Einhverjum bregður kannski þau tíðindi að til séu um fimmtán þúsund afbrigði af tómötum, en líklega er sú staðreynd augljósari eftir að afbrigðum tómata í matvörubúðum á Íslandi fjölgaði með tilkomu bufftómata og kirsuberjatómata.
Að sama skapi dytti engum í hug í dag að leggja allar bíltegundir að jöfnu; í það minnsta gerir fólk greinarmun á jeppum og fólksbílum, en svo þekkir fólk vörumerkin í sundur. Einhverjir ganga svo langt að leggja djúpan skilning í mismunandi árgerðir.
Eftir því sem við þekkjum betur til mismunandi fyrirbæra öðlumst við meiri virðingu fyrir fjölbreytileikanum og smáatriðin skipta okkur meira máli. En ákveðin ómeðvituð eða jafnvel meðvituð smættun á sér stað hjá þeim sem vita ekki af fjölbreytileikanum eða hafa ekki áhuga á því að vita á hvaða hátt tveir hlutir geta verið ólíkir þótt þeir séu af sama meiði.
Ég vissi til dæmis ekki fyrr en nýlega að túnfiskur væri samheiti, eins og bolfiskur eða uppsjávarfiskur. Ég smættaði því allan túnfisk með þekkingarleysi mínu. En vanþekking á túnfiski er kannski ekki alvarlegt vandamál. Alvarlegra mál er smættun á húsnæðislánum eða hagfræðikenningum. Sérstaklega þegar þekkingarleysi eða vondar samlíkingar leiða fólk til þess að draga rangar ályktanir á þann hátt að þær valda skaða.
Þú færð líklega það sem þú heldur að þú sért að biðja um
Flest fólk sem gengur inn í banka og biður um húsnæðislán fær verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára matreitt ofan í sig, með vöxtum eftir vaxtatöflu og öll skilyrðin forbökuð. Sífellt fleiri eru að verða meðvitaðir um helstu valkostina ─ að fara blandaða leið eða að taka alveg óverðtryggt lán; að vera með jafnar afborganir í stað jafnra greiðsla og að lánstíminn sé styttri. Reiknivélar á netinu með þægilegum valmyndum hafa hjálpað þessum smáatriðum lánsfyrirkomulags að mjakast inn í undirmeðvitundina.
En bankar munu selja fólki það sem fólk heldur að það sé að biðja um ─ þ.e., eitthvað sem uppfyllir hugmyndir fólks um hvað "húsnæðislán" sé ─ þangað til að því dettur í hug að inna bankann sinn eftir þeim valkostum sem bjóðast. Og auðvitað er það betra en að taka því sem bankinn velur sjálfvirkt (sem eðlilegt er að áætla að sé sú tegund lána sem þeir græða mest á því að veita). Á sama hátt og sumum þykir bufftómatar betri en venjulegir tómatar.
Öll líkön eru röng
Ein uppáhalds spakmæli mín koma frá George Box, sem sagði að öll líkön væru röng, en sum líkön séu gagnleg. Ef þú teiknar mynd af húsi er myndin í vissum skilningi líkan af húsinu; en það er augljóslega ekki nákvæmt líkan. Það getur samt verið gagnlegt til að útskýra hvernig það á að vera málað.
En það gefur auga leið að flest líkön eru ógagnleg. Mynd af húsi séð frá hlið er til dæmis ógagnlegt ef þú ert að sýna einhverjum hvar skólprörið er að finna í kjallaranum.
Ein afleiðing smættunar er að ýmsar oft ómeðvitaðar ákvarðanir eru teknar um á hvaða hátt líkön verða ónákvæm. Séu ákvarðanirnar ómeðvitaðar getur ónákvæmnin leitt til þess að fólk telji líkan gagnlegt þegar það er raunverulega að afvegaleiða hugsun og valda kolrangri niðurstöðu.
Heimilisbókhaldið
Ég heyri allt of reglulega fólk úr æðstu embættum Íslenska ríkisins líkja ríkisrekstri við heimilisbókhald. Það er auðvitað eitt það fyrsta sem fólk lærir í hagfræði, að rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði séu ólík, en einhverra hluta vegna þrálátast fólk við að nota þessa samlíkingu. Heimilisbókhaldið verður þannig líkan sem fólk notar til að hugsa um eignir og skuldir ríkisins, en þetta er stórhættulegt.
Einn mikilvægasti munurinn á heimilisbókhaldi og ríkisrekstri er að ríki geta ákveðið að peningar séu til. Þeir gera það auðvitað með einhverjum tilteknum hætti, til dæmis með lögum sem heimila bönkum að búa þá til í formi skuldabréfa, en ef ég myndi ákveða upp úr þurru að ég ætti fullt af peningum þá ætti ég sennilega erfitt með að finna einhvern sem myndi taka mark á þeim fullyrðingum.
Heimilisbókhald gerir hvorki ráð fyrir tilvist Seðlabanka né því sem næst ótakmarkaðs lánstrausts. Þegar heimili eru búin með peningana sína hefur fólk tvo valkosti: að hætta að kaupa hluti eða að taka lán af einhverju tagi. Ríki hafa ýmsa valkosti í viðbót, svo sem útgáfu ríkisskuldabréfa, gengisfellingar, breytingar á stýrivöxtum, og þar fram eftir götunum.
Langflest verkfærin sem ríki hafa eru ansi flókin og fræðileg. Það er því alveg skiljanlegt að fólki langi til að grípa í letilegt heimilisbókhaldslíkan til að sannreyna hugsun sína eða útskýra hana fyrir öðrum, en með því er ekki bara verið að afvegaleiða alla hugsun, heldur beinlínis að rugla saman tveimur mjög ólíkum greinum hagfræðinnar.
Kálum vondum líkönum
Mér finnst stórmerkilegt að blómkál og kínakál sé sama tegundin. Mismunandi afbrigði, vissulega, en þau eru sama tegund: Brassica oleracea. Vitandi að þau eru sama tegundin er samt léleg afsökun fyrir því að kaupa blómkál ef beðið var um kínakál.
Þetta er samt það sem er stöðugt verið að gera í samfélaginu okkar. Vond líkön, lélegar samlíkingar, smættunarárátta og hunsun mikilvægra staðreynda er útbreitt vandamál sem er nauðsynlegt að uppræta.
Auðvitað á fólk áfram að nota myndlíkingar. Það er ekkert að því að nota grænmeti og ávexti sem táknmynd fjölbreytileika, sem dæmi. En vörumst einfaldanir sem kunna að vera að valda okkur tjóni, hvort sem það er í heimilisbókhaldinu, í ríkisrekstri, eða annarsstaðar í lífinu.