Aðlögumst ekki!

Auglýsing

Fyrir nokkru spruttu upp tals­verðar umræður um þá hug­mynd að hafa eina sam­eig­in­lega mót­töku­deild í Voga­skóla fyrir flótta­börn í Reykja­vík. Þessi hug­mynd er að vonum umdeild en þótt ágrein­ings­efnin séu mörg og sum djúp­stæð, þá virð­ast samt margir sam­mála um eitt, nefni­lega að börnin þurfi að fá góðan stuðn­ing til að aðlag­ast íslensku sam­fé­lagi. Þessu er ég ósam­mála.

Þegar talað er um að flótta­menn og inn­flytj­end­ur, hvort heldur börn eða full­orðn­ir, eigi að aðlag­ast íslensku sam­fé­lagi virð­ist vera gengið að tvennu sem vísu. Ann­ars vegar því að nokkuð skýrt sé hvers­konar sam­fé­lag þetta er sem sumir kannski aðlag­ast en aðrir ekki, og svo hins vegar því að það sé yfir­leitt gott að aðlag­ast sam­fé­lag­inu.

Íslenskt sam­fé­lag

Byrjum á fyrra atrið­inu, íslensku sam­fé­lagi. Þetta sam­fé­lag breyt­ist í sífellu af alls­konar ástæð­um. Stundum er talað um sam­fé­lagið fyrir hrun – þá er ártalið 2007 notað sem lýs­ing­ar­orð yfir sam­fé­lag sem ein­kennd­ist af græðgi, yfir­gengi­legri neyslu­hyggju, sjálf­um­gleði, hroka og ábyrgð­ar­leysi ... list­inn yfir lest­ina gæti verið lengri. Vænt­an­lega er ekki verið að tala um að flótta­börnin eigi að aðlaga sig að þess­konar sam­fé­lagi. En svo kom hrunið og halda mætti að á einni nóttu eða svo hafi íslenskt sam­fé­lag breyst úr ein­hverju versta lasta­bæli Evr­ópu í kyndil­bera lýð­ræð­is­legra dygða þar sem banka­menn svör­uðu til saka og fólkið í land­inu skrif­aði nýja stjórn­ar­skrá fyrir lýð­veldi í sátt við nátt­úr­una.

Auglýsing

En sú tál­sýn var aldrei annað en það, tál­sýn. Að vísu hafa nokkrir banka­menn farið í fang­elsi fyrir glæpi sína og til­lögur að nýrri stjórn­ar­skrá voru vissu­lega settar saman í víð­tæku sam­starfi fjölda fólks. En græðgin virð­ist aftur hafa grafið um sig – ef hún vék þá ein­hvern tím­ann til hliðar – og stjórn­ar­skráin nýja er ein­hvers staðar undir stól og eng­inn virð­ist vita hver sitji á henni. Hver vill aðlag­ast þessu?

Og hvað með þing­menn­ina sem hitt­ust á barn­um, á vinnu­tíma, drukku sig fulla, klæmd­ust og lít­ils­virtu sam­starfs­fólk sitt á Alþingi. Þau við­horf sem þar birt­ust voru engin ann­nesja­við­horf jað­ar­hópa heldur skýr birt­ing­ar­mynd karl­rembusam­fé­lags þar sem fyndnin er mein­hæðin og hroka­full, við­horfin til kvenna eru klám­fengin og þeim sem höllum fæti standa er mætt af yfir­læti, jafn­vel fyr­ir­litn­ingu. Von­andi er ekki verið að tala um að flótta­börnin aðlagi sig að þessum gildum og sjón­ar­mið­um.

