Ég er kampavínskommúnisti!

Auður Jónsdóttir rithöfundur sökkti sér í djúpar vangaveltur um kalda-stríðs-slangur. Ertu kampavínskommúnisti, lambrúskókapítalisti eða margarítuþjóðræknissinni?

Auglýsing

Um daginn rakst ég á glaðbeittan mann sem sagði: Kommúnistinn mættur! En þú ert nú bara kampavínskommúnisti – er það ekki?

Hvað áttu við með kampavínskommúnisti? spurði ég og velti fyrir mér hvort ég hefði unnið mér inn stimpilinn kommúnisti með síðasta pistlinum mínum um Tinder-menningu miðaldra Íslendinga eða af því að móðurafi minn var kenndur við kommúnisma; hafði ég kannski skrifaði eitthvað með þannig slagsíðu fyrir einhverjum árum, löngu búin að gleyma því? Maðurinn svaraði: Nú, það er manneskja sem skreytir sig með vinstriskoðunum en drekkur kampavín með öllum.

Næsta dag hringdi ég í vinkonu mína, nokkuð gagnrýna í hugsun, og spurði: Er ég kampavínskommúnisti?

Auglýsing

Hvað meinarðu? flissaði hún svo ég útskýrði málið.

Dísúss, andvarpaði hún. Má nú bara fólk með tilteknar skoðanir drekka kampavín og tala við alla?

Svo þér finnst að ég eigi að drekka kampavín og tala við alla? spurði ég ráðvillt.

Já, sagði hún ákveðin. En ekki hvað? Meiri dellan. Við hvern varstu eiginlega að tala?

Ronald Reagan og Margaret ThatcherNú, bara einn af öllum þessum sem ég tala við, tafsaði ég og varð hugsað til annarrar vinkonu minnar sem er gagnrýninn félagsfræðingur og ímyndaði mér að hún myndi segja: Rithöfundar og listamenn standa utan kerfisins og geta því talað við öll mengi, þeir geta ógnað og breytt leikreglum samfélagsins – og þeir geta líka misnotað það vald. En mönnum sem vilja halda leikreglunum óbreyttum stafar oft ógn af þeim sem koma úr óhefðbundnum áttum og nota þá gamaldags brennimerkingar til að þagga niður í fólki.

Pælingar þessar voru komnar inn á svo líflegt grátt svæði að ég drakk kampavín í huganum. Var skilgreining mannsins á mér sem kampavínskommúnista tilraun til að svipta mig rödd af því að kommúnisti er skammaryrði og hægt að nota kampavín til marks um forréttindi? Eða var hún réttmæt ábending um misnotkun á félagslegu dekri? Eða leikur íhaldsmanns að bresku kalda-stríðs-slangi til að aðskilja pólitískan sambræðing stétta: Champagne socialist. Grátt svæði!

Að skilja frekar en stimpla

Veturinn 2003 til 2004 stundaði ég dönskunám í skóla fyrir innflytjendur í Kaupmannahöfn en námið gekk jafnframt út á að aðlaga fólk að dönsku samfélagi. Í bekknum var fólk frá ýmsum heimsálfum og kennarinn hugsjónarík kona. Hún fékk bekkinn til að rökræða samfélagsleg málefni og einn daginn áttum við Múhameð, apótekari frá Marokkó, að diskútera hvort leyfa ætti giftingar samkynhneigðra í kirkjum. Ég átti að vera á móti þeim. Múhameð hlynntur þeim.

Múhameð, sem var persónulega á móti þeim, átti í basli með að tala þvert um hug sér meðan ég, hlynnt giftingum samkynhneigðra, fór í Morfís-gírinn og notaði hunda- og kattarök á lélegri dönsku til að þjarma að honum sem brosti sammála hverju orði. Kennarinn hvatti nemendur til að meta andstæð rök svo umræðan mætti þróast og spegla sem flest sjónarhorn. Ég þurfti að setja mig inn í hugarheim Múhameðs og hann inn í hugarheim minn. Notadrjúg aðferð; að reyna að skilja aðra frekar en stimpla þá.

Þýski skólinn

Tíu árum síðar stundaði ég þýskunám í Berlín í skóla fyrir innflytjendur. Skólinn lagði minni áherslu á aðlögun, meiri á smásmugulega málfræði. Ef mig minnir rétt eru aðeins fjörutíu prósent borgarbúa innfæddir Berlínarbúar, aðrir aðkomufólk frá öðrum löndum og héraðslöndum í Þýskalandi. Íbúarnir tilneyddir að aðlaga sig hver að öðrum frekar en óljósri þjóðræknislegri hugmynd. En þar voru nemendur líka æfðir í að rökræða samfélagsleg málefni. Oft urðu umræðurnar áhugaverðar og leystu upp klisjukennda stimpla þegar raddir frá svo ólíkum löndum tókust á um málefnin með virðingu að leiðarljósi. Í hinu fjölmenna Þýskalandi fá gráu svæðin, votlendi umræðunnar, að njóta sín á ýmsan hátt en um leið halda margir á lofti meðvitund um ábyrgðina sem fylgir því að fjalla um viðkvæm málefni.

