Hver ætlar að axla ábyrgðina á þeirri samfélagslegu tilraun sem hér hefur verið sett á svið; að búa til uppsveiflu í hagkerfinu án þess að tryggja vinnuaflinu viðunandi lífsgæði? Hver ætlar að axla pólitísku ábyrgðina á því að atvinnurekendum var talin trú um að hægt væri að neita að borga fólki laun með sanngirnina að leiðarljósi?
Hver ætlar að viðurkenna: Það er ekki hægt að hafa hér hóp kvenna á svo lágum launum að þau dugi ekki til að tryggja að endar nái saman frá einum mánaðmótum til þeirra næstu? Hver ætlar að viðurkenna að það er ógeðslegt að ætla fjölda kvenna að vinna baki brotnu fyrir launum sem duga þó ekki til að tryggja efnahagslegt öryggi?
Ég býð spennt.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála fór með tölu í gær á Alþingi, einhverskonar varnarræðu fyrir nýfrjálshyggjuna. Í henni beindi hún sjónum sínum eitthvað út í heim og mátti skilja málflutninginn svoleiðis að hún teldi að ekki væri hægt að notast við hefðbundna mælikvarða þegar kæmi að tilveru og lífsskilyrðum láglaunafólks heldur þyrfti að notast við „meðaltöl sem enginn étur en ég kýs að kalla staðreyndir“, svokallaða „uppsafnaða raunávöxtun ráðstöfunartekna“. Ráðherra lýsti því svo yfir að „þróunin væri á vegferð einhvers réttlætis“ fyrir láglaunafólk.
Í veröld ráðherrans eru málin einföld: Láglaunafólk getur ekki reiknað með „öflugu réttlæti“, ekki hér og ekki þar, en láglaunafólk á mögulega möguleika á því að öðlast eitthvert réttlæti. Réttlæti er afstætt hugtak á Íslandi; sum njóta mikils réttlætis á meðan önnur njóta miðlungsréttlætis og svo enn önnur lítils réttlætis. Réttlæti er stéttskipt hugtak á Íslandi og það veit yngsta konan frá upphafi til að gegna ráðherraembætti á Íslandi vel. Það ber kannski að óska henni til hamingju með að vera ung búin að átta sig á eðli mála.
Ég vann í 10 ár á einum af leikskólum Reykjavíkurborgar, sem ófaglærð láglaunakona. Ég veit auðvitað alveg, líkt og ráðherrann, að réttlætinu er ekki úthlutað af sanngirni á Íslandi. Ég hef upplifað það í eigin lífi og ég hef séð það í efnahagslegum veruleika þeirra kvenna sem ég starfaði með, kvenna alstaðar að úr heiminum. Þannig að ég ætla bara að fagna því þegar hlutirnir eru orðaðir með eins skýrum hætti eins og þeir voru í gær hjá Þórdísi. Því að það er gott þegar fólk talar hreint út. Það er gott þegar stéttaandstæðurnar verða öllum augljósar, það er gott þegar línur skýrast. Það er gott þegar við losnum úr fjötrum orðræðunnar um að öll hafi það æðislega gott og þau sem ekki samþykki það séu vanstilltir skemmdarvargar. Það er gott þegar valdastéttin fer að tala skýrt og fer að segja satt: Láglaunafólk á Íslandi nýtur ekki sambærilegs réttlætis á við þau sem eru hærra í stigveldinu.
Sannleikurinn er jú sagna bestur.
