Hver sem fylgist með efnahagsfréttum, sérstaklega í Bandaríkjunum, hefur séð umfjöllun um „modern monetary theory“ eða MMT. En um hvað snýst þetta í stuttu máli?
Lýsing á raunveruleikanum
Þrátt fyrir nafnið er MMT ekki teóría. Grundvöllur MMT er fyrst og fremst lýsing á því hvernig peningakerfið virkar, sérstaklega hvað varðar skattheimtu, bókanir greiðslna, myndun peninga og ákvörðun vaxtastigs á tilteknu gjaldmiðlasvæði. MMT fjallar um alla anga peninga- og greiðslukerfisins, s.s. bankakerfið, vaxtamyndun og virkni opinberra fjármála. Hver og einn angi byggist á þeirri grundvallarsýn, staðfestri m.a. af mannfræði, sögu og lögfræði, að peningar séu ekki hlutir heldur hugmynd. Virði peninga er þannig ekki byggt á því úr hverju þeir eru búnir til heldur hvort fólk treysti þeim sem fullnaðargreiðslu á skuldum, sem geymslu verðmæta og mælieiningu á virði.
MMT-drifnar hugmyndir, s.s. atvinnubótavinna (e. job guarantee) og áherslan á að lækka megi skatta eða auka útgjöld ríkissjóðs í myntinni sem hann gefur sjálfur út án þess að eiga á hættu á gjaldfalli ríkissjóðs, eru byggðar á raunverulegri virkni peningakerfisins. Þetta er ólíkt „hefðbundinni“ hagfræði sem byggist á forsendum um það hvernig peningakerfið virkar og byggir svo hagfræðikenningar í framhaldi af þeim forsendum.
Þessi staðreynd – að MMT byggist á raunverulegri virkni peningakerfisins meðan „hefðbundin“ hagfræði byggist á forsendum um virkni þess – hefur þær afleiðingar að MMT og hefðbundin hagfræði komast að ólíkum niðurstöðum um hvernig efnahagsleg kerfi virka. Grundvelli MMT um opinber fjármál má t.d. lýsa með sex atriðum:
- Hringekja peninga byrjar á því að hið opinbera vill kaupa vöru og þjónustu (t.d. manna löggæslu eða leggja veg).
- Skattheimta ríkis í ákveðinni mynt býr til þegna sem vilja selja vöru og þjónustu fyrir viðkomandi mynt svo þeir geti borgað álagða skatta – ellegar enda í fangelsi. Hið opinbera gefur út myntina sem það heimtar skattana í og borgar með henni fyrir þá vöru og þjónustu sem það vill kaupa. Þegnar samþykkja hina annars verðlausu mynt því hún er eina myntin sem ríkið samþykkir sem fullnaðargreiðslu á álögðum sköttum.
- Hið opinbera er eini aðilinn sem gefur út myntina sem það heimtar að skattar séu borgaðir með.
- Hringekja peninga byrjar því á að hið opinbera tilkynnir skattheimtu fyrst, nýmyndar næst peninga til að borga fyrir þá vöru og þjónustu sem það vill kaupa og að lokum borga þegnar ríkisins álagða skatta með hinum nýmynduðu peningum.
- Halli á rekstri ríkissjóðs er sparnaður einkageirans, þ.e. tekjur (útgjöld ríkissjóðs) að frádregnum útgjöldum (skattheimta ríkissjóðs). Útgáfa ríkisskuldabréfa umbreytir reiðufé og innistæðum á bankareikningum í viðkomandi seðlabanka, sem bera lága eða enga vexti, í ríkisskuldabréf sem bera hærri vexti.
- Skuldir ríkissjóðs eru uppsöfnuð fyrri útgjöld ríkissjóðs sem enn hafa ekki verið heimt til baka til ríkissjóðs í formi skattheimtu.
MMT, umsvif ríkisins og Keynesismi
Þeir sem skilja MMT og hvernig peningakerfið virkar hafa í daglegri umræðu frekar hallast að því að hið opinbera eigi að auka útgjöld sín til að ná fram ýmsum pólitískum og efnahagslegum markmiðum. Því ef vandamálið er verðbólga en ekki hallarekstur ríkissjóðs, hví ætti ríkissjóður þá ekki að eyða meiri peningum?
En fólk sem aðhyllist minni umsvif hins opinbera ættu einnig að vera drifin af því að skilja MMT vel því það er fyllilega eðlileg niðurstaða þess sem skilur MMT að hið opinbera eigi að minnka umsvif sín, t.d. með því að minnka skatta. Því ef ríkissjóður þarf ekki að vera rekin á núlli eða með afgangi, hví ættu þá skattar að vera svona háir?
Þá er það svo að margir sem horfa á MMT-drifnar hugmyndir um aukin útgjöld hins opinbera segja að þarna sé ekkert annað en (neó) Keynesismi á ferðinni, s.s. að hið opinbera eigi að stuðla að nægilega mikilli eftirspurn í hagkerfinu sé kreppa til að halda atvinnustigi uppi.
