Nú er meirihlutinn í borginni í klandri. Dagur B.
borgarstjóri er meira að segja farinn að koma fram í fjölmiðlum til að verja
störf meirihlutans sem hann fer fyrir. En nokkrir fjölmiðla menn hafa komið
fram og kvartað undan því að erfitt sé að fá borgarstjórann til að koma í
viðtal og höfðu sumir reynt í 3 vikur (kemur fram í lok þessa
viðtals). En borgarstjóri hefur séð að hann gæti ekki falið sig lengur og
kom út með stæl á fimmtudaginn með tveimur útvarpsviðtölum sama daginn (hér
og hér).
Þar bar hann sig aumlega og þótti ómaklega vegið að sér og starfsfólki
borgarinnar af einstökum fulltrúum minnihlutans í Borgarstjórn. Hann lýsir þar
miklu samsæri minnihlutans um að gera lítið úr störfum sínum og embættismanna í
borginni með ómaklegum hætti.
Stefán Eiríksson borgarritari og einn æðsti embættismaður borgarinnar ber við samskonar harma kveini á lokuðum Fésbókarhóp þennan sama dag þar sem hann ávarpar starfsmenn borgarinnar. Má þá ætla að þeir hafi stillt saman strengi sína hann og borgarstjórinn um hverjum ætti að kenna um þau ámæli sem borgin liggur undir. En borgarritari segir líka að vandamál borgarinnar séu runnin undan rifjum einstakra borgarfulltrúa minnihlutans.
Það er í þessu sambandi hollt að rifja upp þau mál sem hafa komið upp á yfirstandandandi kjörtímabili og sjá hvað óháðir aðilar og stofnanir segja um störf borgarinnar:
Persónuverndarlög brotin og Persónuvernd leynd upplýsingumSamkvæmt áliti Persónuverndar samræmdist vinnsla borgarinnar á persónuupplýsingum ekki lögum um persónuvernd. „Ámælisvert er að Reykjavíkurborg hafi ekki veitt Persónuvernd upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því með bréfi, dagsettu 14. maí 2018.“ Segir líka í álitinu. |
Fjarskiptalög brotin þrátt fyrir aðvaranir
|
Innkaupareglur borgarinnar brotnar„Að okkar mati var því innkaupareglum Reykjavíkurborgar ekki fylgt við gerð samninga vegna framkvæmdanna við Nauthólsveg 100.“ .. "Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar er skylt að viðhafa innkaupaferli, annað en verðfyrirspurn, þegar áætluð samningsfjárhæð verksamnings, að meðtöldum virðisaukaskatti, er yfir 28 milljónum króna. Reykjavíkurborg var því skylt að nota innkaupaferli vegna verkefnisins. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að verkefnið hafi fallið undir undantekningar innkaupareglnanna frá þeirri skyldu."
|
Lög um opinber skjalasöfn brotin |
Innri Endurskoðun hafði þetta að segja um málið: „Skjölun vegna verkefnisins var ófullnægjandi, nánast engin skjöl um það fundust í skjalavörslukerfi borgarinnar og það er brot á lögum um opinber skjalasöfn svo og skjalastefnu borgarinnar.“ Borgarskjalasafn bætti í með því að segja í áliti sínu: „Með hliðsjón af þessari niðurstöðu vill Borgarskjalasafn Reykjavíkur ítreka hversu gífurlega mikilvægt sé að farið sé eftir þeim ferlum og lögum er varða skjalastjórn og skjalavistun. Ekki einungis til að uppfylla lögbundna starfshætti og reglur heldur ekki síður til að tryggja rekjanleika mála og upplýsingar um ákvarðanir og úrvinnslu þeirra.“
Sveitastjórnarlög brotinÍ skýrslu Innri Endurskoðunar um Braggamálið segir: „Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum og þess var ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar en það er brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar.“ |
