Nýverið stóðum við á sögulegum tímamótum við fimm alda ártíð Marteins Luther er hann gerði Kaþólsku kirkjunni heyrinkunnugt að menn þar á bæ hefðu kyrfilega beygt af leið með ýmsa hugmyndafræði og stofnanir kaþólsku kirkjunnar. Hann braut blað í kirkjusögu okkar á þann táknræna máta að negla 95 gagnrýnar rökfærslur sínar á kirkjudyr hinna Heilögu Dýrlinga í Wittenberg Þýskalandi. Sjálfdekraðir embættismenn höfðu öldum saman unnið ötullega við að koma sér upp kerfi þar sem hver silkihúfan við aðra yljaði sér við ríkulegan aðbúnað, lúxus og friðhelgi í einangrun frá alþýðunni. Efnishyggja innan kaþólsku kirkjunnar gegnsýrði svo huga embættismanna að m.a. afleiðuviðskipti voru gerð út á samvisku alþýðunnar með útgáfu aflátsbréfa um syndaaflausn,- svona nokkurskonar glæpa-afsal. Fyrirgefningin var orðin söluvara, yfirbótin greiðsla og iðrunin skipti ekki máli. Féð var m.a. notað til byggingar Péturskirkjunnar í Róm sem gilti einu því samviska fólks var falboðin á altari mammons en fátt gat verið fjarri þeim fallega og göfuga boðskap sem Jesú Kristur lifði fyrir meðal okkar, þá 1.500 árum fyrr.
Sú kærleiksríka hugmyndafræði sem Jesú eftirlét mannkyni grundvallast nefnilega á auðmýkt og heiðarleika og úthýsir þar með hræsni og samfélagslegri mismunun.
Það er auðvitað ólíku jafna að bera saman tíðaranda nútíma stjórnmála og tilvistarkreppu kaþólsku kirkjunnar fyrir fimm hundruð árum síðan en leitið og þér munuð finna. Mannleg hegðun er söm við sig óháð stund og stað og hvergi kristallast betur þeir brestir sem mannskepnan þarf að glíma við en einmitt í hliðrænum veruleika valds og forréttinda.
Í okkar fámenna þjóðfélagi starfa stjórnmálaflokkar sem ýmist kenna sig við frelsi, jöfnuð, umhverfismál eða framfarir svo nefndir séu þeir sem lengst hafa starfað. Hugmyndafræði, hver sem hún er, verður hjóm eitt ef heiðarleika skortir gagnvart meginþorra þess sem hugmyndafræðin á að þjóna.
Einstaklingar og stofnanir þessara flokka hafa einangrast í sjálfsdekri og hliðrænum veruleika þess þorra almennings sem þeir eiga að starfa fyrir. Núgildandi stjórnarskrá er skjól valdbjögunar þeirra sem vilja sitja að sérkjörum og auðlindum almennings sér og sínum í hag. Þessi úrelda rúmlega 70 ára stjórnarskrá með örlitlum breytingum er það skjól sem sérhagsmunahópar okkar fámenna þjóðfélags hagnast í. Stjórnarskráin gamla tryggir misvægi atkvæða, samþjöppun valds og bjögun sem er hinn frjósami jarðvegur kunningjakapítalismans sem byggir ávalt á sérréttindum fárra á kostnað fjöldans. Mörg lagafrumvörp núverandi flokka taka eingöngu mið af viðskiptahagsmunum fárra og eru brúkuð sem viðskiptamódel í þágu þeirra þjálu frekar en þjóðhagstengd hagstjórnartæki í þágu fjöldans. Heilbrigt þjóðfélag byggir á hagsmunum allra, ekki bara sumra umfram flesta. Ekki þarf að nefna nema lög um framsal aflaheimilda í eigu þjóðar sem rann í vasa einkaaðila. Lög um heimild til veðsetningar aflaheimilda í eigu þjóðar sem einkaaðilar fengu að veðsetja gegn aðgangi fjármagns til eigin fjárfestinga. Nýleg lög um makríl inn í kvóta þrátt fyrir andstæðu almennings við fyrri lög af sama meiði. Nýsamþykkt lög um lækkun veiðigjalds fyrir nýtingu afla í eigu þjóðar. Nýsamþykkt lög flokka um aukið fjármagn úr sameiginlegum sjóðum til þeirra sjálfra. Svo má nefna lög sem ekki eru samþykkt til varnar almenningi en þjóna sérhagsmunum fárra s.s. ekki lög um aðskilnað fjárfestingabanka frá viðskiptasviði innan sömu stofnunar. Lög sem ekki eru samþykkt til afnáms verðtryggingar osfrv.,osfrv. Dæmin eru mýmörg og hér einungis stiklað á stóru og af nægu að taka.
Auðvitað þarf að vernda réttindi og starfsumhverfi útgerðaraðila, fjármagnseigenda og annars atvinnulífs til jafns við almenning og tryggja atvinnufyrirtækjum hagfellt umhverfi en samþjöppun og bjögun valds er varasöm þróun í lýðræðisríki sem vert er að minnast á þegar 10 ár eru liðin frá hruni. Orsakir hrunsins má rekja til einkavæðingar fjármálastofnana í eigu almennings í hendur kunningja ríkjandi stjórnmálaflokka.
Einungis 20% landsmanna bera traust til bankanna samkvæmt könnun Gallup í febrúar 2018 og einungis 28% bera traust til Fjármálaeftirlitsins.
Ástæða? Einkavæðing bankanna, orsök, vanræksla og afleiðingar.
Um reyfarakennda starfshætti fyrri einkavæðingar má m.a. lesa í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, 2010, 1, 6: 263). Þar er sagt frá leynifundi í London milli starfsmanns framkvæmdanefndar um einkavæðingu og ráðgjafa HSBC bankans þar sem ákvörðun var tekin um bjögun á fyrra matslíkani með þeim hætti að „rétt” niðurstaða fengist Samson í hag. Þarna var verið að leggja drög að sölu Landsbankans (þjóðareign) til Samson (Björgólfsfeðga) á lakara verði en önnur tilboð hljóðuðu, m.a. frá Sænska Enskilda bankanum. Ekki þarf að tíunda aðferðafræði við svokallaða einkavæðingu til s-hópsins á annari þjóðareign, Búnaðarbankanum. Blóðtaka almennings vegna einkavæðingar bankanna 2002-3 tekur marga áratugi að leiðrétta og má ekki endurtaka sig. Heilbrigðis, mennta og vegakerfi lögðust nánast á hliðina, tugþúsundir misstu heimili og lífsafkomu, kauphöllin þurrkaðist út, lífeyrisréttindi skertust verulega og afleiðingarnar eru enn að koma fram. Við þurfum að minna okkur á þennan manngerða harmleik þó fátt sé leiðinlegra en að rifja upp þessi pólitísku myrkraverk. Tilgangur áminningarinnar er hins vegar mikilvægur, þennan hildarleik má ekki endurtaka.
Nú er vá fyrir dyrum hjá Íslenskri þjóð.
Til stendur að einkavæða á ný bankakerfið undir stjórn sömu flokka og einkavæddu bankakerfið fyrir 16-17 árum að viðbættum stuðningi Vinstri Grænna. Búið er að hleypa erlendum vogunarsjóð, sem grímu gamalkunnra einkafjárfesta, inn í Arion áður Kaupþing, áður Búnaðarbanka. Þjóð veit þá þrír vita, þessi gjörningur og framkvæmd hans vekur óhug í vitund þess sem opna vill augun. Í þessu tiltekna máli hafa fjármálaeftirlit og fjölmiðlar vanrækt skyldu sína svo um munar. Spilin hafa verið stokkuð og nýr valdakapall verið lagður gegnum þrjár ríkisstjórnir sem miðar að því að koma fjármálakerfinu á ný í hendur þjálla aðila með skipulögðum hætti á kostnað almennings. Það er einfalt að lesa í þennan kapal og höfunda hans en bls 283 og 284 í nýútkominni hvítbók segir allt sem segja þarf um hvaða einstaklingar og flokkar ætla sér aukið fé og völd í einkavæðingu númer tvö á fjármálakerfi þjóðarinnar. Nú er vá sem vert er að bregðast við í tíma.
Telja stjórnmálamenn sömu flokka og framkvæmdu fyrri einkavæðingu virkilega að þeir hafi traust almennings til annarrar einkavæðingar á nýju kennitölum gömlu bankanna?
Einungis 29% almennings ber traust til Alþingis samkvæmt sömu febrúarkönnun Gallup. Skýring? Hvernig svo sem spilling er skilgreind eða auðkennd í Íslenskum stjórnmálum þá smýgur hún inn í bresti samfélags og brýtur gegn trausti. Alþingi, stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar brugðust umbjóðendum sínum og gera enn.
Hvað varð um siðbót í Íslenskum stjórnmálum?
Stjórnmálamenn hljóta að gera sér grein fyrir því að við búum við aðhaldslitlar leikreglur sem verður að bæta úr. Hrunið var raunveruleika-áfall og höggbylgja fyrir Íslenskt samfélag sem ól af sér viðamikla rannsóknarskýrslu sem afhjúpaði sérhagsmunastjórnmál sem aldrei fyrr og undirstrikaði mikilvægi nýrrar stjórnarskrár. Hrunið kallaði á uppfærslu stjórnarskrárinnar sem fólkið í landinu samþykkti að tveimur þriðju meirihluta í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. okt 2012. Samþykkt var að frumvarp Stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Ekki í breyttri mynd, heldur nýrri stjórnarskrá. Þrátt fyrir skýran vilja Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu telur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nauðsyn að hafa í sáttmála sínum ákvæði um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar með aðkomu allra flokka. Þessi túlkun er valdbjögun og gengur gegn eðli og hefð lýðræðis Íslands og vilja almennings sem þegar hefur kosið sér nýja stjórnarskrá.
Það eru þessir sammennsku eðlisbrestir, græðgin, sem eiga rætur sínar til valds- og efnishyggju sem við þurfum sífellt að takast á við og er nýja stjórnarskráin mikilvæg bót þar á og stuðningur við lýðræðisþróun okkar. Hún veitir stjórnmálamönnum- og flokkum aðhald.
Þetta sagði Kristur, „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra”.
Sjálfskömmtun stjórnmálamanna á tugprósenta launahækkunum umfram aðra, með því að hafna ekki úrskurði kjararáðs, er auðvitað ein af hrópandi öfugmælum þess kristilega sannleika sem menning okkar byggir á.
Nýja stjórnarskráin er siðbót Íslenskra stjórnmála og forgangsmál okkar Íslendinga, allt annað er skrumskæling lýðræðisins.
Höfundur er áhugamaður um betra líf.