En munurinn er mikill. Innan neó-Keynesisma má finna hugmyndir og forsendur um endanlegt magn af peningum, að vextir ákvarðist af lánanlegum sjóðum (e. loanable funds theory), að hallarekstur á ríkissjóði hækki vaxtastig og að bankar þurfi innlán fyrst til að geta lánað útlán svo nokkur dæmi séu tekin. Innan MMT er hins vegar lögð áhersla á að peningar eru gerðir með því að skrifa þá niður á blað (eða í tölvu) svo það er óendanlegt magn af þeim í boði (sem þarf alls ekki að þýða að það sé skynsamlegt að búa þá til), vaxtastig ákvarðast fyrst og fremst að peningamálastefnu viðkomandi seðlabanka, vextir ákvarðast ekki af framboði og eftirspurn lánsfjár, hallarekstur á ríkissjóði lækkar vaxtastig (því magn af reiðufé eykst) og bankar þurfa engin innlán til að búa til útlán (sem m.a. seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands og Þýskalands hafa staðfest).
Og hvað með það?
Fyrir Íslendinga, sem gefa út næstminnstu fljótandi mynt heims, skiptir máli að skilja MMT vel. Enn í dag er talað um það á Íslandi að bankar þurfi innlán til að búa til útlán, sem er ekki rétt. Þá er talað um að það verði að minnka skuldir ríkissjóðs, m.a. til að lækka vexti og minnka skattbyrði. En þar sem ríkissjóður, í gegnum Seðlabanka Íslands, eykur peningamagn í umferð í hvert skipti sem hann borgar fyrir eitthvað er engin hætta á því að hann verði gjaldþrota þegar kemur að skuldbindingum í ISK. Í Japan eru ríkisskuldir um 250% af landsframleiðslu, þar eru vextir í kringum 0% og engum dettur í hug að háar ríkisskuldir leiði til hás vaxtastigs eða hættu á gjaldfalli ríkissjóðs. Hið sama gildir á Íslandi, sama hversu háar ríkisskuldir eru í ISK. Lækkun skulda ríkissjóðs hefur aldrei og mun aldrei hafa áhrif á vaxtastig á Íslandi meðan Íslendingar gefa út sína eigin mynt.
MMT leggur ekki áherslu á að ríkissjóður eigi að skulda eða vera rekinn með halla. Lögð er áhersla á að framkvæmd fjárlaga skuli horfa framhjá þessum atriðum, því fyrir ríkissjóð sem gefur út sína eigin fljótandi mynt skipta þau ekki máli svo lengi sem verðbólgu og atvinnuleysi er haldið niðri. Ef hallarekstur er óþarfi til að ná fram markmiðum um lága verðbólgu og lágt atvinnuleysi þá er hann óþarfi. En er vilji til þess að lækka skatta? Ekkert mál, svo lengi sem það veldur ekki verðbólgu, sama hversu stór hallinn verður á ríkissjóði.
Þá er lögð á það mikil áhersla innan MMT í hvað ríkissjóður eyðir peningunum sem hann býr til frekar en hvort halli sé á rekstrinum eða hvort skuldir séu að byggjast upp. Þannig ætti t.d. (pólitísk) umræða um hvort leggja eigi áherslu á iðnaðaruppbyggingu eða umhverfisvernd af hendi hins opinbera frekar að byggjast á hvort slíkt valdi verðbólgu eða atvinnuleysi en ekki hvort halli verði á rekstri ríkissjóðs.
Gæði opinberra útgjalda skiptir þannig miklu máli í MMT. Ef ætlanin er t.d. að fjármagna myndun starfa á hið opinbera að gera það á sem hagkvæmastan og bestan hátt, alveg eins og talað er um dagsdaglega, jafnvel þótt ríkissjóður geti aldrei farið á hausinn í íslenskri krónu. Þannig leggur MMT áherslu á að öll fjárlög ættu að vera með greiningu á því hvernig verðbólga og atvinnuleysi myndu þróast væru þau framkvæmd meðan lítinn gaum ætti að gefa spurningunni hvort fjárlögin leiði til halla á rekstri ríkissjóðs eða ekki. Forgangsröðun opinberra verkefna skiptir enn miklu máli og hallarekstur ríkissjóðs skiptir enn miklu máli – bara ekki út af þeirri ástæðu að hætta sé á að ríkissjóður fari á hausinn. Því það getur hann aldrei svo lengi sem ISK er lögeyrir á Íslandi.
Aðgengilegt lesefni fyrir alla
Góðan skilning á virkni peningakerfisins skortir á Íslandi. Enga grundvallarþekkingu í hagfræði þarf að hafa til að geta lesið sér til um hvernig peningakerfið virkar í raun og eru allir lesendur þessarar greinar hvattir til að lesa sér til um málefnið! Byrja má á verkum Warren Mosler, Stephanie Kelton, og L. Randall Wray svo nokkur dæmi séu tekin.
Höfundur er doktor í hagfræði.