Fyrrverandi maðurinn minn sagði einu sinni að hann saknaði þýskrar samfélagsumræðu á Íslandi því í íslenskri umræðu fengju gráu svæðin, sem oft væru þau athyglisverðustu, svo takmarkað andrými. Hér fá hlutirnir of sjaldan að vera flóknir og margslungnir í umræðunni. Við klisjustimplum hvert annað og afgreiðum málin hratt, margur eftir því sem tilhlýðilegast þykir í hans félagslega mengi. Það sem rúmast ekki innan þessara mengja fer á bál huglægrar bókabrennu, þar sem flækingslegri hugmyndir fuðra upp.

Margradda nútímamenning

Á Íslandi hafa stjórnmálaflokkar og stórfjölskyldur jaðrað við að vera eins og ættbálkar um leið og fámennið gerir að verkum að hagsmunir eru oft óheppilega samflæktir. Nokkuð sem stuðlar að því að við persónugerum okkur sjálf og aðra út frá skoðunum, stimplum og félagsmengjum. Þetta háir opinberri umræðu sem virkar oft óþarflega takmörkuð.

Fámennið stuðlar jafnframt að því að í flóknum umræðuefnum skortir stundum sértæka sérfræðinga og málsvæðið er of lítið til að geta haldið úti ríkulegri flóru þungavigtar fjölmiðla sem greina margradda mál í nútímamenningu. Því reynir á okkur að viðhalda lífsskilyrðum fjöltóna samfélagsumræðu með því að forðast úrelta klisjustimpla og þora að þróa skoðanir okkar, líka með því að melta það sem við erum ósammála því kannski leynist þar sannleikskorn sem gæti dýpkað sjónarhorn okkar.

Kommúnistar með kampavín eru ekki það sama og kampavínskommúnistar.Opinber umræða er lifandi vera, hún þrífst ekki án okkar en er um leið æðri okkur, eins subbuleg og hún getur orðið. Hún leiðir okkur áfram til skilnings, þó að við römbum í blindgötur – svo lengi sem hún villist ekki í skipulagða hatursorðræðu eða álíka ófögnuð. Ábyrgð okkar felst í því að reyna að skilja skoðanir okkar, uppruna þeirra og greina fyrir hvað þær standa; þróa þær vitrænt og þora að skipta um skoðun ef hún reynist vera búllsjitt.

Popúlismi hvers mengis

Í Berlín bjó ég í hverfi sem mældist áberandi vinstrisinnað í kosningaúttektum fjölmiðla en þar sötraði fólk freyðivín með sunnudagsbrönsinum og las gagnrýnar múrsteinagreinar í helgarblöðunum, enda tilheyrir þungavigtar fjölmiðlun sem slík hvorki vinstrinu né hægrinu, þó að skoðanir ráði einhverju um val fólks á blöðum. Hún á bara að standa undir nafni því þýskir fjölmiðlaneytendur krefjast þess eins og þeir krefjast að geta keypt freyðivín fyrir svo lítinn pening að meira að segja útjaskaði þjónninn á kaffihúsinu hefur efni á að fá sér kampavínsbröns.

Þar myndu fáir kalla mig kommúnista nema ég hefði verið opinberlega virk í jaðarsellu. Nokkuð sem ég hef oft upplifað á Íslandi þar sem orðræðan á til að vera pólaríseruð á gamaldags hátt. Þar virðist stundum skipta meira máli hver þú ert í augum einhverra frekar en það sem þú hefur að segja þá og þegar. Afi þinn, fæddur 1902, var kommúnisti, þú ert það líka. Þú skrifaðir eitthvað misgáfulegt fyrir fimm árum og allar götur síðan hefurðu verið það, sama hvað annað þú skrifar.

Kannski skiljanlegt viðmót í umhverfi þar sem þykir of sjálfsagt að talsmenn sérhagsmuna fái tilskilið rými til að breiða út boðskap sinn án þess að mæta nógu oft raunverulegri greiningu og gagnrýni; þar sem má auðveldlega halda þurrausnum klisjum á lofti. Hugtökin hægri og vinstri standa enn fyrir sínu, nauðsynleg greiningartæki í margslungnum veruleika, en um leið er nútíminn svo flókinn að hann krefst fleiri greiningartækja til að nota með þeim svo við getum hugsað sjálfstætt í hverju máli og sneitt hjá freistingunni að fylgja skoðanahannaðri hjörð. Þessari þrá eftir innbyggðum popúlisma hvers mengis, samþykki félagsnetsins í hverju máli.

Jú, verum í og með kampavínskommúnistar – lambrúskókapítalistar eða margarítuþjóðræknissinnar – þó að við eigum bara fyrir dreitli úr ódýrri Cava-flösku eða séum óvirkir alkar sem drekka eplagos. Verum allskonar en um leið miklu meira en það – frekar en hjakka bara í gömlu formúlunum; með því að hanga í klisjustimplum takmörkum við hugsun okkar og spólum í viðjum þeirra. Það er áskorun að greina hugtök á síðasta söludegi meðan við búum til allskonar ný hugtök og segjum allskonar í leit að skilningi, líka vitleysu. Og það er allt í lagi að segja eitthvað heimskulegt. Stundum þarf maður þess til að geta sagt eitthvað gáfulegra á morgun. Kannski eitthvað mikilvægt, þó ekki væri nema til að skerpa eigin skilning. Flóknar verur. Við. Og það má. Vera flókið.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Árni Jensson
Viðhorfskönnun Gallup – Trúmál
Kjarninn 18. september 2021
Jón Baldvin Hannibalsson
Land tækifæranna
Kjarninn 18. september 2021
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit