Fár vikunnar snýst um myndir Gunnlaugs Blöndals í Seðlabankanum og meðferðina á þeim. Þær voru settar í geymslu enda höfðu þær stuðað einhvern starfsmanninn.
List er ekki bara skraut og fegurð. Hlutverk listarinnar er beinlínis að hreyfa við okkur. Það sem er svo dásamlega fallegt en um leið sorglegt við þetta mál er að þessi gömlu og borgaralegu verk geta enn hneykslað. Og við öll erum að ræða þetta, sem er í sjálfu sér gott - og það án þess að hafa séð verkin því Seðlabankinn leyfir ekki myndatökur fjölmiðla á þeim.
List getur sannarlega stuðað svo mikið að fólk á erfitt með að sinna starfi sínu. Ég er dæmi um það enda ætti ég að vera að gera eitthvað allt annað en að skrifa þessa grein en get ekki hætt að hugsa um þetta. Ýmis listaverk geta líka verið stuðandi. Ég held t.d. að ég gæti ekki unnið mikið ef "Almar í kassanum" væri hérna á skrifstofunni hjá mér. Hugsanlega myndi hann samt venjast.
Það er heldur ekkert að því í sjálfu sér að færa listaverk til. Eiginlega er það nauðsynlegt svo við höldum áfram að sjá þau og skynja á nýjan leik því við verðum gjarna samdauna umhverfi okkar og hættum að taka eftir því. Dæmi um velheppnaðar tilfærslur verka í opinberu rými eru t.d. "Vatnsberinn" eftir Ásmund Sveinsson sem færður var af holtinu við Veðurstofuna niður í miðbæ þar sem upprunalegu vatnsberarnir unnu sín störf og "Óþekkti embættismaðurinn" eftir Magnús Tómasson sem nú er ekki falinn í sundi heldur skundar í átt að ráðhúsinu. Þessi verk öðluðust nýtt samhengi við tilfærsluna en þau voru heldur ekki sett í geymslu.
Í Kastljósi gærkvöldsins var rætt við Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur safnstjóra Listasafns Reykjavíkur og Hugrúnu Hjaltadóttur sérfræðing hjá jafnréttisstofu. Það var um margt athyglisvert spjall og sumt var beinlínis óþægilegt fyrir listunnanda og -áhugamanneskju sem jafnframt er femínisti að hlusta á. Verst fannst mér að heyra Hugrúnu tala um list sem skraut því þótt mörg verk, jafnvel þau sem hér eru til umræðu, séu fallegt er fagurfræði einungis eitt hlutverk listarinnar og sum verk eru alls ekki falleg og eiga ekki heldur að vera það.
Í Kastljósþættinum kom líka fram að verkin sem hafa verið fjarlægð eru tvö. Annað var á skrifstofu yfirmanns en hitt var með öðrum verkum, portrettum af jakkafataklæddum körlum sem allir höfðu verið bankastjórar Seðlabanka Íslands og því væntanlega allir meira og minna borið ábyrgð á rússibanareið íslensku krónunnar. Hvort það verðskuldar eilíft líf á striga er spurning.
Í viðtalinu sagði Hugrún að mikilvægt væri að stjórnendur velti fyrir sér vinnustaðamenningu og ímynd. Gott og vel. Einu sinni fór ég á fund í Fjármálaráðuneytinu. Þá hafði engin kona enn gegnt stöðu fjármálaráðherra. Á vegg í fundarherberginu voru myndir af öllum þeim körlum sem þá höfðu verið fjármálaráðherrar á Íslandi. Myndirnar þökktu vegginn og tugir karla störðu á mann - stelpu sem var að þykjast vera stjórnmálamaður. Það var ansi yfirþyrmandi.
Engar konur hafa enn verið seðlabankastjórar á Íslandi þótt nú sé árið 2019. Það er eitthvað sem þeir karlar sem stýra þeirra stofnun ættu að hugleiða og hvað það þýðir fyrir bæði ímynd og vinnustaðamenninguna á þeim bæ.
Það sem mér er fyrirmunað að skilja í þessu máli er ansi margt. Eitt er t.d. það hvernig borgaralegt verk eftir Gunnlaug Blöndal getur stuðað einhvern en það er nú samt galdur listarinnar - hún talar við okkur á tilfinningaplaninu. Annað sem ég skil alls ekki er hvers vegna Jafnréttisstofa virðist hafa lagt það til við Seðlabankann, eftir að til hennar var leitað, að til þess að leysa vandamálið - bæta vinnustaðamenningu og ímynd SÍ - væri réttast að fjarlægja konurnar af veggjunum en ekki jakkafataklæddu karlana. Hvernig í ósköpunum getur það verið í þágu jafnréttis að minna alla starfsmenn Seðlabankans á það á hverjum degi þegar þeir labba fram hjá öllum jakkafataklæddu körlunum að þeir séu staddir í karlaheimi?
Er ekki frekar kominn tími til að pakka jakkafataklæddu feðraveldinu niður í geymslu?
Myndin "Hjördís" (2007) eftir Lindu Ólafsdóttur. Birt með góðfúslegu leyfi listamannsins.