Borgarstjóri, borgarritari og aðrir embættismenn brugðust eftirlitsskyldu sinniÍ skýrslu Innri Endurskoðunar segir: „Samkvæmt skipuriti er borgarritari næsti yfirmaður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar en þó hafa mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur farið beint til borgarstjóra og því hefur ekki verið unnið samkvæmt réttri umboðskeðju. [..]Þó að hin formlega umboðskeðja hafi ekki verið virk með því að skrifstofustjóri SEA sótti sín mál framhjá borgarritara og til borgarstjóra leysir það borgarritara ekki undan sinni stjórnunarlegu ábyrgð sem hann hefur samkvæmt umboðskeðjunni gagnvart SEA.“ Um ábyrgð borgarstjóra segir: „Borgarstjóri ber ábyrgð á uppbyggingu innra eftirlits hjá borginni í heild sinni gagnvart borgarráði.“
|
Jafnréttislög brotin við ráðningu borgarlögmannsStjórnendur borgarinnar réðu félaga sinn umfram hæfari umsækjanda og var borgin dæmd til að greiða bætur í málinu. Í áliti Kærunefndar Jafnréttismála segir: „Taldi nefndin því að kærði hefði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem kærði þótti ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ráðningunni.“
|
Úrræði borgarinnar í húsnæðismálum ekki samkvæmt lögum og stjórnarskráÍ áliti Umboðsmanns Alþingis segir: „Þegar þessi atriði og umgjörð við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg séu virt heildstætt skorti á að Reykjavíkurborg tryggi utangarðsfólki, svo fullnægjandi sé, aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, eins og þau verða túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindareglna. Umboðsmaður komst einnig að þeirri niðurstöðu að reglur Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur fullnægi ekki kröfum sem gera verður til skýrleika reglna um skilyrði sem í reynd eru sett fyrir úthlutun húsnæðis.“ Sjá: (https://www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/6429/skoda/mal/ )
|
Héraðsdómur ávítar Skrifstofustjóra Borgarstjóra fyrir lítilsvirðandi hegðun. Borgin greiðir bætur fyrir hennar gjörðir.Héraðsdómur sá þörf til að minna skrifstofustjórann á að „undirmenn [séu] ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“ Reykjavíkurborg var dæmd til að greiða bætur í málinu. En málið var rannsakað sem eineltismál í Ráðhúsinu. „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætlast til af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna. Að mati dómsins er þessi framkoma skrifstofustjórans í það minnsta óvirðing, ef ekki lítilsvirðing við samstarfsmann, sem er auk þess kynslóð eldri en hún og ætti, þó ekki væri nema vegna starfsreynslu sinnar, tilkall til örlítillar virðingar.“
|
Óeðlileg notkun opinberra auðlinda fyrir kosningarGildishlaðin skilaboð voru send kjósendum fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2018 að mati Persónuverndar. Upplýsingafulltrúi Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE segir í samtali að slíkt væri rannsakað ef stofnunin hefði fylgst með kosningunum. Enda ef leiðbeiningar ÖSE um eftirlit með kosningum eru skoðaðar má sjá að misnotkun á opinberum auðlindum og óljós skil milli flokkslína og hins opinbera eru atriði sem talin eru skekkja jafnréttisgrundvöll framboða í kosningum samkvæmt Öryggis og Samvinnustofnun Evrópu. Sjá: (https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/02/09/ose_tekur_ekki_afstodu_til_kosninganna/ ) Lygar um minjavernd |
Minjastofnun hafnar ábyrgð í braggamálinu eftir að Dagur hafði notað sem vörn að Bragginn væri friðaður. Helsta vörn meirihlutans í Braggamálinu var lengi framan af að Bragginn væri friðaður og þar bæri Minjavernd ábyrgð. Forstöðumaður Minjaverndar þurfti að leiðrétta borgarstjórann vegna ítrekaðra ranginda varðandi þetta atriði.
Leyndarhjúpur um Braggamálið |
Blaðamenn saka borgarstarfsmenn um að reyna að leyna upplýsingum um braggamálið. „Yfirvöld og starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa frá fyrsta degi reynt að koma í veg fyrir fréttaflutning af Braggablúsnum svokallaða í Nauthólsvík. Það hefur alltaf verið erfitt að fá upplýsingar um einstök atriði er varða kostnað og gríðarlega framúrkeyrslu á verkefninu. Í hvert sinn sem við blaðamenn tökum upp símann til að fá upplýsingar sem eiga skýrt erindi við almenning þá er reynt að fela upplýsingar og drepa þessu máli á dreif.“ |
Embættismaður áminntur af Siðanefnd Sambands Íslenskra Sveitarfélaga
Skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara skrifaði erindi til forsætisnefndar borgarstjórnar þar sem hún kvartaði undan því að kjörnir fulltrúar tjáðu sig opinberlega um dóm sem féll í Héraðsdómi. Daginn eftir að bréfið var ritað var því lekið í blaðamann hjá RÚV og má ætla að þar hafi skrifstofustjórinn sjálf lekið bréfinu í fjölmiðla áður en fjallað var um efni bréfsins í Forsætisnefnd. Með því að senda þetta erindi til Forsætisnefndar taldi Siðanefnda Sambands Íslenskra Sveitarfélaga að skrifstofustjórinn hefði farið út fyrir hefðbundna verkaskiptingu innan Ráðhússins og var hún áminnt fyrir það í áliti Siðanefndar SÍS.
Enn fremur telur Siðanefndin að sömu siðareglur eigi að gilda um starfsmenn sveitarfélaga eins og kjörna fulltrúa. Vísar siðanefndin m.a. til 1. mgr. 3. gr. siðaregina kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar : „Kjörnir fulltrúar [eða starfsmenn] gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Þeir sýna störfum og réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar tilhlýðilega virðingu." Má því lesa úr áliti Siðanefndar að hér hafi starfsmaður borgarinnar brotið þessa reglu.
Enn fremur segir Siðanefndin varðandi verkaskiptingu:
"Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að starfsmaðurinn leiti til sinna yfirmanna og að tengingin við kjörna fulltrúa fari í gegnum framkvæmdastjóra. Nefndin telur því ekki vænlegt að starfsmaður vísi kvörtunum sínum beint til pólitískra nefnda eins og hér virðist hafa gerst."
Það sama hlýtur þá að gilda um útspil borgarritara nú í gær, þar sem hann birtir á opinberum vettvangi kvartanir og dylgjur um kjörna fulltrúa. En samkvæmt úrskurði Siðanefndarinnar á gagnrýni einstakra starfsmanna borgarinnar á kjörna fulltrúa að fara fram gegnum sína yfirmenn og framkvæmdastjóra sveitarfélagsins.
Sjá: (https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/4b_alit_sidanefndar.pdf)
Eyðing tölvupósta og lygar varðandi eydda tölvupósta
Innri Endurskoðun borgarinnar sá sérstaka ástæðu til að gefa út minnisblað vegna ítrekaðra ósanninda kjörinna fulltrúa meirihlutans í borginni varðandi að engum tölvupóstum hefði verið eytt í Braggamálinu. „Samkvæmt ofangreindu er ljóst að útsendum tölvupóstum hefur verið eytt úr pósthólfi skrifstofustjórans. Hins vegar er ekki hægt að meta hvort einhverjum innkomnum póstum hefur verið eytt því fyrirliggjandi eru þar tölvupóstar frá öllum tímum ofangreinds tímabils, það er frá ágúst 2012. Öllum tölvupóstum í pósthólfi verkefnastjórans fyrir október 2017, sbr. hér fyrir ofan, hefur verið eytt.“
Vinavæðing við val á verktökum sem fengu svo svimandi háar greiðslur
Í skýrslu Innri Endurskoðunar um Braggann segir: „Verktakar og aðrir sem unnu verkið voru almennt ráðnir af því þeir voru kunnugir þeim sem stóðu að framkvæmdunum, allflestir handvaldir. Ekki var farið í innkaupaferli né leitað undanþágu frá innkauparáði varðandi það.“ En fjöldi frétta fjallaði svo um svimandi háar greiðslur til ýmissa verktaka og hönnuða. (sjá t.d. hér, hér og hér)
