Ég fór á bráðamóttökuna nýverið eftir að hafa verið með óvenju slæma magakveisu. Kom í ljós að ég var með svæsna matareitrun og mér skellt í einangrun inni á bráðadeild Landspítalans og lá þar í þrjár nætur.
Ég er ein af þessum heppnu sem hef verið heilsuhraust og lítið þurft að leita á spítala um ævina. Ég verð að segja að ég varð fyrir hálfgeru áfalli yfir stöðunni á spítalanum, þrátt fyrir að vita töluvert um „kerfið” í gegnum ættingja sem hafa þurft á læknisþjónustu að halda síðustu ár.
Ég geri mér grein fyrir að ég var á bráðadeild Landspítalans sem þýðir að þarna eru almest um að vera á öllum spítalanum og umönnun er ekki sambærileg og á sér stað á öðrum deildum spítalans. En þarna var ég sett vegna plássleysis annars staðar og satt best að segja var lítið pælt í mér sem inniliggjandi sjúklingi nema það sem var gert reglulega til að athuga stöðuna á mér (án þess að ég bæði um það) var að mæla blóðþrýsting, súrefnismettun og hita ásamt því að taka einstaka blóðprufur.
Það sem ég furðaði mig mest á meðan ég var þarna, var þetta:
- Fjöldi lækna sem ég hitti á þessum þremur dögum, nánast aldrei sami læknirinn og þeir virtust ekki líta við nema að ég bæði um að fá að tala við þá
- Hversu lítið var spáð í næringuna sem ég ætti að fá eða hvað ég væri að fá mér að borða eða drekka í þessu ástandi
- Hversu erfitt það var að fá upplýsingar úr blóðprufum. Það fór þannig fram að ég spurði hvernig blóðprufan hefði komið út og þá var læknir sóttur til að segja mér það
- Að sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar væru að skrifa niður blóðþrýstingsgildin mín á blað, því að ég sá að græjan sem þau væru að nota var nettengd
- Hversu fáir af læknum/hjúkrunarfræðinum spurðu mig hvernig mér liði, allir voru eingöngu að spá í tölurnar sem þau fengu úr blóðprufum, vonast til að sýkingargildi lækki svo hægt væri að útskrifa mig
- Hversu skítugt einangrunarherbergið var. Bæði gólf og rúlluborð var með nýlegum slettum, blóðslettur voru á vegg nálægt rusli og nokkuð mikið af plastdrasli var á gólfinu
- Að herbergið var aldrei þrifið á meðan ég var þar þessa þrjá daga, en skipt var um rusl daglega
- Að mér var aldrei boðin hrein föt né hrein rúmföt á þessum þremur dögum, hvað þá að mér væri boðið að fara í sturtu
- Að það voru engar þurrkur við vaskinn í herberginu og það var ekki bætt úr því fyrr en að búið var að nefna það þrisvar
- Hversu mörg rúm voru upp við veggi á göngum bráðadeildarinnar sem í mínum huga hlýtur að vera risastórt öryggisvandamál t.d. ef eldur kemur upp á spítalanum
- Að þegar manneskja er með matareitrun sem hugsanlega er smitandi er hún sett í einangrun en þarf samt að fara úr herberginu til að fara á salerni, yfir ganginn og fram hjá tveimur rúmum þar sem yfirleitt láu sjúklingar
- Hvað maður finnur mikið fyrir fókus starfsmanna á að útskrifa mann eða flytja mann á aðra deild
- Að mér væri sagt að ástæðan fyrir því að fólk „gleymdist svolítið” í einangrunarherbergjunum væri sú að fólk þyrfti að „galla sig upp” áður en það kæmi inn og það væri ákveðinn þröskuldur
- Hversu inngreipt það er í hugum starfsmanna að það vanti svo sárlega fjármagn til spítalans að það verði allir að láta sig ástandið linda (starfsmenn og sjúklingar) þar til ríkisstjórnin taki við sér
Ok, nú veit ég að það vantar fjármagn til spítalans eins og fram hefur komið í víða undanfarin ár, en ég verð að segja að mér finnst við líka vera að nota peningana illa, því mér sýnist á öllu að hægt væri að spara þónokkuð með því að endurskoða og bæta ferla og vinnulag.
En nú er ég manneskja sem er alin upp við að vera ekki alltaf að kvarta heldur reyna frekar að finna lausnir. Hér kemur tilraun til að koma með hugmynd að mögulegri lausn.
Nauðsynlegt er að nýta upplýsingatæknina til að styðja við þá ferla- og vinnulagsbreytingu sem þarf að eiga sér stað á landspítalanum og rétt væri að allir ferlar væru skoðaðir með því markmiði að bæta þjónustu og stytta afgreiðslutíma.
