Umræða á Alþingi nýlega um starfsumhverfi kennara vakti sérstaka athygli mína. Það er fagnaðarefni þegar vettvangur kennara fær athygli. Upphaf umræðunnar mátti rekja til fyrirspurnar um aðgerðir er varða jöfnun kjara kvennastétta í samhengi við þá kjarabaraáttu sem er í uppsiglingu.
En það sem mér þótti athyglisvert og er fyrirmunað að skilja er að umræðan fór að snúast um hljóðvist og raddvernd kennara sem mikilvæg starfsskilyrði. Rétt er það að röddin er eitt aðal vinnutæki kennarans og hljóðvist skiptir svo sannarlega máli. En að það sé þess eðlis og þyki tilefni til þess að fylla dýrmætan tíma sem fæst í umræðuna á hinu háa Alþingi er mér fyrirmunað að skilja. Á sama tíma og skólasamfélagið kallar mjög eftir að það fari fram alvöru umræða um starfsskilyrði og umbætur til að laða að unga kennara og fá einhverja til baka sem hafa gefist upp á þeim aðstæðum sem boðið er upp á.
Ég spyr mig einfaldlega: Hvers vegna er ekki verið að ræða það sem skiptir í raun og veru máli? Það sem hefur þau áhrif að staðan er eins og hún er? Erum við að forðast þá umræðu? Þykja staðreyndir of viðkvæmar? Er staðan sú að kerfið telur sig þurfa að grípa til varna og benda á einhverja þætti sem að mínu mati gera minna úr stöðunni og alvarleikanum en hitt?
Ég væri til í að sjá tillögur sem leitt gætu til að ungir kennarar heillist af því að koma til kennnslu. Ungir kennarar eiga ekki til orð yfir þeim stífa tímaramma sem boðið er upp á samkvæmt kjarasamningum. Mínútutalningin er einstaklega fráhrindandi fyrirkomulag.
Starfsumhverfi sem hefur hvata til nýsköpunar er líka aðlaðandi fyrir unga kennara, sem brenna fyrir starfinu sínu, rétt eins og í öðrum starfstéttum. Leysum upp kennsluskyldurammann og styðjum við frumkvæði kennara til nýsköpunar með því að gefa tíma í verkefni og kennslu í bland. Það er árið 2019 og ungir kennarar botna hvorki upp né niður í þeirri mínútutalningu, sem barist hefur verið um alla þeirra ævi.
Kennarastéttin er orðin of gömul og þeim fækkar sífellt innan hennar raða sem hafa þá orku sem þarf til að stokka upp og breyta. Kerfið er staðnað og því verður að breyta.
Verst er að sveitarfélög skuli binda sig í viðjar kerfisins og fórna sjálfstæði sínu til að gera betur og vinna með sínum hópi innan hvers sveitarfélags. Þungt, lamað og stórt kerfi er ekki fært um að stuðla að raunverulegum breytingum.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar.