Fyrir nokkru spruttu upp talsverðar umræður um þá hugmynd að hafa eina sameiginlega móttökudeild í Vogaskóla fyrir flóttabörn í Reykjavík. Þessi hugmynd er að vonum umdeild en þótt ágreiningsefnin séu mörg og sum djúpstæð, þá virðast samt margir sammála um eitt, nefnilega að börnin þurfi að fá góðan stuðning til að aðlagast íslensku samfélagi. Þessu er ég ósammála.
Þegar talað er um að flóttamenn og innflytjendur, hvort heldur börn eða fullorðnir, eigi að aðlagast íslensku samfélagi virðist vera gengið að tvennu sem vísu. Annars vegar því að nokkuð skýrt sé hverskonar samfélag þetta er sem sumir kannski aðlagast en aðrir ekki, og svo hins vegar því að það sé yfirleitt gott að aðlagast samfélaginu.
Íslenskt samfélag
Byrjum á fyrra atriðinu, íslensku samfélagi. Þetta samfélag breytist í sífellu af allskonar ástæðum. Stundum er talað um samfélagið fyrir hrun – þá er ártalið 2007 notað sem lýsingarorð yfir samfélag sem einkenndist af græðgi, yfirgengilegri neysluhyggju, sjálfumgleði, hroka og ábyrgðarleysi ... listinn yfir lestina gæti verið lengri. Væntanlega er ekki verið að tala um að flóttabörnin eigi að aðlaga sig að þesskonar samfélagi. En svo kom hrunið og halda mætti að á einni nóttu eða svo hafi íslenskt samfélag breyst úr einhverju versta lastabæli Evrópu í kyndilbera lýðræðislegra dygða þar sem bankamenn svöruðu til saka og fólkið í landinu skrifaði nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldi í sátt við náttúruna.
En sú tálsýn var aldrei annað en það, tálsýn. Að vísu hafa nokkrir bankamenn farið í fangelsi fyrir glæpi sína og tillögur að nýrri stjórnarskrá voru vissulega settar saman í víðtæku samstarfi fjölda fólks. En græðgin virðist aftur hafa grafið um sig – ef hún vék þá einhvern tímann til hliðar – og stjórnarskráin nýja er einhvers staðar undir stól og enginn virðist vita hver sitji á henni. Hver vill aðlagast þessu?
Og hvað með þingmennina sem hittust á barnum, á vinnutíma, drukku sig fulla, klæmdust og lítilsvirtu samstarfsfólk sitt á Alþingi. Þau viðhorf sem þar birtust voru engin annnesjaviðhorf jaðarhópa heldur skýr birtingarmynd karlrembusamfélags þar sem fyndnin er meinhæðin og hrokafull, viðhorfin til kvenna eru klámfengin og þeim sem höllum fæti standa er mætt af yfirlæti, jafnvel fyrirlitningu. Vonandi er ekki verið að tala um að flóttabörnin aðlagi sig að þessum gildum og sjónarmiðum.
Svo er það líka staðreynd um íslenskt samfélag að það byggir efnislega velferð sína á gróflegri pínu á náttúru, misskiptingu auðs í heiminum og almennri græðgi. Ég segi græðgi, því í viðleitni okkar til að skapa okkur notalegt umhverfi eru Íslendingar einhverjir mestu umhverfissóðar sem finnast á jörðinni – þrátt fyrir hina „hreinu“ orku, heita vatnið og óspilltu náttúruna. Kolefnisspor venjulegs Íslendings er eitt það hæsta í heiminum. Þetta væri kannski í lagi ef lofthjúpurinn væri óendanleg auðlind – eða öllu heldur ófyllanleg ruslatunna, því það er þannig sem við göngum um hann. En sannleikurinn er sá að jörðin og vistkerfi hennar eru ekki bara takmörkuð heldur líka komin að þolmörkum. Jörðin þolir ekki meiri skít. Ef við höldum áfram eins og hingað til munum við (þ.e. fólkið sem nú erum á besta aldri og njótum ríkulegra efnislegra gæða) skapa börnum okkar og annarra, ekki síst flóttabörnum, óbærilega framtíð. Er það þetta samfélag sem börn á flótta eiga að aðlagast?
Aðlögun
Víkjum nú að síðara atriðinu, aðlöguninni. Þegar talað er um að einhver þurfi að aðlagast samfélagi er ekki bara verið að lýsa staðreynd heldur að mæla fyrir um siðferðilega verðleika og siðferðilegar skyldur eða kvaðir. Og það er alls ekki víst að í slíkum siðaboðskap sé nein glóra. Hugsum aðeins til baka, t.d. til hennar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem fæddist árið 1856 norður í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Hún fæddist inn í samfélag sem hún kærði sig alls ekki um að aðlagast. Þetta var karlasamfélag og frekar en að aðlagast því, með því að vera undirgefin og auðmjúk eiginkona sem fyndi lífi sínu farveg í hefðbundnum kvennastörfum við matseld og umönnun barna og gamalmenna, þá bauð hún því byrginn. Hún var sumsé baráttukona fyrir kvenréttindum. Þær hafa verið margar slíkar, sem betur fer, og þess vegna er samfélagið sem við búum við í dag ekki jafn mikið karlrembusamfélag og það var fyrir 100 árum. Þegar 90% kvenna lögðu niður störf 24. október 1975, þá var það kröftug yfirlýsing um að konur á Íslandi ætluðu ekki að aðlaga sig að því samfélagi sem þær voru þó stór hluti af. Þvert á móti, þær ætluðu að breyta samfélaginu.
Samfélagi er ekki breytt á einum degi og þótt karlremban sé einhvers konar nátttröll í heimi hugmynda og stjórnmála, þá hefur sólarljós jafnréttisbaráttunnar samt ekki náð að umbreyta henni í dauðan stein. Eins og kötturinn virðist hún eiga sér níu líf, eða fleiri. Free the nipple vakningin og MeeToo hreyfingin eru dæmi um víðtæka samstöðu kvenna um að leggja enn á ný til atlögu við þetta nátttröll karlrembunnar. Eins og við er að búast þá brýst það um – þessi umbrot kristallast í klámfengnum kjaftavaðli þingmannanna á Klausturbarnum og enn skýrar í varnarviðbrögðum þeirra eftir að óhróðurinn lak út.
Það er ekki bara svo að mér hugnist ekki að flóttabörn aðlagist samfélagi sem er meingallað – þótt samfélagið sé líka á margan hátt mjög gott – heldur hugnast mér alls ekki að börn séu menntuð til aðlögunar. Það á við um flóttabörn eins og önnur börn. Satt best að segja hryllir mig við þeirri tilhugsun að börn séu aðlöguð að heimi fullorðinna. Uppeldi til aðlögunar er örugglega versta uppeldisstefna sem hægt er að hugsa sér – en kannski líka sú algengasta. Það er uppeldi sem miðar að því að viðhalda ríkjandi misskiptingu, ríkjandi fordómum, ríkjandi sjálftöku sumra en jaðarsetningu annarra, ríkjandi gróðahyggju, ríkjandi þrældómi víða um heim, og ríkjandi pínu á náttúru.
Sem betur fer var Bríet ekki alin upp til aðlögunar. Hennar uppeldi var til ögrunar, uppreisnar, til breytinga. Og það er slíkt uppeldi sem við þurfum á að halda, ekki bara handa sumum börnum heldur handa öllum börnum. Að tala fyrir menntun sem stefnir að öðru er ekki bara annars flokks, það er beinlínis ógeðfellt.
Menntun fyrir börn á flótta
Börn sem koma til Íslands á flótta undan stríði eða örbirgð, fordómum, fátækt og ofbeldi þurfa vitaskuld stuðning. Mikinn og faglegan stuðning. Þau þurfa stuðning til að takast á við áföll sem hafa hrakið þau um hálfan hnöttinn til bjargar eigin lífi og í leit að framtíð. Þau þurfa stuðning til að fóta sig í íslensku samfélagi. Þessi stuðningur sem þau þurfa er það sem mig langar einfaldlega að kalla menntun. Menntun er ekki bara að ganga í skóla og taka próf heldur að rækta þá eiginleika sem gera hvert og eitt okkar mennsk. Menntun er mannrækt, eða öllu heldur, mennskurækt. Slík menntun snýr ekki bara inn á við, ef svo má segja, heldur líka út á við. Það er stundum sagt að það þurfi heilt þorp til að mennta barn. Það er mikið vit í því. En til að mennta eitt barn getur líka þurft að mennta þorpið. Og sá kennari sem er drýgstur fyrir menntun þorpsins er einmitt barnið. Manneskjulegt þorp er staður þar sem þroskakostir barna – allra barna – eru manneskjulegir.
Bríet hlaut á sínum tíma menntun sem gerði henni kleift að fóta sig í samfélaginu án þess að aðlagast því. Hennar ævistarf var að mennta íslenskt samfélag. Og þökk sé henni og fleiri konum og körlum, þá eru þroskakostir íslenskra ungmenna margvíslegri og manneskjulegri en áður. En Free the nipple vakningin og MeeToo hreyfingin bera þess vitni að samfélagið á enn margt ólært. Ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Uppgangur karlrembupólitíkur og útlendingahaturs víða á Vesturlöndum ber þess glöggt vitni að þessi samfélög eru treg til námsins – hættulega treg.
Við þurfum að læra að fóta okkur upp á nýtt. Reyndar er lífið þannig að á hverjum degi þarf hver manneskja að læra örlítið nýtt göngulag því landslagið sem gengið er um – samfélagið með sínum kostum og göllum – tekur sífelldum breytingum. Og það er ekki bara í Vogahverfinu sem gamalgrónir Íslendingar þurfa að læra að búa í samfélagi með flóttabörnum. Við þurfum öll að læra það. Kannski ætti að snúa málinu við. Í stað þess að búa til sérstaka móttökudeild fyrir flóttabörnin ætti e.t.v. að setja af stað átak til að gera okkur öll – okkur sem erum þetta íslenska samfélag – móttækilegri fyrir börnum og öðru fólki sem hefur hrakist hingað í leit að einhverskonar samastað í tilverunni.