Hver er tilgangur lífsins? Flestir myndu glotta og svara með hæðni „góð spurning“ eða „þegar stórt er spurt…“ og gefa þannig til kynna að auðvitað er ekki hægt að svara slíku „rugli“. Það er þó þannig að flest erum við að glíma við þessa spurningu á hverjum degi, án þess að vera endilega meðvituð um það.
Það er rétt að ef spurt er um eiginlegan tilgang lífsins þá er fátt um svör (nema kannski talan 42). Margir telja sig finna vísbendingar í Biblíunni eða öðrum trúarritum en sem trúleysingi og/eða níhílisti myndi maður halda því fram að tilgangurinn væri enginn; að lífið væri tilviljun og þ.a.l. tilgangslaust.
Ef ég er spurður um tilgang míns eigin lífs þyrfti ég líklega að staldra aðeins við því þar gæti mögulega leynst svar. En ég nenni auðvitað ekki að dvelja lengi við slíkar vangaveltur og varpa fram þeirri hressu staðhæfingu að tilgangur lífsins er einfaldlega að njóta þess, að „haffa kamman og liffa lífinu“ eins og góður maður sagði eitt sinn. Málið dautt og hittumst á „happy“ eftir vinnu. Það skondna er að það er margt sem bendir til þess að þetta sé rétta svarið; tilgangur lífsins er einfaldlega að njóta þess. En þá kviknar önnur og mun erfiðari spurning; hvað er að njóta?
Það hlýtur þá að vera hamingjan. Er ekki aðal málið að vera hamingjusöm/samur? Varla er hægt að njóta lífsins án hennar? Eða hvað? En hvað er hamingja og hvað gerir okkur hamingjusöm? Ástin? Börnin? Eru það skilyrði fyrir hamingju? En hvað með peninga? Þarf manneskja ekki að vera rík og/eða farsæl (helst falleg líka) til að öðlast hamingjuna? Eða er nóg að vera bara hress?
Miðað við hvað við erum almennt upptekin af hamingjunni – en einnig óhamingjunni; þunglyndinu og kvíðanum – er merkilegt hvað við virðumst oft illa tengd grundvallarmerkingu hennar. Allt sem er gaman, gott, skemmtilegt og veitir okkur ánægju gerir okkur hamingjusöm, er það ekki?
Til að geta talað um hamingjuna þarf hugtakið að hafa skýra merkingu og því er oft gerður greinarmunur á „hamingju“ (e. happiness) og „ánægju“ (e. pleasure). Skoðum þetta aðeins.
Hamingja er einhverskonar vellíðanar-ástand sem dvelur djúpt í sálarlífi okkar og einkennist m.a. af ást, einlægni, óeigingirni, sátt og stöðugleika. Það er athyglivert að þótt hamingjan geti sjálf verið mikil og máttugt fyrirbæri er upplifun hennar sjaldnast sterk eða tilfinningarík; þ.e. við erum ekki endilega að springa úr gleði á hverri stundu þótt við séum mjög hamingjusöm. Hamingjan er ekki (á ekki að vera) markmið í sjálfu sér með innbyggðum on/off takka. Það tekur tíma að öðlast sanna hamingju og hún er einhvern vegin alltaf í stöðugri vinnslu. Henni má frekar líkja við ferðalagið heldur en áfangastaðinn.
Ánægjan er hins vegar öflugri lífsreynsla. Hún er nær því að vera einskonar vellíðanar-tilfinning sem við upplifum sem ákafa og tafarlausa gleði(vímu). Ánægjan er ekki langvinn enda sækjumst við eftir henni aftur og aftur og hún er markmið í sjálfu sér. Það væru e.t.v. ýkjur að flokka þessa ánægju undir narsisíska nautnarhyggju en þeir sem „njóta lífsins“ með þessum hætti finna „hamingjuna“ í þessari skynmiklu en skammvinnu ánægju sem yfirleitt birtist okkur í hversdagslegri neyslu s.s. að borða góðan mat, kaupa sér ný föt/síma, drekka áfengi, spila tölvuleiki eða horfa á Friends.
