Dánaraðstoð er þýðing á gríska orðinu euthanasia (góður dauði/að deyja með reisn) sem merkir að binda enda á líf af ásetningi til þess að leysa viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningum. Oft á tíðum hefur verið notast við orðið líknardráp eða sjálfsvíg með aðstoð.
Þingsályktun um dánaraðstoð?
Í síðustu viku mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um dánaraðstoð sem ég legg fram ásamt fleiri þingmönnum úr mörgum flokkum. Í þingsályktuninni fellst ekki að lögleiða skuli dánaraðstoð heldur er henni ætlað að kalla fram upplýsingar um stöðu mála og þróun lagaramma um þetta mál, í þeim löndum sem dánaraðstoð er lögleg. Auk þess að fá upplýsingar um hvernig umræðan hefur þróast í nágrannalöndum okkar þar sem dánaraðstoð er ekki leyfð. Að lokum felur þingsályktunin það í sér að kannaður verði hugur heilbrigðisstarfsmanna til dánaraðstoðar. Nánar um þingsályktunina má sjá hér.
Tilgangur þingsályktunarinnar er að hér geti farið fram upplýst og yfirveguð umræða sem byggir á staðreyndum og reynslu annara landa. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við leggjum þessa þingsályktun fram og á síðasta þingi bárust margar umsagnir um þingsályktunina, þær voru bæði jákvæðar og neikvæðar. Sumum finnst málið brýnt og vilja sjá breytingu á löggjöf, aðrir telja rétt að málið verði skoðað og yfirveguð umræða tekin í kjölfarið. Svo eru nokkrir sem telja ekki tímabært og í raun aldrei leyfilegt að vekja máls á dánaraðstoð.
Á umræða um dánaraðstoð erindi
Umræða um dánaraðstoð eða líknardauða kemur reglulega upp. Ég tel umræðuna eiga mikið erindi en á sama tíma legg ég áherslu á að um flóknar siðferðilegar spurningar er að ræða. Ekki eru allir sammála um hvort rétt sé að veita slíka aðstoð og margir hræðast hvað slíkt leyfi gætti leitt af sér. Mun fólk kjósa dánaraðstoð af ótta við að vera byrgði á ættingjum og samfélaginu? Hverjir ættu að taka slíka ákvörðun og undir hvaða kringumstæðum gæti slíkt verið réttlætanlegt, eða er það yfirhöfuð einhvern tímann réttlætanlegt að velja dauðan fram yfir lífið? Spurningarnar eru margar og flóknar.
Hollendingar eru ákveðnir frumkvöðlar í þessum efnum og lögleiddu dánaraðstoð í kringum aldamótin og hafa bæði Svisslendingar og Belgar fylgt þeim. Sum fylki í Bandaríkjunum og Kanada leyfa dánaraðstoð eða sjálfsvíg með aðstoð. Leiðirnar sem lönd hafa farið í þessum efnum eru misjafnar og því rétt að skoða það sérstaklega þegar þessi umræða er tekin.
Afstaða almennings og afstaða fagfólks
Árið 2015 gerði Siðmennt skoðanakönnun á lífsskoðun og trú Íslendinga og þar var meðal annars spurt: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?“ 74,9% aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því, 18% voru hvorki né en 7,1% mjög eða frekar andvíg. Flestum kom á óvart þessi mikli stuðningur almennings við dánaraðstoð.
Minni kannanir hafa verið gerðar meðal heilbrigðisstarfsmanna og árið 1997 birtist grein í Læknablaðinu þar sem fram kom að aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga töldu líknardráp réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk.
Árið 2010 var gerð önnur könnun og þá var niðurstaðan sú að líknardráp þótti réttlætanlegt hjá 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk.
Ljóst er af þessu að mikil breyting á afstöðu átti sér stað milli áranna 1997-2010 og áhugavert að sjá hver staðan er árið 2019. Munurinn á afstöðu almennings og heilbrigðisstarfsfólks er mikill og mun fleiri heilbrigðisstarfsmenn aðhyllast dánaraðstoð en væru tilbúnir að aðstoða við slíkt, allt er þetta skiljanlegt.