Því allt sem á okkur hefur dunið undanfarið, allur áróðurinn um að katastrófa sé á næsta leiti fái fólk mannsæmandi laun fyrir unna vinnu, öll móðursýkin, allt uppnámið, öll harmkvælin; þetta snérist aldrei um „stöðugleika“. Raunverulegur stöðugleiki byggir á réttlæti, óréttlátt samfélag getur aldrei orðið samfélag stöðugleika. Stöðugleiki er bara orð sem fólk hefur fengið að fela sig bak við, orð sem fólk hefur notað til að breiða yfir kaldlyndi sitt í garð vinnuaflsins. Stöðugleikinn á Íslandi er, eins og ég hef margoft bent á, stöðugleiki hinna vel settu á kostnað þeirra illa stæðu. Stöðugleikinn er óréttlátur. Hann er gjafmildur og í stuði gagnvart sumum sem fá að borga sjálfum sér milljónir, jafnvel milljarða, nískur og grimmur gagnvart öðrum sem þurfa að vinna og vinna fyrir næstum ekki neitt. Íslenski stöðugleikinn er óttalegur drullusokkur. Stéttskiptingin og misskiptingin er í kjarnsýrunum hans, hann á öflugt og mikið réttlæti handa sumum, veikburða og takmarkað réttlæti handa öðrum. Og láglaunakonur á íslenskum vinnumarkaði þekkja herra Stöðugleika af vondu einu.
Þetta snérist og snýst um óréttlæti og réttlæti. Um efnahagslegt réttlæti. Um réttlæti í vellauðugu samfélagi, um það hvort íslenskt samfélag ætlar að halda áfram að leyfa pólitískri og efnahagslegri yfirstétt að ráða bókstaflega öllu, líka því hvernig réttlætinu er úthlutað. Um það hvort hægt sé að ætlast til þess að láglaunakonan fái ekkert efnahagslegt réttlæti. Um það hvort við teljum gott og eðlilegt að milljarðamæringar fái að skilgreina innihald og eðli þeirra réttlætishugmynda sem eru við lýði á Íslandi. Um það hversu langt gengið hefur verið í því að beygja öll félagsleg viðmið undir ægivald auðstéttarinnar. Og um það hvort ekki sé afskaplega tímabært að hefja gagnsókn.
Að lokum:
Undanfarnir dagar hafa verið merkilegir og skemmtilegir og magnaðir. Við höfum farið um allan bæ á Eflingar-bílnum. Við höfum boðið félagsmönnum að greiða atkvæði um það hvort farið verði í verkfall, kvennaverkfall, láglaunakvennaverkfall, þann 8. mars. Við höfum hitt mikinn fjölda láglaunakvenna sem koma til að kjósa í bílnum, þrátt fyrir rigningu, þrátt fyrir að þær séu að nota kaffitímann sinn, þrátt fyrir að vaktinni sé lokið. Við höfum hitt Freka kallinn og rifist við hann. Við höfum hlustað á alla fréttatíma og sagt Vúhú! í hvert skipti sem sagt er frá ferðum bílsins og Vúhú! í hvert skipti sem við stoppum á nýjum áfangastað. Vúhu!
Og vitiði hvað? Hvernig sem fer erum við búin að senda skilaboð: Við ætlum að berjast fyrir því að fá meira en „eitthvert réttlæti“. Við ætlum ekki að sætta okkur við að kaldlynt fólk geti eins og ekkert sé dæmt okkur til að lifa við skert kjör. Við ætlum ekki að sætta okkur við að fólk horfi á okkur í smástund, líti svo undan og segi: Æ, láglaunafólk hefur það bara allstaðar svo slæmt. Við ætlum að berjast sameinuð, við rísum upp af því að við höfum engu að tapa og í það minnsta, í það minnsta eitthvað réttlæti að vinna. Og er þá ekki öllum augljóst að til einhvers er barist?
Og alveg að lokum: Gangi talsmönnum óréttlætis, misskiptingar og hins falska stöðugleika bara vel að stoppa okkur. Gangi þeim vel að reyna að fá okkur til borða „uppsafnaða raunávöxtun ráðstöfunartekna“. Undrun þeirra á því að við séum ekki til í að halda áfram að þegja og vinna, undirbúningsleysi þeirra gangvart upprisunni okkar bókstaflega sannar að þau hugsuðu aldrei um okkur, vissu ekkert um okkur, höfðu engan áhuga á okkur. Láglaunakonur á íslenskum vinnumarkaði voru nákvæmlega jafn jaðarsettar og ósýnilegar og ég sagði að við værum. En við erum það ekki lengur. Og engar ósýnilegar hendur óréttlætis og arðráns geta unnið slaginn við allar sýnilegu hendurnar okkar.