Þegar talað er um eðlishyggju er verið að vísa til þeirrar hugmyndar að fyrirbæri eru eins og þau eru vegna þess að þannig eru þau í eðli sínu og geta því ekki verið eða hagað sér öðruvísi. Eðlislægir eiginleikar eru því bæði nauðsynlegir og algildir; þeir eiga við um öll slík fyrirbæri í öllum mögulegum tilfellum.
Slíkt sjónarhorn er gagnlegt þegar verið er að rannsaka og útskýra náttúrulögmál eða atferli plantna og dýra. Ástæðan fyrir því að dýr athæfast með þeim hætti sem þau gera er vegna þess að það er í þeirra eðli. Það er ekki eins og hver einasta könguló fái „þá flugu í höfuðið“ að búa til vef með þeirri margslungnu aðferð sem henni einni er lagið eða að hún þurfi að læra hæfnina af foreldrum sínum. Köngulær einfaldlega fylgja eðlishvötinni. Sama á við um túnfífla, bakteríur, froska og nashyrninga.
En hvað með okkur mannfólkið? Hvert er okkar eðli? Er eitthvað sem einkennir okkur öll, eitthvað sam-mannlegt eðli sem skilgreinir og skýrir hvers vegna við erum eins og við erum og gerum það sem við gerum? Er t.d. manneskjan réttlát, umhyggjusöm og góð í eðli sínu eða er hún grimm, eigingjörn og óvægin af náttúrunnar hendi?
Líklega er þessi spurning of einföld til að skýra mannlegt eðli til fulls. Líkt og mörg önnur dýr getum við bæði sýnt öðrum ást og umhyggju en einnig harðneskju og miskunnarleysi: Ástrík móðir getur t.d. breyst í brjálaðan morðingja sé afkvæmum hennar ógnað. Það er þó áhugavert að velta því fyrir sér hvort við séum að eðlisfari (A) friðsamlegar verur sem þurfa stundum að beita ofbeldi eða (B) ofbeldisfullar og árásagjarnar verur sem hafa þróað með sér það skynsama viðhorf að það sé hagstæðara að tileinka sér friðsamleg samskipti við aðra.
En hvað með alla grimmdina, græðgina og geðveikina sem við sjáum gegnumgangandi í sögu mannsins. Eru stríð t.d. hluti af mannlegu eðli? Hvað með þjóðarmorð, hópnauðganir, sifjaspell og mannát? Eru þeir sem stunda þrælahald og mansal eingöngu að fylgja eðlishvötinni?
Margir fullyrða að árásargirni, græðgi og valdafíkn séu einfaldlega þættir í náttúruvali mannsins þar sem hinir hæfustu gera það sem þeir þurfa til að lifa af. Þetta segja menn. Samkeppni er okkur í blóð borin og „sigurvegararnir“ eru þeir sterku sem eiga að leiða vagn samfélagsins (tegundarinnar) í átt að framþróun og aukinni velferð. Þá er nauðsynlegt að spyrja hvort slíkur eðlisþáttur eigi við um allar manneskjur á öllum tímum eða tilheyrir hann eingöngu fáum siðlausum, gráðugum og mikilmennskubrjáluðum einstaklingum?
Þegar maður skoðar þróunarsögu mannsins er ein staðreynd sem er eftirtektarverð: Við fæðum afkvæmi okkar ófullburða; þ.e. þau eru algerlega ósjálfbjarga og háð stöðugri umönnun svo árum skiptir. (Sérstaklega þegar húsnæðismarkaðurinn er svona erfiður). Þetta er einstakt í náttúrunni.i Helsta ástæðan fyrir þessari ótímabæru fæðingu er hlutfallslega stór heili mannskepnunnar. Ætti fóstrið að ná fullum þroska í meðgöngunni yrði höfuð þess svo stórt að móðirin myndi ekki lifa fæðinguna af og tegundin deyja út. En líkt og allar aðrar lífverur leitast mannveran við að tryggja áframhaldandi tilvist/tilveru tegundar sinnar. Þessi langi umönnunartími afkvæma er bæði orku- og tímafrekur og hvílir álagið einkum á móðurinni (foreldrum). Á forsögulegum tíma er ólíklegt að móðir og barn gætu almennt lifað af nema með aðstoð fjölskyldu og nærsamfélagi. Þannig lærði mannveran, í gegnum áraþúsundir, að deila ábyrgðinni á uppeldi barnanna og hjálpast að; þannig eru lífslíkur tegundarinnar meiri. Af þessari röksemdarfærslu má leiða þá ályktun að samvinna sé mun sterkari eðlisþáttur í náttúruvali mannsins en samkeppni.
En samvinna er ekki bara forsenda þess að við lifum af sem dýrategund heldur felur hún í sér þann þátt sem er nauðsynlegur fyrir þróun vitsmunalegrar hugsunar; hún felur í sér samskipti. Tungumálið, sem er hin hlutlæga birtingamynd hugsunarinnar, er líklega það fyrirbæri sem hvað mest hefur haft áhrif á hraða þróun mannsins. Samskipti gera okkur kleift skilja og skynja hvað aðrir hugsa sem óhjákvæmilega þróar með okkur samkennd og siðferði. Samskipti ýtir undir samvinnu og skynsemi með því að deila kunnáttu og þekkingu. Samskipti eykur traust og styrkir frændsemi sem má segja að sé grunnstoð góðs samfélags. Tungumál sem samskiptamáti er forsenda allrar þróunar; menntunar, menningar, rökvísi, framsýni, ímyndunar, trú, forvitni og framfara.
Ein merkasta uppgötvun siðmenningarinnar er án efa velferðarríkið en það er augljós afrakstur þróunar sem snýr að samvinnu og samskiptum. Í velferðarríkinu eru það hinir (fjár)sterku sem axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum til að bæta hag þeirra sem höllum fæti standa. Þessu fylgir vissulega meiri fjárhagsleg byrgði í formi skatta en slík samvinna tryggir almenna lágmarksvelferð og lífsafkomu samfélagsins alls. (Það er síðan önnur pæling hvort velferðarkerfið sé skynsamlega útfært og/eða hvort það ýti undir aumingjavæðingu).
En ef samvinna og samskipti eru svona ríkjandi þættir í þróunarsögu okkar – jafnvel hægt að segja að þeir séu okkur eðlislægir – hvaðan kemur þá þessi gífurlega áhersla á einstaklingshyggju og samkeppni í vestrænum nútímasamfélögum?
Það er alveg rétt að frjálshyggja upplýsingarinnar ýtti undir hraða framþróun sem grundvallaðist á frelsi einstaklingsins undan oki valdastétta og trúarkreddum. Hún byggir á skynsemi, vísindum og raunhyggju og hefur aukið lífsgæði okkar til muna: Við búum almennt við meira frelsi, aukin mannréttindi, samfélagslegar stoðir á borð við vinnuréttindi, menntun, húsnæðismál, matvælaöryggi og betri heilsugæslu. En getum við eignað kapítalisma – hinni efnahagslegu hlið frjálshyggjunnar – heiðurinn af öllum þessum jákvæðu framförum eins og flestir frjálshyggjumenn (kapítalistar) vilja gera? Jú, jú, við getum ferðast til sólarlanda, keypt okkur epli þegar okkur langar, eða bíl, eða gallabuxur, við getum farið í bíó, étið ódýran skyndibitamat og tekið mynd af okkur á símann og deilt með vinum og allt þökk sé kapítalismanum. Til eru hugsuðir sem myndu ekki endilega tilgreina slíkt sem velferð og benda á að framþróun sé ekki nauðsynlega það sama og framför.
Í dag einkennist tilvera okkar af gengdarlausri tæknivæðingu og nýfrjálshyggju-kapítalisma; einstaklingsmiðaðri fyrirtækjavæðingu sem grundvallast á nýklassískum hagfræðilíkönum þar sem þjóðarframleiðsla og hagvöxtur eru mælikvarðar á farsæld. En sú farsæld er bæði dýru verði keypt og nær alls ekki til allra. Fjöldaframleiðsla og ofurneysla, sem oft eru réttlætt með „náttúrulögmálinu“ um framboð og eftirspurn, leiðir af sér risafyrirtæki (einokun), aukin efnislegan ójöfnuð, skammtímahugsun, markaðshyggju, félagslega fátækt og einangrun svo ekki sé minnst á þann umhverfisskaða sem kapítalismi er ábyrgur fyrir; ofnýtingu náttúruauðlinda og loftlagsbreytingar.