Svo er það líka stað­reynd um íslenskt sam­fé­lag að það byggir efn­is­lega vel­ferð sína á gróf­legri pínu á nátt­úru, mis­skipt­ingu auðs í heim­inum og almennri græðgi. Ég segi græðgi, því í við­leitni okkar til að skapa okkur nota­legt umhverfi eru Íslend­ingar ein­hverjir mestu umhverf­is­sóðar sem finn­ast á jörð­inni – þrátt fyrir hina „hreinu“ orku, heita vatnið og óspilltu nátt­úr­una. Kolefn­is­spor venju­legs Íslend­ings er eitt það hæsta í heim­in­um. Þetta væri kannski í lagi ef loft­hjúp­ur­inn væri óend­an­leg auð­lind – eða öllu heldur ófyll­an­leg rusla­tunna, því það er þannig sem við göngum um hann. En sann­leik­ur­inn er sá að jörðin og vist­kerfi hennar eru ekki bara tak­mörkuð heldur líka komin að þol­mörk­um. Jörðin þolir ekki meiri skít. Ef við höldum áfram eins og hingað til munum við (þ.e. fólkið sem nú erum á besta aldri og njótum ríku­legra efn­is­legra gæða) skapa börnum okkar og ann­arra, ekki síst flótta­börn­um, óbæri­lega fram­tíð. Er það þetta sam­fé­lag sem börn á flótta eiga að aðlagast?

Aðlögun

Víkjum nú að síð­ara atrið­inu, aðlög­un­inni. Þegar talað er um að ein­hver þurfi að aðlag­ast sam­fé­lagi er ekki bara verið að lýsa stað­reynd heldur að mæla fyrir um sið­ferði­lega verð­leika og sið­ferði­legar skyldur eða kvað­ir. Og það er alls ekki víst að í slíkum siða­boð­skap sé nein glóra. Hugsum aðeins til baka, t.d. til hennar Brí­etar Bjarn­héð­ins­dóttur sem fædd­ist árið 1856 norður í Vatns­dal í Aust­ur-Húna­vatns­sýslu. Hún fædd­ist inn í sam­fé­lag sem hún kærði sig alls ekki um að aðlag­ast. Þetta var karla­sam­fé­lag og frekar en að aðlag­ast því, með því að vera und­ir­gefin og auð­mjúk eig­in­kona sem fyndi lífi sínu far­veg í hefð­bundnum kvenna­störfum við matseld og umönnun barna og gam­al­menna, þá bauð hún því byrg­inn. Hún var sumsé bar­áttu­kona fyrir kven­rétt­ind­um. Þær hafa verið margar slík­ar, sem betur fer, og þess vegna er sam­fé­lagið sem við búum við í dag ekki jafn mikið karl­rembusam­fé­lag og það var fyrir 100 árum. Þegar 90% kvenna lögðu niður störf 24. októ­ber 1975, þá var það kröftug yfir­lýs­ing um að konur á Íslandi ætl­uðu ekki að aðlaga sig að því sam­fé­lagi sem þær voru þó stór hluti af. Þvert á móti, þær ætl­uðu að breyta sam­fé­lag­inu.

Sam­fé­lagi er ekki breytt á einum degi og þótt karl­remban sé ein­hvers konar nátt­tröll í heimi hug­mynda og stjórn­mála, þá hefur sól­ar­ljós jafn­rétt­is­bar­átt­unnar samt ekki náð að umbreyta henni í dauðan stein. Eins og kött­ur­inn virð­ist hún eiga sér níu líf, eða fleiri. Free the nipple vakn­ingin og MeeToo hreyf­ingin eru dæmi um víð­tæka sam­stöðu kvenna um að leggja enn á ný til atlögu við þetta nátt­tröll karl­rembunn­ar. Eins og við er að búast þá brýst það um – þessi umbrot krist­all­ast í klám­fengnum kjafta­vaðli þing­mann­anna á Klaust­ur­barnum og enn skýrar í varn­ar­við­brögðum þeirra eftir að óhróð­ur­inn lak út.

