Það er mikilvægt að vera maður með mönnum og vekja athygli. Þó við séum einungis örfáar hræður á þessu landi að þá er hægara sagt en gert að standa upp úr. Nú er hægt að auðvelda sér það markmið með notkun samfélagsmiðla.
Samfélagsmiðlar eru uppspretta tækifæranna, þar er hægt að öðlast frægð, frama og velvild með einungis auðveldum strokum á snjallsíma. Ein mynd, pósta, safna fjölda fylgjenda. Hinsvegar skal gæta þess að það virðist þó vera bein tenging á milli þess að fólk vilji fylgjast með manni og þess að eiga mjög marga flotta hluti. Með öðrum orðum, vera ríkur og helst nokkuð fallegur líka.
Ég, verandi mikill áhugamaður um samfélagsmiðla, því þeir eru jú spennandi og til margs nytsamlegir, ákvað að safna í lista yfir góð ráð sem allir ættu að geta nýtt sér til að sýnast vera ríkir á miðlunum. Þetta ætti að hjálpa öllum til þess að stíga skrefið og verða einhvers virði í samfélaginu.
2. Kauptu fylgjendur. Allir vita það að ímynd þín á samfélagsmiðlum er aðalmerki þess að þú sért einhvers virði. Helst ef það er hægt að kaupa fylgjendur sem setja læk á myndirnar líka. Orðið of augljóst í dag ef að fylgjendafjöldi stenst ekki við fjölda hjarta á myndum.
3. Splæstu einu sinni í Joe and the Juice og geymdu glasið. Gerðu alltaf boost heima og settu hann í Joe glasið þitt. Þannig munu allir halda að þú lítir á peninga sem áhyggjulaust fyrirbæri sem hægt er að eyða í einnota óþarfa.
4. Semdu rapplag um hversu mikinn pening þú færð fyrir gigg. Athugið þó að þetta ráð hentar einungis ef þú ert karlmaður.
5. Kauptu þér drasl úti í búð og taktu flottar myndir af þér að nota draslið. Birtu myndirnar á samfélagsmiðlum og ljúgðu því bara að þetta sé fyrirtækjaspons. Fólk mun þá halda að þú sért merkilegri en aðrir því þú ert gangandi auglýsing fyrir fyrirtæki.
Ríkidæmi hefur lengi vel verið æðsti draumur mannsins og ímynd er ekkert eitthvað sem var fundið upp með tilkomu samfélagsmiðla. Við höfum ávallt upphafið ákveðnar samfélagsstöður, ákveðna hluti og ákveðin íkon. Við setjum eitthvað á stall og tilbiðjum það, verðum fúl ef við náum bara að vera eitthvað aðeins minna en meiriháttar. Öllu er stillt upp í fullkomnun; sjá fegurð mína. Sjá allt þetta dót sem ég keypti eða keypti ekki. Sjá þessi dýru klæði úr híalíni skreytt demöntum, einungis á færi örfárra að eignast. Sjá hið sjaldgæfa og hið almenna sem allir virðast vilja ná höndum á eftir smá.
Að vissu leyti er þetta spurning um frelsi, við þráum frelsið og hin aldagróna hugmynd er að peningar veiti okkur það frelsi. Að öðru leyti er þetta samfélagslega mótuð þrá, það er sífellt verið að miðla til okkar að við ættum að vilja ákveðna hluti og að við ættum einnig að vilja líta út á ákveðinn hátt. Nýjustu fréttir um hvaða líkamsform er í tísku núna eru sínálægar og varla hægt að anda nema að það sé troðið upp í kokið á manni hvernig sé æskilegt að vera í nútímasamfélagi. Ég bíð bara eftir tilkynningunni um að nú sé í tísku að vera með sívalningslaga olnboga. Eða virkilega stóra kálfa, hvernig væri það?
Við gætum farið alla leið í kenningar um það hvernig peningar eru uppbygging samfélagsins og hvernig þeir séu einungis einhvers virði vegna þess að við í sameiningu gáfum þeim eitthvert virði. Við gerum það sama með hluti og með ímyndir.
Það sem samfélagsmiðlarnir gera er að gefa okkur nýja veitu fyrir þessa organdi þrá okkar að byggja upp eigin ímynd. Að fá að vera á stallinum. Þó þráin kemur auðvitað frá fyrirframgefnum stöðlum um hvernig hún skal vera hverju sinni. Það er einmitt fyndið að um leið og fegurðarsamkeppnin er úthrópuð tímaskekkja í nútímalegu og meðvituðu samfélagi og gerð nánast útlæg, að við tökum ekki eftir því að við höfum skapað okkur ramma með nákvæmlega sömu hugmyndafræði bara inni á öðrum vettvangi. Við segjum okkur í sífellu að inni á hinum nýja leikvangi séu það við sem semjum leikreglurnar sjálf - en er það svo? Erum við ekki bara föst í eilífri fegurðarsamkeppni, núna höfum við bara filtera og forrit til að hjálpa okkur. Það mætti mögulega líta á þetta sem lýðræðislegra umhverfi, hér inni fá allir jafnt rými til að taka þátt. Hinsvegar erum við stöðugt föst í þeim leik að hampa bara vissum þáttum. Við öll sjálfskipaðir dómararnir. Eru þeir sem ná ekki þessum gæðastimpli, sem staðfestist nú með fjölda læka, þá ekki sjálfkrafa úr leik?
Ég er ekki að skammast út í samfélagsmiðla, mér finnst þeir frábærir. Þeir opna umræður, sýna fjölbreytileika og gefa í grunninn öllum jafnt tækifæri. Það sem ég er að reyna segja er að annað gildir þó um samfélagið sjálft. Og ég er heldur ekki að segja að við hættum að hverfa aftur í gamla tíma, af því að þá í raun giltu sömu reglur, það var bara öðruvísi umgjörð utan um þær. Við þurfum hins vegar að vera meðvituð um hvað er verið að miðla til okkar og hvaða afstöðu við viljum taka til þess. Nú eru snapparar og grammarar mikið í sviðsljósinu og okkur finnst gaman að fylgjast með þeim. Þar kemur blússandi gægjuþörf okkar allra inn í þetta. Samfélagsmiðlastjarna; þetta er svo nýr starfstitill að það er ekki einu sinni til almennileg reglugerð um laun þeirra. Miðlarnir virka á svipaðan hátt eins og aðrir miðlar, jú vissulega erum við með venjulegt fólk sem stjórnar þeim og þeir eru mjög persónulegir en hvernig við stillum upp og skrásetjum á mjög skylt við tímarit og auglýsingar stórrisanna. Það er auðvitað ekkert skrítið, við höfum lært af miðlaumhverfi æsku okkar.
Það hefur vissulega verið mikil vakning í samfélaginu okkar um þetta en ég óttast að hið rétta týnist samt stundum í undirmeðvitund og áhrifagirni sálarinnar. Sannleikurinn um að þetta sé allt bara sjónhverfing. Hviss bamm búmm. Hér sé sjónarspil.
Ég sjálf stend mig stundum að því að drukkna í hringiðunni. Líða illa og vilja upphefja sjálfið með læki. Nei fyrirgefðu, lækum. Vilja vera ein af þeim sem njóta velvildar. Þá er vert að horfa aðeins á þetta frá öðrum sjónarhornum, anda djúpt, samþykkja leikritið og hafa gaman af - en vera allan tímann meðvituð um að þetta sé bara ein önnur uppsetningin.