Nýsköpun hefur oft á tíðum verið afgreitt sem krúttleg og stundum sem „eitthvað annað”. En núna eru teikn á lofti, æ fleiri eru að tala um nýsköpun, mikilvægi þess að byggja brú á milli vísindastarfs og atvinnulífs og við sem þjóð erum að átta okkur á að nýsköpun getur verið alvöru „business”.
Samtök iðnaðarins og fleiri hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir nýsköpun og tekið þátt í breytingu á nýsköpunarlögum sem hefur m.a. haft í för með sér aukið framlag til endurgreiðslu á rannsóknar og þróunarkostnaði. Unnið er að nýsköpunarstefnu á vegum ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sett hefur verið saman nefnd á vegum forsætisráðherra sem vinnur að skýrslunni Ísland og fjórða iðnbyltingin, fjöldi umsókna til tækniþróunarsjóðs hafa aldrei verið fleiri, nýsköpunarhugmyndirnar sem fara í gegnum Icelandic startups fara fjölgandi, nýsköpunarkeppnir og hakkaþon eru á hverju strái og svona mætti lengi telja.
Á dögunum kom rit frá Viðskiptaráði undir heitinu Nýsköpunarheit — 10 aðgerðartillögur til að efla nýsköpun í íslensku samfélagi. Þarna eru að finna 10 tillögur sem ég hvet sem flesta til að skoða. Ein af aðgerðartillögunum sem Viðskiptaráð ætlar að beita sér fyrir er að til verði mælaborð nýsköpunar sem er algjörlega frábært. Mælaborð sem þetta hjálpar okkur sem þjóð að átta okkur á hvert umfang nýsköpunar í raun og veru er, hver þróunin er og hvert stefnir. Miðað við vöxtinn þá ættu þetta að vera nokkuð spennandi upplýsingar.
- Fjöldi nýstofnaðra fyrirtækja
- Fjöldi nýsköpunarfyrirtækja (setja meira en 10% af veltu í nýsköpun)
- Fjöldi nýsköpunarhraðla
- Fjöldi einkaleyfa
- Fjöldi styrkja veittir til nýsköpunarfyrirtækja (bæði almennt og skipt niður á atvinnuvegi)
- Endurgreiðsla vegna R&Þ
- Útflutningstekjur nýsköpunarfyrirtækja
- Fjöldi rannsóknarstofa (labs) og nýsköpunarsetra
- Fjöldi og upphæð erlendra styrkja (t.d. Horizon 2020 styrkja)
- Fjárfestingaupphæð einkaaðila í nýsköpunarfyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum
- Fjöldi nýsköpunarverkefna sem hafa það markmið að bæta opinbera þjónustu
- Fjöldi fólks með doktorsgráður (PhD)
- Fjöldi fólks með mastersgráður
Þetta er alls ekki tæmandi listi en þetta ætti að hjálpa til við að sýna umfangið. Væri gaman að heyra frá öðrum hvað fleira kæmi til greina?
Nýsköpunarlandið Ísland. Áfram gakk.
#áframnýsköpun #hugvitiðermálið