Nýverið kom fram að milljarðamæringurinn Kristján Loftsson „kvabbaði“ í nafna sinn Kristján Þór Júlíusson, en sá er ráðherra hvers valdsvið felst í að meta ágæti hvalveiða.
Erindi milljarðamæringsins fólst í að biðja ráðherrann náðarsamlegast að horfa fram hjá reglugerðum um hollustuhætti við vinnslu matar sem er ætlaður mönnum.
Kristján Loftsson er gaurinn sem hefur sérstaka unun af því að skjóta sprengiskutlum í stórhveli og hann hefur meira að segja komið fram með nýstárlegar hugmyndir um að það megi bræða hvalina niður í fæðubótarefni. Til útflutnings.
Kannski þykir honum þetta vera mikilsvert viðskiptatækifæri í ljósi þess hversu fæðubótarmarkaðurinn veltir gríðarlega mörgum milljörðum. Það ætti jú öllum að vera ljóst að mögulega eru ótal tækifæri vegna þess hversu margir menn um heim allan sælast í að gæða sér á niðurbræddum stórhvelum sem fæðubótarefni. Hver veit?
Ráðherrann Kristján bað „kvabbandi“ Kristján að hitta sig í svona cirkabát hálftíma svo hann gæti áttað sig betur á erindinu.
Undanþágubeiðnin fólst í því að milljarðamæringurinn Kristján Loftsson væri undanþeginn því að verka „afræningjana“ (...það eru stórhvelin samkvæmt skilgreiningu líffræðinga) undir beru lofti. Þar sem mávar sveima yfir í von um góðgæti og skíta endrum og sinnum. Eins og þeirra er von og vísa.
Vitanlega varð ráðherrann við þessari bón. Þó það nú væri. Gott ef hann bar því ekki við að það væri alltaf ástæða til að liðka fyrir góðum viðskiptatækifærum.
Nú gæti einhverjum misvitrum mönnum dottið það í hug að slíkt háttalag jaðri við spillingu. Það er rangt. Ráðherrann Kristján er fullkomlega fær um að meta hvenær skuli hafa hollustuhætti kvabbarans Kristjáns í heiðri.
Sérstaklega þegar helstu styrktaraðilar flokksins hans eiga í hlut.