Nú um þessar mundir fagnar Vinstrihreyfingin - Grænt framboð 20 ára afmæli sínu með pomp og prakt. Væri VG manneskja af holdi og blóði væri hán spennt yfir því að mega fara í ríkið. Af þessu tilefni veltir hreyfingin/flokkurinn sér upp úr stöðu vinstrisins á heimsvísu í bland við að rifja upp hvernig þjóðfélagið hefur breyst á þessum 20 árum. Þannig hefur formaður hreyfingarinnar/flokksins, Katrín Jakobsdóttir, verið dugleg að benda á að mál sem þótti hlægileg séu nú meginstraumsmál. Það er líka rétt: Ég man eftir því þegar við umhverfisverndarsinnar voru sífellt spurðir út í það hvort við ætluðum að lifa á fjallagrösum. Aðalbrandarinn var sá að VG var á móti öllu en í dag sjá álitsgjafar sumir vart greinarmun á VG og Framsóknarflokknum, sem er miður. Ljóst er engu að síður að VG 1999-2009 hefur uppskorið það sem hán sáði og fengið að sjá sín hjartans mál skjóta rótum á Íslandi. En hvað með VG 2009-2019?
Þessi seinni áratugur VG byrjaði vissulega á þátttöku í ríkisstjórn í aðstæðum sem snerust einfaldlega um skaðaminnkun, já og kannski aðild að ESB, og nýja stjórnarskrá, og vonandi hækka veiðigjöld. Nei allt í lagi förum ekki fram úr okkur, líkt og vinstristjórnin sennilega gerði. Hvað um það, skaðaminnkun og rústabjörgun var það eina sem gat raunverulega verið á dagskrá og óhjákvæmilega myndi þýða fórnir fyrir VG og Samfylkinguna, enda var Árni Páll mjög fljótur að aftengja sig þeirri ríkisstjórn eftir að hafa verið kjörinn formaður Samfylkingarinnar.
Vinstri stjórnin gerði það sem þurfti að gera, mögulega hefði hún getað gert betur og mögulega verr. Óhjákvæmilegt var hins vegar að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur kæmust til valda eftir kosningarnar 2013 því ekki var möguleiki á að framkvæma það sem flokkarnir/hreyfingarnar stóðu fyrir. Að kjörtímabili vinstristjórnarinnar loknu var hins vegar kominn jarðvegur fyrir að færa Ísland í sama gamla horfið, í átt að frjálshyggju og frændhygli, þegar raunverulega gafst rúm til að færa samfélagið meira í átt að félagshyggju. Ísland færðist í sama horfið nema að erfiðara reynist nú að öðlast húsnæði.
Engu að síður hafa hlægilegu málin lifað og dafnað, orðið meginstraums og erfitt er að sjá að VG standi þar framar öðrum hreyfingum/flokkum í tilheyrandi málaflokkum. Þannig er til staðar breiðari grunnur fyrir VG til að byggja á heldur en árið 1999. Hins vegar má segja að verkalýðsmál hafi skotist út á jaðarinn með tilheyrandi tómarúmi þar til Sósíalistaflokkurinn var stofnaður og róttæk öfl tóku yfir verkalýðshreyfinguna. Það er sennilega í kringum kosningarnar 2013 að VG byrjar að staðna - flokkurinn/hreyfingin hafði komið sér þægilega fyrir í stjórnmálakerfi Íslands. Hreyfingin/flokkurinn byrjaði að verja þau stjórnmál sem þau þekktu og nýjar aðferðir og nálganir voru skotnar niður því fyrst þurfti jú að ræða málefnin! (Hvenær málefnin hafa ekki verið rædd innan VG er að vísu stór spurning því styrkleiki VG felst einmitt í öflugri og vandaðri málefnavinnu)
Þetta er ástæðan fyrir því að VG endaði í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Vissulega áhætta (jafnvel fífldirfska) en þó ekki meiri en svo að auðvelt væri að sjá fyrir sér flokkinn/hreyfinguna í þeim aðstæðum og hvernig hægt væri að koma örfáum af sjónarmiðum sínum á framfæri í stað einskins. Andspænis því hefði hreyfingin getað tekið öðruvísi áhættu og tileinkað sér nýjar leiðir og tekið rótækum hugmyndum eins og slembivali opnum örmum í stað þess að skjóta þær niður strax á þeim forsendum að ræða þurfi málin betur og komast svo upp með að þurfa ekki að taka afstöðu. Sömuleiðis hafði flokkurinn/hreyfingin getað tekið sér skýrari stöðu með nýju stjórnarskránni.