Merkilegt fannst mér að öll samskipti á spítalanum eru „maður á mann” samtöl — engin upplýsingagjöf er í gegnum símaskilaboð/app/vef. Getið þið ímyndað ykkur hvaða tími myndi sparast ef maður fengi einhverjar upplýsingar í gegnum slíkar leiðir? Mig langar að styðja þessa pælingu með dæmum.
En horfum aðeins á hvað gæti verið í svona appi því þetta litla dæmi segir ekki alla söguna. Þær spurningar sem fóru í gegnum minn koll á meðan ég lá og hafði allan heimsins tíma til að hugsa á spítalanum voru þessar:
- Get ég fengið að vita hvað kom út úr blóðprufunni minni? (upplýsingar sýndar í appi í stað þess að starfsmenn spítalans fari 2–3 ferðir fram og til baka til sjúklings)
- Get ég fengið að vita þróun þessarra blóðgilda á meðan ég ligg inni? (upplýsingar sýndar í appi í stað þess að starfsmenn spítalans fari 2–3 ferðir fram og til baka til sjúklings)
- Hvað er nafnið á lækninum/hjúkrunarfræðingnum/sjúkraliðanum sem er núna að sjá um mig? (upplýsingar gefnar í appi í stað tússtöflu við rúm sjúklings)
- Get ég fengið að tala við hana/hann? (fyrirspurn send frá appi)
- Get ég séð þróun blóðþrýstings/líkamshita/súrefnismettunar á meðan dvöl stendur? (upplýsingar birtar í appi í stað göngutúra starfsfólks)
- Get ég fengið sokka? (fyrirspurn send frá appi)
- Get ég fengið hrein föt? (fyrirspurn send frá appi)
- Er hægt að skipta um á rúminu mínu? (fyrirspurn send frá appi)
- Get ég fengið vatn að drekka?
- Get ég fengið tannbursta?
- Get ég fengið verkjalyf?
- Get ég fengið aðstoð við að fara í sturtu eða á salerni?
- Það vantar þurrkur/sápu/sótthreinsandi gel á herberginu mínu
- Má ég fara heim?
… og svona mætti sennilega lengi telja en þið skiljið vonandi hvað ég er að fara.
Hægt er að spara fullt af göngutúrum og álagi á starfsmenn spítalans einungis með því að hætta að nota bjöllu fyrir sjúklinga og gefa þeim auknar upplýsingar og tækifæri til fyrirspurna á spjaldtölvu eða síma. Þá gæfist starfsfólki kannski líka tími til að staldra við, vera mannlegri og spyrja fólk um almenna líðan o.fl. í stað þess að vera á þessum þönum.
Vissulega þarf að setja fjármagn í að þróa svona þjónustuvef eða -app og vanda til verka, en rétt eins og í mörgu öðru þá þarf oft fjárfestingu til að sjá fram á sparnað seinna meir. Í mínum huga er þetta ákvörðun yfirstjórnar spítalans að verja peningum í ferla (með stuðningi hugbúnaðar) til að auðvelda líf sjúklinga og starfsmanna, flóknara er það ekki.
Á næstu árum erum við að fara að sjá miklar tæknibreytingar og heilbrigðisgeirinn mun ekkert vera undanskilinn frekar en aðrar greinar. Ég sé fyrir mér að ekki eftir svo mörg ár getum ég sett inn púls, blóðþrýsting, hita og fleiri raungögn úr úrinu mínu inn í svona þjónustuvef eða app sem læknarnir hafa aðgang að og gætu jafnvel nýtt til að skoða í samhengi við lyfjagjöf og niðurstöður blóðgilda svo dæmi sé tekið. Væri það ekki snilld? Kannski er þegar kominn vísir að þessu á vefnum Heilsuvera.is, það er spennandi að sjá hvernig það þróast.
Það má vera að fullt sé í gangi til að bæta ástandið, ég þekki það ekki nægilega vel, en mikið rosalega vona ég það. Ef ekki, langar mig að fólk sé duglegra að segja frá því sem það upplifir á spítalanum og ég hvet fólk til að hugsa í lausnum sem innifela ekki bara setninguna „Ríkisstjórnin þarf að setja meiri pening í spítalann”. Hægt væri að nota myllumerkið #lögumspítalann
Að lokum. Þessi grein er álit manneskju sem hefur endalausan áhuga á nýsköpun og tækni, og er stjórnandi sem er vanur að setja fókus á vinnulag og ferla. Manneskju sem á draum um að spítali landsmanna verði tæknivæddur — almennilega — helst í gær.
Það þarf að öllum líkindum mun meira að gera en búa til smá sjálfvirknivæðingu fyrir samskipti sjúklings og starfsmanna spítalans (gott væri ef við sæjum tækjakost spítalans batna líka og að hann sendi frá sér gögn til lækna og jafnvel sjúklinga). En þetta er að minnsta kosti innlegg inní umræðuna.