En við teljum okkur samt trú um að allt sé á réttri leið; þetta er jákvæð þróun sem leiðir til „betra“ lífs. Þessir lífshættir nútímans þykja okkur eðlilegir vegna þess að kapítalisminn er búin að sannfæra okkur um að þeir séu það. Lífið er dásamlegt svona. Það eru e.t.v. ekki allir sem átta sig á því en kapítalismi byggir á eðlishyggju; á fyrir fram gefnum hugmyndum um mannlegt eðli. Samkvæmt kenningum kapítalismans er maðurinn í eðli sínu eigingjarn og gráðugur; hann framkvæmir eingöngu með eiginhagsmuni að leiðarljósi og reynir alltaf að hámarka hag sinn. Samkeppni er náttúrulegt ástand manneskjunnar (ekki samvinna) og nauðsynleg fyrir framþróun og aukna velferð.
En þetta er bara kenning, því má ekki gleyma. Það er alveg rétt að maðurinn tilheyrir náttúrunni og þar er samkeppni stór þáttur í náttúruvali og aðlögunarhæfni lífvera; þar sem hinir hæfustu gera allt sem þarf til að lifa og komast af. Hæfni lífveranna til þess að aðlagast (og sigra) eru samt ólíkar og mismunandi. Hæfni hins viti borna manns var ekki líkamlegur styrkur, hraði, kalt blóð eða beittar tennur heldur samvinna og samskipti; hugvit, útsjónarsemi og skynsemi.
Auðvitað er samkeppni einnig hluti af mannlegu eðli (sjáið bara vinsældir íþrótta) enda höfum við í gegnum þróunarsöguna þurft að hafa fyrir hlutunum; keppa við önnur dýr um fæðu og landsvæði og aðlagast aðstæðum. En við sigruðum; urðum kóngar jarðarinnar. Við sýndum fram á bestu aðlögunar- hæfnina (uppgötvun og beislun eldsins hafði sín áhrif) og þurfum því ekki lengur að keppa við aðrar lífverur um vald eða stöðu í náttúrunni. Nú beinist samkeppnin fyrst og fremst að okkur sjálfum.
Á þeim nótum er eitt sem áhugavert er að skoða. Samkeppni sem náttúrulögmál grundvallast á þeirri forsendu að það sé skortur á lífsnauðsynjum í vistkerfinu; fæðu, vatni, búsvæði og/eða mökum. Ef ofgnótt er að slíkum gæðum er engin þörf fyrir átök. Hvað varðar stöðu okkar á jörðinni þá er raunverulega engin skortur á lífsnauðsynjum – mjög, mjög ójöfn skipting já, en ekki skortur.
Ef við ætlum að samþykkja að samkeppni sé manninum eðlislæg þá verður hún að eiga við um alla menn á öllum tímum og þannig einskorðast hún eingöngu við hæfni hans til að lifa af en ekki til að lifa vel. Sú þægindamiðaða samkeppni sem við þekkjum í nútímanum; þar sem gott líf þarf alltaf að vera betra, er því betur flokkuð/skilgreind sem lærð hegðun fremur en mannlegt eðli. Þetta er reyndar orðið frekar flókið.
En er skynsamlegt að byggja nánast alla tilveru mannsins á þessari einhæfu og ófullkomnu hugmynd kapítalismans um manneðlið? Kannski ekki, en við gerum það samt. Kapítalisminn hefur gjör sigrað. Ástæðan þarf ekki að vera sú að maðurinn sé í eðli sínu gráðugur og valdasjúkur heldur miklu fremur er hann er trúgjarn og fylginn; hann er hjarðdýr sem auðvelt er að stjórna og stýra. Þetta vita kapítalistarnir. Heimspekingurinn Slavoj Žižek sagði að það væri einfaldara að hugsa sér endalok heimsins heldur en endalok kapítalismans. Líklega er eitthvað til í því. Kapítalisminn hefur leitt af sér framþróun með óendanlega möguleika. Hann hefur stóraukið lífsgæði einstaklinga í nútímanum en hvort hann stuðli að velferð komandi kynslóða og tegundarinnar almennt verður tíminn að leiða í ljós. Ég er ekki sannfærður.
i) Vissulega eru afkvæmi annarra spendýra einnig háð uppfóstrun við fæðingu en hreyfigeta þeirra er oftast mun sjálfbærari (simpansar, hestar og hvalir) og/eða umönnunartími styttri (úlfar, kindur, mýs). Yfirleitt er umönnunartími lengri hjá dýrum sem lifa í hjörðum.