Um daginn rakst ég á gamalkunna bók hjá vinkonu sem ber heitið Unga stúlkan og eldhússtörfin. Bókin fékk nokkrum árum síðar nýmóðins heitið Unga fólkið og eldhússtörfin. Ég verð að viðurkenna að út frá þessari bók lærði ég að sjóða ýsu og kartöflur. Lummuuppskriftin í bókinni gerði mig að stjörnu í nokkra daga.
Ég áttaði mig hins vegar fljótt á því, að soðin ýsa og lummuuppeldið voru eitthvað sem ég þurfti að gera með annarri hendi þegar út í sjálft lífið kom. Skólakerfinu hafði láðst að kenna mér að gera skattskýrslu, fræða mig um vinnumarkaðs- og verkalýðsmál, jafnréttismál, fæðingarorlofsrétt, mikilvægi styttingu vinnuvikunnar, kynskiptan vinnumarkað, verkfallsrétt, launaleynd, misskiptingu á vinnumarkaði, lífeyrissjóðsmál, kjarasamninga…já og allt hitt líka.
Ungt fólk í dag glímir við sömu reynslu og mín kynslóð hvað ofangreint varðar. En þremur áratugum síðar glímir unga kynslóð dagsins í dag við heldur alvarlegri úrlausnarefni en mín kynslóð þurfti nokkurn tíma að glíma við.
Húsnæðisskortur á leigumarkaði árið 2019 nálgast á við brjálæði. Ungu (barna-) fólki er kippt héðan og þaðan út úr leiguhúsnæði eftir duttlungum markaðarins og leigusalans. Þessi kynslóð hefur ekki náð að skrapa saman í fjárfestingu, er þarafleiðandi ógjaldgeng í greiðslumat. Leigumarkaðurinn er erfiður og dýr. Hreinlega óviðráðanlegur.
Við lesum um í dagblöðum að offramboð sé á lúxushúsnæði í Reykjavík í dag. Hvaða Reykvíkingar báðu um lúxusíbúðir? Voru það verktakar sem óskuðu eftir að byggja dýrt? Hvert stefnir húsnæðismarkaðurinn í höfuðborginni eiginlega?
Þetta er óviðunandi forgangsröðun og ill ásættanleg. Við viljum að ungt fólk fái þátttökurétt til að lifa mannsæmandi lífi í landinu okkar í dag sem og aðra dag.
Í lokin eitt óbrigðult ráð úr gamla skólakerfinu: Mjórri endanum er snúið niður þegar egg eru geymd. Gleymum því bara alls ekki.
Höfundur er í framboði til stjórnar VR.