Varðandi gjöld almennt hlýtur sanngjarnasta innheimtu
aðferðin að vera sú: að þeir greiði sem njóti. Nema þá helst í tilfellum þar
sem hallar á einstaklinga sökum ástæðna sem þeir ráða ekki við, svo sem vegna
fötlunar eða fátæktar. En almennt er sanngjarnasta reglan að þeir sem taka af
einhverri auðlind greiði fyrir sinn skerf.
Hvernig á þetta við þegar kemur að nýtingu vegakerfisins? Umræðan um veggjöld virðist einskorðast við að rukka fast gjald fyrir hverja bifreið. En er þetta sanngjörn skipti? Nú eru ekki öll ökutæki eins og áhrif þeirra á vegakerfið ekki þau sömu. Það sem breytir mestu í þessu er: öxulþungi ökutækisins.
Fjórða veldis reglan
Tilraunir á áhrifum slits á vegi leiða í ljós að tvöföldun í öxulþunga jafngildir 16 földun í ferðum. Sem sagt hver tvöföldun á öxulþyngd jafngildir 2 í veldinu 4 fjölda ferða. Þetta er vel rannsökuð og almennt viðurkennd staðreynd. Sem meðal annars er til grundvallar þungatakmörkunum á þjóðvegum um allan heim og sérstakra skatta á þyngri ökutæki.
Á þessari mynd má sjá hvernig slit á vegum veldis-faldast. Bíll af léttustu gerð gæti haft öxulþunga í kringum 0,5 tonn. En hámarks leyfilegur öxulþungi sumra tegunda bifreiða er 11,5 tonn. (nánar um öxulþunga reglur hér). Sem er 23 földun á þyngd.
En með fjórða veldis reglunni má sjá að ein ferð á bifreið með 11,5 tonna öxulþunga slítur vegum til jafns á við 279.841 ferðir bifreiða með öxulþunga upp á 0,5 tonn. Ef rukka ætti létta fólksbílinn um eina krónu í veggjald, þá væri réttlátt að rukka þunga ökutækið um 279.841 krónur fyrir sömu ferð til að mæta sliti á veginum. Ljóst er af þessu að sanngjörn gjaldtaka af fólksbílum verður að vera engin ef ekki á að rukka hundruð þúsunda fyrir hverja ferð þyngri ökutækja.
Greiði sem njóta
Af þessu er ljóst að áhrif fólksbíla þegar kemur að sliti á vegum eru hverfandi miðað við áhrif þyngri ökutækja s.s. vörubifreiða eða hópferðabifreiða. Ef veggjöld ættu að vera sanngjörn ættu þau að beinast að þessum ökutækjum eingöngu og fólksbifreiðar ættu að sleppa algjörlega við veggjöldin. Ef ráðamenn vilja hafa þetta sanngjarnt. En ekki bara enn eina leiðina til að skattpína almenning.
Með nútíma tækni er auðvelt að útfæra sanngjarna gjaldtöku sem þessa. Myndavélar skrá niður bílnúmer þeirra bifreiða sem fara hjá gjaldtökustaðnum. Í gagnagrunni er svo hægt að fletta upp sjálfvikt hvaða gerð af ökutæki fer þar hjá og út frá því hver leyfilegur öxulþungi er á ökutækinu. Þannig er hægt að rukka sanngjörn afnot af veginum miðað við tegund bifreiðar. Þannig gæti líka myndast hvati til að flytja þyngri hluti í fleiri ferðum eða á ökutækjum sem hafa yfir að búa fleiri öxlum og þar með betri dreifingu þunga. Allt til að hlífa viðkvæmum vegum fyrir skemmdum og sliti.
Afleiðingar fjórða veldis veggjaldsins
Stóra málið við að hafa veggjöld hlýtur að vera að greiða upp kostnað við veginn og viðhald. Ef viðhaldskostnaður myndi helmingast, t.d. með því að stærri hluti þungaflutninga færi fram með strandflutningum, eða ökutækjum sem hlífa vegum betur, þá væri hægt að lækka veggjöldin um helming. Væri það ekki æskileg afleiðing? Erum við mögulega í dag að greiða niður þungaflutninga um landleiðina með viðhaldskostnaði á vegum?
Að sama skapi, erum við mögulega að greiða niður skemmtiferðir fyrir erlenda ferðamenn með framtíðar viðhaldskostnaði á vegakerfið? Ekki viljum við banna túristum að fara um landið á níðþungum hópferðabílum sem spæna upp vegina. En er ekki sanngjarnt að þeir greiði fyrir það slit sem þeir sannarlega valda á vegunum okkar?
Umhverfismál
Þetta snýst heldur ekki einungis um peninga. Rannsókn á vegum sænskra ferðamálayfirvalda komst að þeirri niðurstöðu að því meira sem slit á vegum er, þeim mun meiri svifryksmengun hlýst af því. 5% allrar eyðingar á götum verður að svifryki. Sænskir skoðunarmenn hafa líka komist að því að götum sem er illa viðhaldið menga enn meira. Því þar getur rykið safnast fyrir í meira magni og slit á hjólbörðum verður mun meira.
Áhrif þyngri ökutækja umfram léttari má glöggt sjá á Miklubraut í Reykjavík. Þar eru sérstakar akreinar sem eru ætlaðar fyrir strætisvagna. Þar má sjá hvernig sérakrein strætó er umtalsvert meira slitin heldur en akreinarnar við hliðina á sem ætlaðar eru fólksbílum og annarri umferð. Þrátt fyrir að þar fari um margfalt fleiri bifreiðar.
Enda er venjulegur strætisvagn, líkt og þeir sem ganga um götur borgarinnar um 18 tonn að þyngd með 86 farþegum innanborðs. Er þá öxulþunginn að aftan 11,5 tonn. Sjá má á grafinu hér að ofan hversu miklu malbiki slíkur vagn slítur miðað við léttan einmennings vagn. Þetta skýrir hvers vegna strætó akreinin er svo slitin í samanburði við aðrar akreinar við Miklubraut. Þetta er nokkuð sem gleymst hefur að taka tillit til þegar umhverfisáhrif hópferðabifreiða eru borin saman við fólksbíla.
Lokaorð
Tölum bara hreint út. Við viljum helst láta túrista borga meira fyrir afnot af vegunum. Þess vegna er þessi umræða um veggjöld. Það er því ágætis hliðar-afleiðing af því að rukka eftir vegsliti að það myndi leggjast þungt á hópferðabifreiðar um leið. Þetta eru líka bílar sem eru skemmtun fyrir ferðamenn. Öfugt við t.d. nauðsyn fyrir íbúa þessa lands. Sem eru fólksbílar. Venjulegt fólk að komast leiðar sinnar. Til vinnu og annað. Ég veit fyrir mitt leiti hvort er mikilvægara. Þannig að það er engin ástæða til að niðurgreiða þessa notkun á vegakerfinu með framtíðar viðhaldskostnaði.