Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti skelegga ræðu fyrir skömmu á málþingi í Háskólanum í Reykjavík um 25 ára afmæli EES-samninginn. Þar sló hann sannkallaða skjaldborg um EES samninginn og varaði við því að gera nokkuð það sem gæti leitt til óvissu um rekstur hans. Einnig hvatti ráðherrann til þess að umræðan um EES samninginn yrði færð upp á hærra plan. Við Evrópusinnar fögnum þessum eindregna stuðningi utanríkisráðherra við EES-samninginn enda var flest af því sem hann sagði í ræðu sinni eins og músík í okkar eyru.
Það var þó tvennt sem kom okkur á óvart í málflutningi ráðherrans. Í fyrsta lagi að við Evrópusinnar værum komnir í lið með andstæðingum EES-samningsins! Það væru þá skrýtnir bólfélagar. Við getum fullvissað ráðherrann um eindreginn stuðning okkar við efni og innihald samningsins. Við Evrópusinnar höfum svo sannarlega ekki fundað með Miðflokksmönnum né Hverfafélögum Sjálfstæðisflokknum á Klausturbarnum né í Öskjuhlíðinni um hvernig hægt sé að koma EES samningnum fyrir kattarnef. Við erum aftur á móti tilbúin að leggja ráðherranum lið á allan þann hátt sem mögulegt er til að koma meðal annars þriðja orkupakkanum í gegnum Alþingi. Við munum svo sannarlega ekki liggja á liði okkar í stuðningi við þá löggjöf.
Í öðru lagi voru það líka vonbrigði að utanríkisráðherra skyldi draga upp úr pússi sínu gamla möntru um tölfræði innleiðingu gerða Evrópusambandsins í íslenska löggjöf. Það hefur afskaplega litla þýðingu að rífast um nákvæma prósentutölu innleiðingu gerða því þessar gjörðir eru svo ótrúlega mismunandi af stærð og umfangi. Það er því alls ekki raunhæft að bera saman til dæmis hámarkstonnafjölda sem má flytja með prömmum á vatnaleiðum Evrópu og fjármálalöggjöfina sem snertir hvert einasta aðildarland EES.
Öll þau löggjöf sem Evrópusambandið setur varðandi fjórfrelsið og Ísland þarf að innleiða hefur því beina réttarstöðu á Íslandi. Þessi löggjöf hefur því gríðarlega mikil áhrif hér á landi. Það er aðalatriði þessa máls en ekki einhver talnaleikfimi. Við Evrópusinnar lýsum því yfir fullum stuðningi við orð utanríkisráðherrans að lyfta umræðunni um EES samninginn á hærra plan. Sameiginlegt markmið okkar beggja er að efla og styrkja Evrópusamvinnu Íslendinga á sem flestan og bestan hátt.
Höfundur er formaður Evrópusamtakanna.