Stundum er samviskan eins óljós og skyggnið í heiðarþokunni, standi maður í henni miðri.
Siðferðilegt innsæi og réttlætiskennd virka svolítið eins og áttaviti sem leiðréttir segulskekkju skilningarvitanna ani maður óvart af leið.
Samviskan vinnur þannig eins og órofa vitund sannleika og siðferðis sem endalaust truflar, séum við að hugsa eða framkvæma á skjön við réttlætið eins og við þekkjum það. Samviskan, þessi ósnertanlega dulvitund veldur okkur geðshræringu er við göngum gegn henni og viti menn, engum hefur tekist að sanna eða afsanna tilvist þessa fyribæris sem er ámóta heillandi og að engum hefur tekist að staðsetja sálina hvað þá heldur að sannreyna með rannsóknum að hún sé yfir höfuð til. Samt þekkjum við öll til samviskunnar sem ómissandi vitundar-angurs í daglegu lífi frá vöggu til grafar.
Af hverju fór samfélagið á annan endan vegna jafn sjálfsagðra hluta og að tvær hæfar konur fengju laun í samræmi við kollega sína?
Bankastjórar eiga rétt á háum launum vegna ábyrgðar og freistnivanda fylgjandi peningavaldinu sem undir þá heyra. Um þetta geta flestir verið sammála þó skiptar skoðanir séu um launafjárhæð. Fljótt á litið virðist því ríkja sanngirni í ákvörðunum stjórna þessara banka gagnvart tveimur yfirmönnum sem eiga réttmæta kröfu til samkeppnishæfra kjara og jafn-metnir yfirmenn í öðrum fjármálafyrirtækjum á Íslandi.
Af hverju þessi reiði?
Ég held að flestir ef ekki allir sem gagnrýnt hafa laun bankastjóranna hafi ýmist talað eða skrifað í tilfinningahita og reiði. Það er engu líkara en upplýsingar um launin hafi brotið kyrfilega á siðferðisvitund landsmanna, en af hverju?
Helstu ástæður?
Báðir starfa bankastjórarnir í fjármálastofnunum í eigu almennings sem í mörgum tilvikum hefur mátt þola þungar búsifjar í formi afkomumissi, eignaupptöku og heimilismissi af völdum sömu stofnana.
Bankarnir sem þeir starfa fyrir voru endurreistir fyrir fé þess sama almennings og mátti þola að líf þess væri sett á hliðina fjárhagslega með afleiðingum sem tekur kynslóðir að leiðrétta. Orsök og afleiðingar þessa hildarleiks eru öllum kunnar og eiga sér rætur í mannlegri gróðarhyggju hóps einstaklinga í eftirlitsumhverfi sem brást skyldum sínum. Um þetta vitnar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis. Afleiðingar urðu gjaldþrot tugþúsunda, brotin heimili, öryggisleysi, landflótti, hungur, vanlíðan, sjúkdómar og í einhverjum tilvikum sjálfsvíg.
Stór hluti hagnaðar þessara sömu banka myndaðist á árunum eftir hrun við endursölu eigna sem þeir hreinsuðu til sín með þvinguðum aðgerðum og nauðungaruppboðum á heimilum almennings og fyrirtækja sem ekkert höfðu til saka unnið annað en að treysta þeim sem ábyrgum fjármálastofnunum fyrir hrun. Landsbanki og Íslandsbanki högnuðust m.a. vegna þessa um hundruðir milljarða á árunum 2009-2017. Nýju kennitölur bankanna fengu lánasöfnin á hrakvirði frá eldri kennitölum sömu banka.
Svo má spyrja
Hvernig má það vera að stjórnum þessara banka var ekki ljós vandmeðfarin samfélagsábyrgð starfa sinna í ljósi sögunnar? Gömlu kennitölur bankanna settu hagkerfið á hliðina og nýju kennitölur bankanna hirtu eignirnar á hrakvirði. Orsakasamhengi gömlu og nýju bankanna í hildarleiknum gagnvart heimilum og fyrirtækjum landsmanna er órofa og algjör.
Svo virðist sem stjórnum þessara banka hafi láðst að vega og meta vægi tilfinningalegra hagsmuna í ljósi harmsögu þeirra stofnanna sem þær starfa fyrir. Fjárhagsleg skaðsemi hrunsins verður ekki einungis metin í tölum þar sem lífsafkomu og heimilum fólks var fórnað. Þessar bankastofnanir eiga sér hvorki eðlilega rekstrarsögu né hafa þær stundað drengileg viðskipti í okkar samfélagi. Er rétt að taka blákaldar viðskiptalegar ákvarðanir sem þessar án tillits til sögu eða aðstæðna fórnalamba hrunsins? Er um að ræða hugsanavillu fólks sem býr við forréttindi í hliðrænum veruleika fjöldans?Stjórnir þessara banka virðast eiga í tilvistarkreppu með að samsama sig aðstæðum þeirra sem líða skort og þjást tilfinningalega sökum ranglætis af völdum þeirra stofnana sem þeir starfa fyrir en tillitslausar ákvarðanir sem þessar eru ekki óalgengur breyskleiki og þurfa alls ekki að tengjast neikvæðum ásetningi stjórnarmanna. E.t.v. er fremur um að ræða afneitun sem getur orðið svo blind að fólk hreinlega átti sig ekki á samhengi hlutanna. En við ákvarðanir sem þessar veldur samviskan oft tilfinningalegu uppnámi sem virkar eins og innri óróleiki, að því gefnu að fólk hlusti á eigin hjarta.