Starfsmenn borgarinnar skrifuðu upp á tugi milljóna reikninga án heimildar eða athugunar á réttleika reikninganna
„Þannig hefur í heilt ár ekki verið til nein heimild fyrir útgjöldunum sem samþykkt var að mætti greiða. Þegar þetta er ritað skortir enn heimild fyrir rúmum 70 m.kr. sem búið er að greiða. Ljóst er að seinni samþykkjandi kostnaðarreikninganna hefur ekki athugað hvort fjárheimild væri fyrir reikningunum sem hann var að samþykkja.“ Svo virðist sem vinavæðingin hafi leitt af sér slíkt traust að ekki var farið yfir réttleika reikninga heldur: „Vísbendingar eru um að eftirlit með réttleika reikninganna hefur ekki verið nægjanlegt í tilviki verkefnisins að Nauthólsvegi 100. Sem dæmi má nefna að á reikningi frá einum birgja hafði niðurstöðutala verið ranglega skráð 100 þús.kr. of há en undirliðir voru rétt skráðir. Reikningurinn var samþykktur og greiddur athugasemdalaust.“
Borgin dæmd fyrir að synja öryrkjum um bætur
„Krafa ÖBÍ hefur verið sú að greiða þurfi vangoldnar bætur frá 2009, en þetta er engu að síður mjög góð ákvörðun og skiptir miklu máli fyrir það fólk sem à rétt á greiðslum. Ég tek það samt fram að þetta hefur ekkert með gjafmildi að gera. Við höfum þurft að draga allt út úr borginni með töngum hingað til,“
Sjá: (http://www.ruv.is/frett/borgin-verdur-vid-krofum-oryrkjabandalagsins )
Samsæri á landsvísu
Svo virðist sem minnihlutinn í borginni, eða öllu heldur örfáir kjörnir fulltrúar, sem borgarritari vísar til, sé með tangarhald á ótal stofnunum í landinu. Þessir kjörnu fulltrúar í minnihluta borgarstjórnar eru samkvæmt borgarstjóra og borgarritara að stýra samsæri gegn stjórn borgarinnar sem fjöldi stofnana á landsvísu kemur að. Hér að framan eru nefnd atriði frá:
- · Persónuvernd
- · Póst og Fjarskiptastofnun
- · Innri Endurskoðun Reykjavíkurborgar
- · Borgarskjalasafni
- · Kærunefnd Jafnréttismála
- · Umboðsmanni Alþingis
- · Héraðsdómi Reykjavíkur
- · Öryggis og Samvinnustofnun Evrópu
- · Minjastofnun
- · Fjölda íslenskra fjölmiðla (svo sem: RÚV, Vísir, Fréttablaðið, Morgunblaðið, Stundin ofl.) sem tóku þátt í að flytja fréttir af þessum málum
- · Öryrkjabandalagi Íslands
- · Hæstarétt Íslands
Allt aðilar sem hafa gagnrýnt harðlega, gefið álit, ritað skýrslur, ritað fréttir, dæmt í málum eða upplýst um ósannindi og misferli þess meirihluta sem situr í Ráðhúsi Reykjavíkur og embættismanna þeirra.
Allt eru þetta aðilar sem eru samkvæmt borgarstjóra og borgarritara hluti af samsæri fáeinna stjórnmálamanna í minnihluta í borgarstjórn. Mikill er máttur minnihlutans.
ATH! Í upprunalegri grein var notast við orðið 'einelti' varðandi hegðun Skrifstofustjóra Borgarstjóra. En eftir ábendingu frá lögmanni Skrifstofustjóra Borgarstjóra var fallið frá því orðalagi. Heppilegra hefði verið að tala um 'dýratamningar'. Því það er lýsingin sem Héraðsdómur notast við. En málið var þó rannsakað sem eineltismál innan Ráðhússins samkvæmt upplýsingum á vefsíðu borgarinnar. Þá var einnig ranglega sagt grein minni að Skrifstofustjórinn hefði verið dæmd. En það rétta er að borgin var dæmd fyrir hennar gjörðir og greiddi bætur fyrir það sem hún gerði. Þetta leiðréttist hér með því það er vitanlega reginmunur á þessu tvennu. Síðan var ranglega sagt að sami Skrifstofustjóri hefði farið í "ófrægingarherferð í fjölmiðla". En hið rétta er að bréf sem hún skrifaði lak í fjölmiðla áður en það birtist inni á lokuðum fundi í Forsætisnefnd Borgarstjórnar. Má þá ætla að hún hafi sjálf lekið bréfinu.