Við viljum flest vera siðleg í okkar umsvifum hér á jörðinni. Það er dapurlegt þegar vænt fólk styður háa tollamúra og tæknilegra viðskiptahindrana á matvæli því það kemur niður á svo mörgu.
Ísland er norðlæg og harðbýl eyja. Vaxtartíminn er stuttur og veðurfar kalt. Við getum ekki framleitt öll matvæli og það sem við framleiðum kostar mikið. Sunnar á hnettinum vex grænmeti utan húss með sólarljósi og vatni og skepnur ganga úti allt árið. Lífræn ræktun er auðvaldari, notkun tilbúins áburðar minni og fjárfesting tiltölulega lítill.
Hér eru nokkuð góð lífskjör en samt búa margir við skort. Sunnar á hnettinum, sérstaklega í þróunarlöndum, lifa milljónir við mikinn skort. Við getum hjálpað þeim og neytendum hér með því að opna á verslun og viðskipti með matvæli.
Tollverndin er verst fyrir fátæka
Skattgreiðendur hér verja um 15 milljörðum á ári í beinan stuðning við landbúnaðinn. Auk þess kostar það neytendur um 25 milljarða á ári, eða um 480.000kr. fyrir fjögurra manna fjölskyldu, að hafa ekki aðgang að tollfrjálsum matvælum. Samtals eru þetta 40 milljarðar á ári.
Fátækt fólk hér telst vera 40 - 50.000, þar af um 7.000 börn. Fátækt fólk þarf að spara við sig holl og góð matæli og neyta óhollrar og ónógrar fæðu. Í suðlægum þróunarlöndum vantar marga vinnu og næga næringu.
Það er umhverfisvænt að flytja inn matvæli
Við hér nýtum matarkistu hafsins með umhverfisvænum og hagkvæmum hætti. Það sama verður ekki sagt um landbúnaðinn. Sauðfé er víða beitt á gróðursnauð víðerni sem heldur gróðri niðri og dregur úr vinnslu súrefnis úr gróðurhúsalofttegundum. Þurrkun votlendis vegna landbúnaðar er mesta uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Til að framleiða 1 kg. af kjúklinga og svínakjöti þarf að flytja inn um 2 kg. af korni o.s.frv. Því er umhverfisvænt að framleiða minna af matvælum hér og flytja meira inn.
Það hagnast nánast allir á frjálsum viðskiptum
Fólk hér þráir holl, fjölbreytt, ódýr matvæli. Fólk í þróunarlöndum þráir að geta framleitt eitthvað sem selst og bætir þeirra líf. Hér kunna margir vel til verka varðandi matvælaframleiðslu. Við ættum að hjálpa fólki í þróunarlöndum að þróa matvælaframleiðslu og kaupa hluta af framleiðslunni af þeim.. Mörg Evrópulönd gera þetta og kaupa samtals yfir 10.000 milljarða kr. virði af landbúnaðarvörum frá þróunarlöndum á ári.
Verum víðsýn og siðleg
Hvort skyldi vera mikilvægara að verð kjöts, mjólkurafurða og eggja lækki um sem nemur um 120.000 kr. á ári á hvern neytenda eða að um 500 manns af þeim sem nú vinna við matvælaframleiðslu þurfi að velja sér annan starfsvettvang?
Breytist svarið ef gert er ráð fyrir því að:
- Við 35% lækkun matarverða hér fjölgar störfum í ferðaþjónustu ef til vill um 5.000
- En ef tekið er tillit til þess að kolefnisspor af matvælum minnkar við aukinn innflutning
- En ef lægri matvælaverð leiða til þess að um 500 færri Íslendingar flytji til útlanda á ári?
-
En ef aldraðir og öryrkjar sem lifa á strípuðum lífeyri munu hafa það betra ef matarverð lækka?
- En ef störfum við matvælaframleiðslu annars staðar fjölgar á móti fækkun hér
-
En ef tekið er tillit til þess að ef við kaupum matvæli frá þróunarlöndum til dæmis Afríku, myndi störfum fjölga meira þar en þeim fækkar hér vegna minni tækinvæðingar.
- En ef tekið er tillit til þess að óbein áhrif aukinna tekna í þróunarlöndum bæta lífskjör tugþúsunda?
Kjarni málsin er að tollamúrar á matvæli eru ósiðlegir. Þeir rýra lífskjör tugþúsunda verulega og það er lífsspursmál fyrir þúsundir að fella þá niður. Evrópuþjóðir hafa fyrir löngu lagt niður matartollmúrana sín á milli og við eigum við að gera slíkt hið sama fyrir okkur sjálf og fjölmarga aðra hér á Móður Jörð.
Tilvísanir:
- http://www.fao.org/fao-stories/article/en/c/1176294/
- https://betrilandbunadur.wordpress.com/
Höfundur er viðskiptafræðingur með áhuga á neytendamálum og velferð.