Af þessu öllu saman leiðir óneitanlega sú stóra spurning hvernig hreyfing/flokkur VG vill vera og hvert Katrín Jakobsdóttir vill leiða hán. Þetta á ekki síst við þegar nýr veruleiki blasir við flokknum/hreyfingunni eftir mesta lagi tvö og hálft ár, þegar ríkisstjórnin fellur en Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu og lætur VG um sleikja sár sín. Svo horfir við í það minnsta við ef að sjálfstæðismenn fá að haga sér áfram líkt og þeir hafa alltaf gert án þess að skeyta um álit samstarfsfólks síns í þingmeirihlutanum á sama tíma og þingmenn VG kjósa að fara varlega og jafnvel halda Krýsuvíkurleiðina til þess að réttlæta afstöðu í málum sem öllu jöfnu á að heita að sé þeim illa að skapi. Þegar VG gengur til kosninga mun spurt hverju flokkurinn/hreyfingin hefur áorkað og hver verða langvarandi áhrif háns.
Mögulega heldur VG fylgi sínu með því að höfða til nýrra kjósendahópa líkt og Katrín Jakobsdóttir nefndi í áramótaviðtali Kastljóss, þegar hún talaði um að nýir kjósendur kæmu í staðin fyrir þá sem hyrfi á braut. Þar með ætti VG möguleika á þátttöku í vinstri stjórn á næsta kjörtímabili. Ummælin benda hins vegar til þess að VG sé að einhverju leyti farið að elta kjósendahópa sem er varhugaverð þróun. Í fyrsta lagi vegna þess að það getur leitt til þess að siðferðisleg álitamál verði að aukaatriðum í eyrum kjósenda þegar íhaldssöm öfl ná valdi á umræðunni og VG stendur ekki nógu vel á sínum málefnum. Í öðru lagi því VG mun veigra VG sér við frekari róttækni og jafnvel enda í hlutverki meðhlæjanda og sjá eftir því þegar hin nýju “hlægilegu” mál verða meginstraums. Þá stendur eftir stærsta spurningin af öllum: Hvert er erindi flokksins/hreyfingarinnar í stjórnmálum?
Þróun VG hin síðari tíu ár valda mér áhyggjum en góðu fréttirnar eru þó þær að nýr vinstri flokkur mælist inn á þing þessa dagana og fær því hreyfingin/flokkurinn heilmikið aðhald frá vinstri. Dvíni áhrif VG tekur annað við kyndlinum. Fólk sem lagt hefur undir orku sína og tilfinningar vilja þó skiljanlega sjá VG sem framvörð umhverfisverndar, jöfnuðar, jafnréttis og friðar. Töluverð reynsla og þekking hefur eftir allt saman skapast á þessum vettvangi. Því vil ég ljúka þessum pistli á að óska minni gömlu hreyfingu til hamingju með 20 ára afmælið og sendi eftirfarandi baráttukveðjur:
- Gangið enn lengra í baráttunni gegn loftlagsmálum;
- Leyfið ykkur að taka afstöðu með verkalýðshreyfingunni, hvað sem Bjarna Benidiktssyni kann að finna;
- Leyfið ykkur smá pönk á Alþingi, formsatriðin geta leitt gott fólk í gönur;
- Ekki leyfa sjálfstæðismönnum að skipa í embætti á geðþótta einum saman;
- Ekki leyfa sjálfstæðismönnum að komast upp með slungnar leikfléttur með klausturþorpurunum og alls ekki taka þátt í þeim;
- Berjist fyrir ykkar málum innan ríkisstjórnarinnar og setið fótinn niður, jafnvel þó Sjálfstæðisflokkurinn hóti stjórnarslitum;
- Takið nýjum hugmyndum opnum örmum;
- Hlustið á samvisku ykkar!