Samtök sjálfstæðra skóla standa í dag fyrir árlegri ráðstefnu sinni, undir yfirskriftinni Líður öllum vel? Viðfangsefnið er veruleiki barna af erlendum uppruna, jafnréttismál í víðum skilningi og starfsumhverfi sjálfstæðra skóla.
Fjölbreytileiki íslensks samfélags fer ört vaxandi og tekur sífellt á sig nýjar myndir. Við hjá sjálfstæðum skólum viljum leggja okkar af mörkum til að fá skólasamfélagið til að rýna í stöðuna, fjalla um þennan ört vaxandi fjölbreytileika og mikilvægi viðurkenningarinnar. Viðurkenninguna sem skiptir okkur öll miklu máli sama hvaðan við komum, hverjum við tilheyrum eða hvernig við skilgreinum okkur. Hún er alltaf mikilvæg og kannski alls mest innan skólasamfélagsins, þar sem hver einstaklingur þarf að upplifa hana á eigin skinni.
Innra starf sjálfstæðra skóla einkennist af fjölbreytileika og tilvist þeirra byggist líka á hinum fjölbreytilegustu ástæðum. Þeir hafa orðið til af brennandi hugsjón einstaklinga sem vilja útfæra skólastarf með ólíkum hætti, hafa framsækna sýn á hvað sé gott fyrir börn og hvað raunverulega virki, en langar jafnframt að hafa stjórnina í sínum höndum og ráðrúm til að fara aðrar leiðir en hið hefðbundna kerfi leggur alla jafna til.
Þar liggja styrkleikar sjálfstæðra skóla. Að vera neistar í menntakerfinu, hvatar til breytinga. En jafnframt að bjóða upp á val. Þeir leggja sjálfa sig í dóm almennings, foreldranna sem taka meðvitaða ákvörðun um að velja einmitt þennan skóla fyrir sitt barn, jafnvel þótt aðrir séu nær. Þetta gefur í sjálfu sér styrk og mikilvægan drifkraft inn í skólastarfið. Allir fyllast ákveðnu stolti við að vera valinn og um leið fyllast kennarar auknum metnaði til þess að gera enn betur og standast áþreifanlegar væntingarnar.
En valið snýst líka um starfsumhverfi kennara. Innan flestra fagstétta geta einstaklingar valið sér starfsumhverfi. Það sem skiptir einn miklu máli er engin breyta hjá næsta manni og öfugt. Kennarar sem kjósa að starfa við fag sitt hafa hins vegar fáa kosti, þar sem skólar eru bundir í sama rekstrarform og kjörin alls staðar þau sömu. Alla jafna stendur valið eingöngu um hvaða hverfisskóla viðkomandi kýs að starfa við, en starfið er bundið sömu hnútum hvort sem kennt er í miðbænum eða Breiðholtinu.
Sjálfstæðir skólar gefa aukið rekstrarlegt frelsi til ákvarðana. Faglegt frelsi er svo enn einn kosturinn og hann ekki lítill. Miðstýringin er engin og allar ákvarðanir teknar innan hvers skóla fyrir sig. Kennarar við slíka skóla hafa því mikla möguleika til beinna áhrifa. Sjálfstæðir skólar lúta eftir sem áður sömu lögum og reglum og aðrir grunnskólar og eru undir eftirliti sveitarfélaga hvað varðar lögbundna starfsemi.
Stöndum vörð um tilvist sjálfstætt starfandi skóla, fögnum þeim og tökum þá með í heildarmyndina. Fjölbreytileikinn í allri sinni mynd skiptir okkur öll máli.
Höfundur er formaður Samtaka sjálfstæðra skóla.