Það er ekki bara svo að mér hugn­ist ekki að flótta­börn aðlag­ist sam­fé­lagi sem er mein­gallað – þótt sam­fé­lagið sé líka á margan hátt mjög gott – heldur hugn­ast mér alls ekki að börn séu menntuð til aðlög­un­ar. Það á við um flótta­börn eins og önnur börn. Satt best að segja hryllir mig við þeirri til­hugsun að börn séu aðlöguð að heimi full­orð­inna. Upp­eldi til aðlög­unar er örugg­lega versta upp­eld­is­stefna sem hægt er að hugsa sér – en kannski líka sú algeng­asta. Það er upp­eldi sem miðar að því að við­halda ríkj­andi mis­skipt­ingu, ríkj­andi for­dóm­um, ríkj­andi sjálftöku sumra en jað­ar­setn­ingu ann­arra, ríkj­andi gróða­hyggju, ríkj­andi þræl­dómi víða um heim, og ríkj­andi pínu á nátt­úru.

Sem betur fer var Bríet ekki alin upp til aðlög­un­ar. Hennar upp­eldi var til ögrun­ar, upp­reisn­ar, til breyt­inga. Og það er slíkt upp­eldi sem við þurfum á að halda, ekki bara handa sumum börnum heldur handa öllum börn­um. Að tala fyrir menntun sem stefnir að öðru er ekki bara ann­ars flokks, það er bein­línis ógeð­fellt.

Menntun fyrir börn á flótta

Börn sem koma til Íslands á flótta undan stríði eða örbirgð, for­dóm­um, fátækt og ofbeldi þurfa vita­skuld stuðn­ing. Mik­inn og fag­legan stuðn­ing. Þau þurfa stuðn­ing til að takast á við áföll sem hafa hrakið þau um hálfan hnött­inn til bjargar eigin lífi og í leit að fram­tíð. Þau þurfa stuðn­ing til að fóta sig í íslensku sam­fé­lagi. Þessi stuðn­ingur sem þau þurfa er það sem mig langar ein­fald­lega að kalla mennt­un. Menntun er ekki bara að ganga í skóla og taka próf heldur að rækta þá eig­in­leika sem gera hvert og eitt okkar mennsk. Menntun er mann­rækt, eða öllu held­ur, mennsku­rækt. Slík menntun snýr ekki bara inn á við, ef svo má segja, heldur líka út á við. Það er stundum sagt að það þurfi heilt þorp til að mennta barn. Það er mikið vit í því. En til að mennta eitt barn getur líka þurft að mennta þorp­ið. Og sá kenn­ari sem er drýgstur fyrir menntun þorps­ins er einmitt barn­ið. Mann­eskju­legt þorp er staður þar sem þroska­kostir barna – allra barna – eru mann­eskju­leg­ir.

Bríet hlaut á sínum tíma menntun sem gerði henni kleift að fóta sig í sam­fé­lag­inu án þess að aðlag­ast því. Hennar ævi­starf var að mennta íslenskt sam­fé­lag. Og þökk sé henni og fleiri konum og körlum, þá eru þroska­kostir íslenskra ung­menna marg­vís­legri og mann­eskju­legri en áður. En Free the nipple vakn­ingin og MeeToo hreyf­ingin bera þess vitni að sam­fé­lagið á enn margt ólært. Ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Upp­gangur karl­rembupóli­tíkur og útlend­inga­hat­urs víða á Vest­ur­löndum ber þess glöggt vitni að þessi sam­fé­lög eru treg til náms­ins – hættu­lega treg.

Við þurfum að læra að fóta okkur upp á nýtt. Reyndar er lífið þannig að á hverjum degi þarf hver mann­eskja að læra örlítið nýtt göngu­lag því lands­lagið sem gengið er um – sam­fé­lagið með sínum kostum og göllum – tekur sífelldum breyt­ing­um. Og það er ekki bara í Voga­hverf­inu sem gam­al­grónir Íslend­ingar þurfa að læra að búa í sam­fé­lagi með flótta­börn­um. Við þurfum öll að læra það. Kannski ætti að snúa mál­inu við. Í stað þess að búa til sér­staka mót­töku­deild fyrir flótta­börnin ætti e.t.v. að setja af stað átak til að gera okkur öll – okkur sem erum þetta íslenska sam­fé­lag – mót­tæki­legri fyrir börnum og öðru fólki sem hefur hrak­ist hingað í leit að ein­hvers­konar sama­stað í til­ver­unni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiÁlit
None