Auðvitað gerum við okkur (flest) fullkomlega grein fyrir því að sumt er gott fyrir okkur og annað er bara gott. Aristóteles var alveg með þetta. Til að öðlast sanna hamingju þarf maður að rækta garðinn sinn en ekki bara háma í sig súkkulaðirúsínur allan daginn. En erum við á góðu róli á hinum gullna meðalvegi? Nennum við að eyða tíma í að rækta sanna hamingju þegar nautnin/ánægjuvíman er rétt handan við hornið?
Ef marka má umræðu og rannsóknir um aukna vanlíðan í hinum vestrænu velferðarsamfélögum (sérstaklega hjá börnum og ungu fólki) er vissulega áhugavert að hugleiða aðeins um hamingjuna. Höfum við e.t.v. of grunnan skilning á þetta fyrirbæri? Er ekki líklegt að við séum að rugla saman hamingju og ánægju? Orðræða okkar virðist benda til þess. Við erum rosalega hamingjusöm með nýja símann okkar, þegar við fáum útborgað eða þegar einhver vinsæll „lækar“ tístið okkar. Við erum hamingjusöm þegar það er frí í skólanum og hvað þá þegar kemur ný sería af Riverdale.
Hamingjan spilar einnig stórt hlutverk í auglýsingum og markaðshyggju. Nytsemi hluta er ekki lengur mikilvægasti kosturinn þegar kemur að því að auglýsa vörur heldur upplifunin og statusinn; hvernig varan lætur okkur líða með okkur sjálf. Allir ganghæfir bílar geta komið okkur frá A til B á svipuðum tíma en splúnkunýr Range Rover gefur manni bara eitthvað extra – kannski hamingjuna?
Auðvitað er margt annað sem veitir okkur „hamingju“ en þetta gæti verið ein skýring á vanlíðan okkar: Við sækjumst öll eftir hamingjunni en þegar við loksins teljum okkur finna hana (á þessum grunna „ánægju“ vettvangi) þá upplifum við samt ekki raunverulega hamingju. Við áttum okkur ekki á að við höfum gildisfallið hamingjuna. Það er nefnilega eitt sem gleymist að fattast: Hamingjan og gildismatið eru hliðstæð fyrirbæri.
Önnur skýring gæti verið sú að án þess að vera endilega meðvituð um það þá erum við í stöðugri og miskunnarlausri samkeppni um hamingjuna. Þetta er betur þekkt sem lífsgæðakapphlaupið. Það er að vísu ekki hægt að vinna þessa keppni en það er sannarlega hægt að tapa. Við tökum flest öll ósjálfviljug þátt í þessu undarlega kapphlaupi án þess að hafa nokkuð að segja um reglur eða markmið. Kapítalisminn sér um það: Árangur og velgengni eru þar grundvallarforsendur hamingjunnar því án velgengni er varla hægt að njóta lífsins og vera hamingjusamur; hafa það gott og geta leyft sér hitt og þetta. Hið „góða líf“ birtist okkur sem sjálfa á úlfalda í Marrakesh þar sem yoga- og hugleiðslunámskeið veitir manni innblástur, eykur einbeitingu og árangur til að verða besta útgáfan af sjálfum sér.
En það er ein brenglun sem vert er að benda á í þessu samhengi. Í samfélagi sem er gegnum sýrt af kapítalísku gildismati er það viðtekinn „sannleikur“ – í anda ameríska draumsinns – að allir eigi möguleika á frama og velgengni en reglur hins frjálsa samkeppnismarkaðar eru þó með þeim hætti að maður uppsker eins og maður sáir. Þannig birtist okkur réttlæting hins efnahagslega ójöfnuðar: Ríkt fólk verðskuldar nefnilega ríkidæmi sitt og efnahagslega velmegun vegna framlags síns, dugnaðar eða annarra yfirburða: Það hefur (hlýtur að hafa) lagt sig meira fram en aðrir og náð þannig réttmætum árangri.
