Óverjandi herferð gegn hvölum

Formaður Dýraverndarsambands Íslands hvetur almenning til að láta sig dráp á hvölum varða.

Auglýsing

Sjávarútvegsráðherra hefur tilkynnt að úrskurður hans um að leyfa árlegar veiðar á hundruðum hvala sé byggð á vísindalegum rökum. Að þessu sinni er þó farið að mestu grímulaust með þá hagsmuni sem liggja til slátrunar hvalanna. Kristján Loftsson hefur áður sýnt okkur rækilega með dæmalausum ferli sínum hversu vonlítil sú viðskiptahugmynd er að reyna að veiða hvali og selja afurðir þeirra.

Almennt borða Íslendingar ekki hvalkjöt og enn verra er að koma því til útlanda. Ótalin er sú óvild og sá vandi sem hvalveiðar skapa okkur hjá öðrum þjóðum. Raunverulegu hagsmunirnir, þau vísindi sem ráðherra vísar til við ákvörðun sína, voru aftur á móti vel beraðir í alræmdri skýrslu hagfræðings hjá Háskóla Íslands. Skýrslan var raunar með þvílíkum ósköpum að vægur jarðskjálfti mældist við kjánahrollinn sem fór um meira og minna allar kreðsur í íslenskum vísindaheimi sem rýndu í hana og sem eitthvað þekkja til lífríkis sjávar.

Ef skýrslan er skoðuð ofan í kjölinn sést að hún snýst fyrst og fremst um hagsmuni þess fólks sem hefur tekjur af þeirri auðlind þjóðarinnar sem er fiskurinn í sjónum. Gleymum því ekki að þær tekjur sem fiskurinn gefur standa ágætilega undir því að borga jafnt hagfræðingum, lögfræðingum og stjórnmálaflokkum ágætar dúsur fyrir álit og lagavafstur og jafnvel niðurstöður. Til að setja punktinn yfir i-ið er álit hagfræðingsins hnýtt slaufum með orðum á borð við ,,þjóðarhag” og það orð mikið notað, enda verður að telja almenningi í trú um að þetta sé góð hugmynd. Svona er háttbundinn hringdans hagsmunaaðila og stjórnvalda og það er alltaf hálf neyðarlegt að horfa upp á hann. En í þessu tilfelli verða hvalirnir undir.

Auglýsing

Mat hagfræðingsins snýst í grunninn um að sýna fram á að það borgar sig að veiða hvali einfaldlega af því hvalir borða svo mikið. Þar vísar hann til þess sem kallað er afrán hvala. Í þessu tilfelli er ljóst að ekki er vísað til vanabundinna líffræðilegra skilgreininga á því þegar eitt dýr veiðir annað sér til næringar, heldur leiðir hagfræðingurinn út þá niðurstöðu sína að það sé hagkvæmt að veiða hvali til þess að hvalirnir borði ekki fiskinn í sjónum eða taki mat frá honum.

Undir þessu öllu liggur í raun einhverskonar sjónarmið um fiskirækt í sjónum, af því veiða megi fleiri fiska með því að ryðja hvölum frá. Það grundvallarsjónarmið að hvalir eru hluti af vistkerfi sjávar og með sjálfstæðan tilverurétt sem slíkir er hreinlega ekki til viðmiðunar. Dýravelferð er þannig að heita má skeytingarlaust fórnað hér á altari meiri gnægta. Tilurð, ferill og niðurstaða skýrslunnar lýsir að mínu mati gengdarlausri sjálfsmiðun og algeru virðingarleysi í garð lífríkisins sem við þó tilheyrum. Þetta er nálgun og viðhorf á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna eingöngu, allt í takti við þá annars furðulegu hagfræði sem gerir ráð fyrir endalausum hagvexti í veröld endanlegra gæða. Ráðherra niðurlægir berlega embætti sitt og umboð með því að vísa til þessa gagns sem vísindalegs grundvallar ákvörðunar sinnar. Enda blasir hagsmunaslagsíðan við. Og hvalurinn verður undir.

Dýraverndarsamband Íslands hefur ekki lagst gegn veiðum á villtum dýrum til matar, hvort sem það eru fuglar, fiskar eða spendýr á borð við til dæmis hreindýr eða hvali, nema á þeim grundvelli þar sem ekki er unnt að tryggja mannúðlega aflífun dýranna. Í tilfelli hvalanna er það ekki hægt og sýnt hefur verið fram á að dauðastríð þessara spendýra getur tekið langan tíma. Hér er því bæði um að ræða það að ryðja hvölum úr vegi í lífríki hafsins og einnig að aðferðin við drápin er óverjandi frá dýravelferðarsjónarmiðum. Aðrir hafa bent á almenn og alþjóðleg verndarsjónarmið hvalastofna. Höldum til haga að ef viðlíka tíðni væri á tilviljanakenndum framlengdum kvalafullum dauðdaga einhvers hlutfalls búfjár við slátrun þá yrði snarlega brugðist við því. En við sýnum hvölum tómlæti og látum þá líða þjáningarfullan dauðdaga. Í von um hagnað fyrir útgerðina.

Svona er leikfléttan. Hún er ljót. Það er bara hollt að setja hana í orð og íhuga málin betur. Við hvetjum almenning til að láta sig þessi dráp varða.

Vonandi ber íslenskri þjóð sem fyrst gæfa til hætta að standa fyrir því að leyfa örfáum aðilum að stunda kerfisbundin dráp á einni dýrategund til að auka annan gróða. Það er skömm að þessu máli, hvernig sem á það er litið. Við skorum á ráðherra að endurskoða ákvörðun sína nú þegar.

Höfundur er formaður Dýraverndarsambands Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar