Frá því að fjöldaframleiðsla hófst á plasti um miðja tuttugustu öldina hefur plast heldur betur rutt sér til rúms í lífi okkar og finnast nú plastagnir m.a. í sjó, landi, lofti, fæðu og í vefjum dýra og manna. Framleiðslan á plasti hefur aukist mikið á síðustu áratugum þar sem efnið er ódýrt, létt og auðvelt í framleiðslu. Jafnframt er plast slitsterkt og endingartíminn langur. Þessi aukna framleiðsla og notkun heimsbyggðarinnar á plasti hefur leitt til þess að efnið er nú að finna í hverjum krók og kima jarðarinnar. Meira en 8 milljón tonn af plasti endar í sjónum á hverju ári og hafa nú heilu plasteyjurnar myndast m.a. í Kyrrahafi, Atlandshafi og Indlandshafi. Plast er efni sem eyðist ekki í náttúrunni heldur brotnar það niður í smærri einingar þ.e. örplast. Örplast hefur fundist í fisknum sem við borðum, kranavatninu sem við drekkum og í loftinu sem við öndum að okkur. Örplast er bókstaflega allstaðar í kringum okkur en þar sem rannsóknir eru komnar stutt á veg er erfitt að vita hversu mikil áhrif örplast hefur á heilsu manna. Það er þó ljóst að ýmsum skaðlegum efnum er bætt út í plast við framleiðsluna og við notkun á plasti geta þessi eiturefni losnað úr læðingi og haft skaðleg áhrif á heilsu manna, dýra og umhverfi.
Plast er efni sem endist í um þúsund ár en einhvern veginn hefur sóunar-neyslumenning undanfarinna kynslóða þróað með sér það viðhorf að líta á þetta endingargóða efni sem einnota. Notkunin er orðin svo óhemju mikil að plast er nú orðið að einu stærsta umhverfisvandamáli samtímans.
Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (2018) hafa um 60 lönd lagt á bann eða ákveðið gjald til að draga úr notkun á einnota plasti og hafa þessar stjórnvaldsaðgerðir að mestu leyti snúið að plastpokum og frauðplasti. Ísland er ekki eitt af þessum löndum.
Plastpokanotkun hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og ákveðin vitundarvakning orðið varðandi skaðsemi „einnota“ plastpoka. Talið er að um einn til fimm trilljón plastpokar séu notaðir í heiminum á hverju ári. Fimm trilljónir plastpokar á ári samsvara tíu milljón plastpokum á mínútu. Ef við myndum binda þessa plastpoka saman myndu þeir þekja landsvæði tvisvar sinnum stærra en Frakkland. Einungis um 9% af því plasti sem framleitt hefur verið í heiminum hefur verið endurunnið en flest plast endar í urðun eða náttúrunni. Plast, ólíkt gleri og áli, er ekki hægt að endurvinna endalaust heldur er einungis hægt að endurvinna það í annað plast af lélegri gæðum. Eftir nokkrar umferðir af endurvinnslu þarf því að fleygja plastinu þar sem það mun taka margar aldir að brotna niður. Ein plastflaska mun t.d. lifa í einhverju formi á jörðinni í að minnsta kosti 450 ár. Það er augljóst að plastfaraldurinn er vandamál sem við munum ekki flokka okkur í gegnum heldur þarf neyslan á einnota plasti að snarminnka eða hreinlega hætta. Til að raunverulegar breytingar á neyslumynstri geti átt sér stað þurfa stjórnvöld að taka af skarið. Stjórnvöld nota nú þegar ýmiss stjórnvaldstæki til að hafa áhrif á neytendahegðun og má þar nefna skatt á áfengi og tóbak. Þetta er talið réttlætanlegt til að vernda heilsu okkar en ekki síður vegna samfélagskostnaðar af notkuninni.
Mörg lönd hafa sett reglugerðir varðandi plastpoka sem hefur skilað sér í bættri neysluhegðun. Írland lagði t.d. skatt á plastpoka árið 2002, betur þekkt sem „PlasTax“. Skatturinn var lagður á í von um breytta neysluhegðun og aukinnar notkunar á fjölnota burðarpokum. Aðgerðin hafði þau áhrif að plastpokaneysla Íra drógst saman um 90% á einu ári og ennfremur varð aukin vitundarvakning á fleiri umhverfisvandamálum. Fordæmi Íra sýnir tvímælalaust fram á að nægilega há gjöld geta haft áhrif á neysluhegðun.
Ísland hefur enn ekki sett neinar álögur eða bann á einnota plastumbúðir en starfshópur sem skipaður var af umhverfisráðherra hefur lagt til að ýmsar einnota plastvörur og innflutningur á snyrtivörum sem innihalda örplast verði bannaður. Jafnframt stefnir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á að leggja fram frumvarp varðandi bann á einnota burðarplastpokum.
Vert er að taka fram að plastpokinn skiptir að sjálfsögðu ekki meginmáli í stóra samhenginu þar sem fjölmargar og í raun allflestar neysluvörur, sem fara ofan í pokann, eru óumhverfisvænar. Draga þarf úr allri neyslu ef vel á að vera. Hins vegar höfum við hvorki tíma né efni á að „forgangsraða“ þegar kemur að umhverfismálum. Ef við getum minnkað neyslu á einnota, óþarfa plastpokum, þá eigum við að gera það. Ennfremur gæti aðgerð af þessu tagi leitt til vitundarvakningar á fleiri umhverfisvandamálum sem við virðumst vera blindari fyrir. Ef rúmlega 60 önnur lönd í heiminum hafa með einhverjum hætti bannað notkun á plasti þá hljótum við á Íslandi að geta gert það sama.