Samfélagið
Excel veröld bankamanna er t.a.m. ólík veruleika presta, lækna, hjúkrunafræðinga og ljósmæðra sem annarsvegar fást við harðar tölur og viðskipti en hinsvegar hlú að lífi, auðsýna kærleika, líkna og lækna. En þarf mannlegt samfélag að vera svo hólfaskipt að sumstaðar er rými fyrir mannvirðingu en annarstaðar varpað fyrir róða? Öll erum við ýmist börn, systkyni, foreldrar, afar, ömmur, vinir, yfirmenn eða starfsmenn í þessu órofa samfélagi. Við þurfum öll á hvort öðru að halda til að vaxa og þroskast, lifa og dafna. Réttlátt samfélag sem tekur tillit til þarfa allra, dafnar tilfinningalega jafnt sem efnahagslega og elur af sér kærleik og hamingju öllum í hag. Mannlegt samfélag er lífríki, þar sem nærgætni er þörf í umgengni við allar lífverur. Ekki má hrifsa til sín næringu eins á kostnað annars öðruvísi en lífríkið í heild eða að hluta raskist. Þannig er mannlegt samfélag einungis hluti miklu stærra samfélags og lífríkis, veraldlegs og andlegs. Af hverju er sanngirnis,-og kærleiksvog ekki virkjuð í viðskiptum fólks og stofnanna? Af hverju er samfélag okkar Íslendinga sárþjáð og reitt á sama tíma og þjóðartekjur eru meðal þeirra hæstu á byggðu bóli? Því er mannhelgi ekki viðhöfð í bankastofnunum eins og heima, á sjúkrahúsum, í kirkjum, í skólum sem og annarsstaðar? Við lifum í margvíddar tilveru sem tengir okkur öll á einn veg eða annan og er ekki heillavænlegra að kærleikurinn sé samnefnari okkar samskipta hvort heldur sem er í banka eða á öðrum vettvangi?
Jesú tók oft sterkt til orða og var misskipting hugleikin. Hann sagði að auðveldara væri fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga en auðmanns til himnaríkis. Hvað átti hann við? Var hann ekki að tala um að sá maður sem reiðir sig um of á ytri auðæfi þurfi ekki á Guð að halda? Það er nefnilega hætt við að hörð efnishyggja rjúfi einfaldlega samband okkar við æðri gildi lífsins og eilífðarvitund.
Allir bankamenn og fjármálaspekulantar þekkja spread sheet eða Excel betur en fingurna á sér enda ómissandi tæki til útreikninga, bókhalds,-og áætlanagerðar. Excel, eins og við þekkjum það, var upphaflega fundið upp af vísindamanninum Dan Bricklin og fært í notkunarhæfan hugbúnað, VisiCalc árið 1979 í félagi við Bob Frankston. Þessi hugbúnaðarlausn er ein af merkari uppfinningum upplýsinga-byltingar síðari tíma og ómissandi tæki í fjármálaverkfræði, hagfræði og viðskiptum. En Dan Bricklin, eins og margir helstu hugsuðir sögunnar, er einlægur andans maður sem trúir á Guð. Þetta sagði hann (í lauslegri þýðingu) í bók sinni, Bricklin on Technology útg 2009:
„Verkfræðingar elska að koma sköpun sinni í notkun og notagildi hennar felst í hönnuninni. Fegurð uppfinningarinnar felst hinsvegar í því að sköpunin auðgar og auðveldar líf annara.“
Á þetta ekki að vera megin markmið okkar allra; að auðvelda líf annarra með eigin framtaki?
Samviskan og Guð
Orsök og afleiðing eru meiningarþrungin hugtök sem stjórnum Landsbanka og Íslandsbanka er hollt að vigta á vogarskálum samviskunnar, nokkuð sem við öll þurfum að gera frá degi til dags. Þetta óræða undur, samviskan, sem vísindin geta hvorki staðsett né sannreynt, hefur stundum verið líkt við Guð hið innra með okkur. Sé það rétt, farnast okkur þá ekki betur að viðurkenna hana frekar en afneita?
Höfundur er áhugamaður um betra líf.