Þótt vissulega finnist dæmi um sjálfskapaða efnahagslega velgengni vitum við flest að þessi staðhæfing er bara bull og að ekki er hægt að alhæfa með slíkum hætti. Flestir milljarðarmæringar verða ríkir eftir allt öðrum leiðum t.d. með því að erfa auðævi, svindla, arðræna eða fá gefins aðgang að auðlindum þjóða. En þessi glapsýn gefur engu að síður tóninn: Ríkir eiga skilið að vera ríkir og fátækir eru bara fátækir. Ef maður nýtur ekki velgengni í lífinu – er alger lúser skv. reglum lífsgæðakapphlaupsins – er ekkert óeðlilegt að viðkomandi finni ekki hamingjuna og þ.a.l. einhvern tilgang með lífinu. Ef þú ert ósátt(ur) við hlutskipti þín og slök lífsgæði ertu minnt(ur) á að ábyrgðin liggur alfarið hjá þér: Það er ekki kapítalismanum að kenna ef þig skortir metnað, aga og vilja til að ná árangri og „sigra“ í lífinu.
Þegar þessu er stillt svona upp þá er ekkert skrýtið að ungt fólk upplifir þunglyndi og kvíða; að fólk flýi raunveruleikann með afþreyingu og vímuefnum þrátt fyrir allan þennan hagvöxt og endalausu velferð. Álagið er gífurlegt. Ef við erum ekki hamingjusöm þá er tilgangurinn enginn; lífið ónýtt. Krafan um hamingjuna er alger. Eitt sinn var algengt að spyrja hvort peningar veiti okkur hamingjuna en í dag er spurningin hvernig hamingjan geti veitt okkur peninga. Hún er forsenda velgengninnar og velgengnin forsenda hamingjunnar. Þess vegna verðum við alltaf að vera hamingjusöm. Við erum alltaf í lífsgæðakapphlaupinu. Ef eitthvað er að þá bara „feikum“ við hamingjuna. Er ekki allt gott að frétta? Ert ´ekki bara hress?
En hvað getum við gert? Viljum við hætta þessu rugli og upplifa sanna hamingju? Þá þurfum við breytingar. Það góða er að við þurfum ekki að hætta öllu eða útiloka allt sem okkur finnst gaman og gott. Við þurfum bara að uppfæra nýtt gildismats-stýrikerfi og endurræsa harða diskinn.
Við þurfum að öðlast raunverulegt frelsi. Til þess þurfum við að losa okkur skilyrðalaust undan oki nýfrjálshyggjunnar; hinnar kapítalísku stýringar. Einstaklingsfrelsið sem þar er talið forsenda velgengni og hamingju er alls ekki raunverulegt frelsi heldur blekking; einskonar lyfleysa (e. placebo): Við erum alls ekki frjáls til að vaxa og dafna á eigin forsendum. Auk þess veitir slíkt frelsi okkur ekki sanna hamingju vegna þess að því fylgir engin ábyrgð. Það er nefnilega ekki frelsið sem veitir okkur hamingju heldur ábyrgðin sem frelsinu fylgir.
Sama gildir um lífsgæðakapphlaupið. Við verðum að sætta okkur við að eina leiðin til að sigra er að sleppa takinu; að játa okkur sigruð. Hamingjan felst nefnilega einnig í því að upplifa vonbrigði, sársauka og vanlíðan. Upplifum allt tilfinningasvið hamingjunnar. Lærum að lifa upp á nýtt (það er ekkert nýtt). Það er kominn tími á nýja Upplýsingu. Við þurfum að vakna, rífa okkur upp úr doðanum og afþreyingunni og stíga inn í raunveruleikann. Við þurfum að velja rauðu pilluna.
En við getum líka farið inn á jákvæðsálfræði.is, skráð okkur á masterklassa í hamingjuhæfni þar sem við lærum að kyssa peninga.