Plast er efni sem endist afar lengi og er því hentugt til ýmissa nota. Einmitt þessi eiginleiki þess gerir það hins vegar einstaklega óhentugt sem einnota efni. Vörur úr plasti sem hent er eftir örskamma notkun geta enst í tugi og hundruð ára sem úrgangur.
Burðarplastpokar hafa verið bannaðir í fjölda ríkja og í síðustu viku mælti ég fyrir frumvarpi sem felur í sér að frá og með 1. jan 2021 verði óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti á sölustöðum vara. Með þessu tökumst við á við það mikla magn plastpoka sem er í umferð en höfum auk þess víðtækari áhrif. Aðgerðin snertir daglegan veruleika heimilanna í landinu og virkjar okkur til að hugsa á annan hátt en áður um plast og eigin neyslu.
Ein aðgerð af mörgum
Með frumvarpinu fylgi ég eftir tillögum frá samráðsvettvangi um aðgerðir í plastmálefnum sem í sátu fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri.
Tillaga þeirra um aðstoð við neytendur sem mæta með margnota umbúðir undir keypta matvöru hefur þegar komið til framkvæmda og undirbúningur stendur yfir varðandi viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir. Verið er að vinna úr öðrum tillögum auk þess sem fyrir liggur að tilskipun ESB til að takast á við plastmengun verður innleidd en þar er t.d. lagt til að ríkjum verði gert skylt að draga úr notkun matarumbúða og drykkjarbolla úr einnota plasti.
Bannið við afhendingu burðarplastpoka er þannig ein aðgerð af mörgum sem gripið verður til.
Einn biti í einu
Heyrst hefur að plastpokarnir séu aðeins hluti af plastvandanum og ekki ætti að horfa til þeirra heldur gera þess í stað eitthvað annað. Ég segi: Gerum margt. Verkefnið fram undan er umfangsmikið og við þurfum margs konar lausnir.
Plastvandinn er stór og við verðum að taka hann alvarlega. Hvernig borðar maður fíl? Einn bita í einu. Frumvarpið um plastpokana er einn slíkur biti – aðgerð sem virkjar okkur með beinum hætti við að hugsa um lausnir án plasts. Saman getum við lyft grettistaki.
Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra.