensku banka­mann­anna á síð­ustu metrum til­veru kerf­is­ins verði að vera sett í sam­hengi, og að þeir hafi lík­ast til ekk­ert verið neitt betri eða verri en banka­menn ann­ars stað­ar, þar sem þó hafa ekki fallið níð­þungir dómar vegna for­dæma­lausra glæpa.

Hin „vægu lög­brot“ íslensku banka­mann­anna hafi aðal­lega, sam­kvæmt nið­ur­stöðu Hann­esar Hólm­steins, verið vegna örvænt­ing­ar­fullra til­rauna sumra banka­manna og við­skipta­vina þeirra að „lifa af láns­fjár­krís­una með mark­aðs­mis­notk­un“. Hannes Hólm­steinn dregur þá ályktun að íslensku banka­menn­irnir hafi verið „hug­mynda­ríkir og snjallir á árunum 2006-2008, eftir að þeir voru sviptir aðgengi að láns­fé, á við­un­andi kjörum, á evr­ópskum mark­að­i“.

Þessi skýrsla hefur verið afhent sumum erlendum ráða­mönnum. Og aðrir slíkir hafa orðið sér úti um hana. Sam­ræður við diplómata gefa það skýrt til kynna að hún hafi sann­ar­lega ekki bætt orð­spor Íslend­inga erlend­is. Þvert á móti.

Íslenskur almenn­ingur treystir ekki bönkum

Inn­an­lands er orð­spor íslenska banka­kerf­is­ins ekk­ert betra.

Í byrjun árs 2008 treystu 40 pró­sent lands­manna banka­kerf­inu á Íslandi. Ári síðar mæld­ist traust á banka­kerfið fjögur pró­sent. Þótt traustið hafi bragg­ast eilítið sam­hliða því að við höfum bætt reglu­verkið í kringum fjár­mála­starf­semi, að end­ur­skipu­lagn­ingu við­skipta­lífs­ins eftir for­dæma­laust banka­hrun er lokið og að gríð­ar­legur við­snún­ingur hefur átt sér stað í efna­hags­lífi Íslands þá hefur traustið ekki end­ur­heimst nema að litlu leyti.

Í októ­ber 2018 sögð­ust ein­ungis 16 pró­sent þjóð­ar­innar treysta banka­kerfi sem þó er að langstærstu leyti í eigu íslenska rík­is­ins. Og 57 pró­sent sögð­ust alls ekki treysta því.

Að hluta til er þetta sögu­leg arf­leið þjóðar með langvar­andi áfallastreituröskun í kjöl­far banka­hruns sem hafði mikil og oft eyði­leggj­andi áhrif á mörg svið sam­fé­lags­ins. Banka­hruns sem orsak­aði það að krónan veikt­ist um tugi pró­senta, að verð­bólga fór í 18,6 pró­sent um tíma, stýri­vextir í 18 pró­sent, atvinnu­leysi í tveggja stafa tölu, rík­is­sjóður fór úr því að vera nær skuld­laus í að verða nær gjald­þrota, skuldir heim­ila marg­föld­uð­ust, skattar voru hækk­að­ir, sparn­aður tap­að­ist, neyð­ar­lög tóku gildi, fjár­magns­höft voru sett, Íslands þurfti að leita til Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins eftir aðstoð og allt traust milli almenn­ings og stofn­ana sam­fé­lags­ins hvarf. Ástæðu þess­ara afleið­inga, sem íslenskur almenn­ingur þurfti að axla, var að finna í atferli íslenskra banka, og þeirra sem stjórn­uðu þeim.

Orð­sporið síð­asta ára­tug­inn

En traust­leysið liggur líka í því hvernig hlut­irnir hafa atvikast á síð­ast­liðnum ára­tug. Þótt reglu­verk hafi verið hert til muna, eft­ir­lit styrkt, bank­arnir þvegnir og atvinnu­lífið end­ur­skipu­lagt þá liggur samt sem áður fyrir að stærstu ger­endur hruns­ins eru enn á meðal mestu áhrifa­manna í íslensku við­skipta­lífi.

Margir þeirra hafa verið opin­beraðir sem eig­endur aflands­fé­laga sem voru stút­fyllt af pen­ingum fyrir hrun, þeim síðan haldið frá skatta­yf­ir­völdum og rétt­mætum kröfu­höf­um, og pen­ing­arnir loks fluttir aftur til Íslands með lið­sinni Seðla­banka Íslands til að kaupa upp eignir á bruna­út­sölu.

Orð­spor þeirra, sem hefur kostað líf­eyr­is­sjóði og aðra kröfu­hafa millj­arða króna, virð­ist þar engu máli skipta. Þeir fá fyr­ir­greiðslu í bönkum og líf­eyr­is­sjóðir og jafn­vel opin­berir aðilar eru meira en til­búnir til að vinna með þeim.

Auglýsing
Þá liggur fyrir að for­stjóri Kviku banka, Ármann Þor­valds­son, átti félag sem fór nýverið í 5,7 millj­arða króna gjald­þrot. Annar banka­stjóri, Hösk­uldur Ólafs­son hjá Arion banka, stýrði korta­fyr­ir­tæki sem var dæmt í Hæsta­rétti árið 2016 til að greiða hálfan millj­arð króna í sekt vegna brota þess á sam­keppn­is­lögum á meðan að núver­andi banka­stjór­inn stýrði því. Í stjórn Kviku situr Guð­mundur Örn Þórð­ar­son, sem er til rann­sóknar hjá hér­aðs­sak­sókn­ara í máli sem snýst um meint umboðs­svik, skila­svik, mögu­leg mútu­brot og mögu­leg brot á lögum um pen­inga­þvætti. Í því máli, eru raunar fimm ein­stak­lingar til rann­sóknar. Tveir þeirra, Svan­hildur Nanna Vig­fús­dóttir og Einar Örn Ólafs­son, sitja í stjórnum ann­ars vegar VÍS og hins vegar TM, en trygg­inga­fé­lög eru stórir fjár­festar á Íslandi og lúta því eft­ir­liti Fjár­mála­eft­ir­lits­ins. Þá er vert að rifja upp að einn fimm­menn­ing­anna, Halla Sig­rún Hjart­ar­dótt­ir, var um tíma stjórn­ar­for­maður Fjár­mála­eft­ir­lits­ins í umboði þáver­andi og núver­andi fjár­mála- og efna­hags­mála­ráð­herra.

Ekk­ert ofan­greint þykir fela í sér hátt­semi eða athöfn til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heil­brigðum rekstri. Ekk­ert ofan­greint þykir benda til þess að líkur séu til að við­kom­andi muni hugs­an­lega mis­nota aðstöðu sína eða skaða fyr­ir­tækin sem þeir stýra eða stjórna. Ekk­ert ofan­greint er talið rýra trú­verð­ug­leika eða skaða orð­spor fjár­mála­fyr­ir­tæk­is.

Þar með verður krafan um gott orð­spor ómark­tæk.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari