Nú er vorönn flestra framhaldsskóla hafin og því ágætt fyrir nemendur að átta sig á hversu mikla vinnu þeir megi gera ráð fyrir að þurfa að leggja í nám annarinnar. Þetta er 10. önnin sem ég starfa eftir nýju einingakerfi framhaldsskólanna og hefur mér þótt margir nemendur og forráðamenn þeirra enn ekki hafa áttað sig á nýja einingakerfinu.
Það er kostur nýja einingakerfisins að nú segir einingafjöldi til um hversu miklum tíma nemendur þurfa að verja í námið í stað gamla einingakerfisins sem sagði einungis til um hversu margar kennslustundir nemendur sóttu.
Á bls. 50 í aðalnámskrá framhaldsskólanna stendur: „Öll vinna nemenda í framhaldsskóla skal metin í stöðluðum námseiningum og skal að baki hverri einingu liggja því sem næst jafnt vinnuframlag nemenda. Öll vinna nemenda í fullu námi veitir 60 framhaldsskólaeiningar (fein.) á einu skólaári eða 30 einingar á önn. Ein framhaldsskólaeining samsvarar 18 til 24 klukkustunda vinnu meðal nemenda, það er að segja þriggja daga vinnu nemenda ef gert er ráð fyrir sex til átta klukkustunda vinnu að meðaltali á dag eftir eðli viðfangsefna og afkastagetu nemenda.“
Þetta er gott að hafa í huga þegar nemendur velta fyrir sér vinnuálagi í framhaldsskóla. Nemandi í fullu námi tekur 30 einingar á önn, nemandi sem sér ekki fram á að geta verið í fullu námi tekur færri einingar og nemandi sem tekur fleiri en 30 einingar á önn má gera ráð fyrir „yfirvinnu“ í náminu. Þannig er nemandi sem tekur t.d. 36 einingar eina önnina í 120% námi þá önnina.
Á bls. 48 í aðalnámskrá framhaldsskólanna stendur: „Stúdentspróf miðar að því að undirbúa nemendur undir háskólanám hérlendis og erlendis. Námstími til stúdentsprófs getur verið breytilegur milli námsbrauta og skóla en framlag nemenda skal þó aldrei vera minna en 200 ein.“
Samkvæmt námskránni er stúdentsprófið fyrir nemendur í fullu námi því a.m.k. 3,33 skólaár og því ljóst að þeir nemendur sem ætla að klára námið á þremur árum þurfa að gera ráð fyrir því að vera einhverjar annir í meira en fullu námi.
Höfundur er framhaldsskólakennari.