MeToo og hvað svo?

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að svo virðist sem þingheimi sé ómögulegt að senda skýr skilaboð út til samfélagsins um að kynbundið ofbeldi og áreiti sé ólíðandi með öllu.

Auglýsing

Síðastliðið vor samþykktu þingmenn einróma breytingar á siðareglum fyrir alþingismenn. Umrædd breytingartillaga var lögð fram af forsætisnefnd Alþingis í kjölfar MeToo byltingar um allan heim hvar konur í ýmsum þjóðfélagshópum og starfsstéttum greindu frá kynferðisofbeldi og kynbundnu áreiti sem þær máttu þola í sínu daglega lífi.

Í siðareglunum stendur nú: Þingmenn skulu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.

Í byrjun desember sl. fékk alþjóð vitneskju um setu sex þingmanna á bar í nágrenni við Alþingishúsið. Það sem þar fór fram er margrætt og óþarfi að fara nánar ofan í saumana á því. Í kjölfarið var mál þeirra sent til forsætisnefndar með beiðni um að siðanefnd Alþingis yrði kölluð saman. Jafnframt var óskað eftir að sá, sem hvað mest hafði sig í frammi á umræddum bar með níði og svívirðingum í garð þingkvenna, ráðherra og óbreyttra borgara, yrði ekki eftirleiðis í forsvari fastanefndar Alþingis. Töldu þeir sem þess óskuðu það eðlileg viðbrögð við því sem gerst hafði, enda ljóst að ásýnd nefndarinnar biði hnekki þyrftu gestir hennar, sem sumir hverjir urðu beinlínis sjálfir fyrir svívirðingunum, að þola slíkt.

Auglýsing

En hvað gerðist svo? Sá stjórnmálaflokkur sem hvað fjölmennastur var á umræddum bar vildi ekki skipta um fulltrúa inni í nefndinni, þrátt fyrir að í þeim flokki séu þrír ágætir þingmenn sem hvergi komu nærri ósómanum. Enginn þeirra naut trausts flokksforystu til að taka formannssæti fyrir hönd miðflokks heldur vildi flokkurinn frekar færa stjórnarflokkunum formannssætið, en samningar stjórnar og stjórnarandstöðu voru á þá leið að umrætt formannsembætti skyldi í höndum stjórnarandstöðu. Þess vegna lagði undirrituð fram þá tillögu að þingmaður stjórnarandstöðu, Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn, tæki við formannssætinu en að eftir sem áður yrðu þeir Jón Gunnarsson og Ari Trausti Guðmundsson, báðir stjórnarþingmenn, í sínum varaformannsstólum.

Nú hefði maður haldið að þeir fulltrúar í umhverfis- og samgöngunefnd sem greiða máttu atkvæði um skipan stjórnar væru sammála um að tryggja þyrfti ásýnd nefndarinnar. Þá hefði maður einnig haldið að stjórnarfulltrúum væri umhugað um að standa við gerða samninga frá upphafi kjörtímabils að formennska í umræddri nefnd væri hjá stjórnarandstöðu. Loks hefði maður haldið að í það minnsta fulltrúa framsóknarflokksins, sem og fulltrúum vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem kynnir sig sem boðbera kvenfrelsis, væri umhugað um að senda skýr skilaboð til þolenda hvers kyns ofbeldis um að Alþingi tæki afstöðu með þolendum.

En hvað gerðist? Stjórnarmeirihlutinn, að frátalinni Rósu Björk Brynjólfsdóttur öðrum fulltrúa VG í nefndinni, valdi að greiða atkvæði með tillögu Bergþórs Ólasonar, fráfarandi formanns nefndarinnar um að formennska færi til Sjálfstæðisflokks. Tillöguna studdu báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokks, þeir Jón Gunnarsson, sem nú er formaður og Vilhjálmur Árnason, einn fulltrúi VG, Ari Trausti Guðmundsson, fulltrúi Framsóknar, Líneik Anna Sævarsdóttir auk þeirra nefndarmanna sem á klausturbar voru þeirra Karls Gauta Hjaltasonar sem nú er utan flokka og Bergþórs sjálfs, fulltrúa Miðflokks. Stjórnarliðar hafa eftir þennan gjörning kosið að útskýra val sitt á þann veg í fjölmiðlum að þeir hafi neyðst til þess svo hægt væri að koma á vinnufriði í nefndinni. Þetta er langt í frá rétt enda lá önnur tillaga fyrir, en þessir fulltrúar tóku ákvörðun um að styðja Miðflokkinn og þeirra tillögu og brjóta með því samkomulag sem gert var milli allra stjórnarandstöðuflokka og stjórnarflokka.

Eftir stendur Alþingi uppi með verkefnið; MeToo og hvað svo? Svo virðist sem þingheimi sé ómögulegt að senda skýr skilaboð út til samfélagsins um að kynbundið ofbeldi og áreiti sé ólíðandi með öllu. Að klámfengin aðdróttun að þingkonum, ráðherrum, starfsfólki þings nú eða persónum utan þings sé með öllu ólíðandi og að slík hegðun kunni að hafa einhverjar afleiðingar. Hvernig stendur á því að þingmenn gátu ekki komið sér saman um að senda skýr skilaboð, sér í lagi til varnar þeim þingkonum og þeim ráðherra sem mest máttu þola níðið? Hvernig stendur á því að þingkona Framsóknar stóð ekki með sínum varaformanni? Af hverju völdu nefndarmenn að styðja frekar tillögu Miðflokks í stað þess að standa við áður gerðan samning sem og standa gegn ofbeldi? Ég á ekki von á að fá neinar skýringar á þessu, en vonbrigðin eru mikil.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar