Ef ekkert breytist í næstu viku, hrynja Bretar út úr Evrópusambandinu í lok mánaðarins án samnings. Það mun þýða röskun á öllum þeirra milliríkjasamskiptum, innflutningi á vörum, útflutningi á vörum og þjónustu, raðir á landamærum, matarskort, lyfjaskort og eldsneytisskort. Fyrir þennan veruleika hafa öll stór fyrirtæki sem starfa á Bretlandsmarkaði þurft að undirbúa sig.
Þar sem afleiðingarnar af því að ganga út úr Evrópusambandinu án samnings eru svo hrikalegar, eru líkurnar á því að breska þingið láti þær gerast, frekar litlar. En það skásta í stöðunni nú, er að þinginu takist að fresta útgöngu um þrjá mánuði og að í júní verði sama staða uppi á teningnum, val um vondan samning eða útganga án samnings. Á meðan sogar Brexit allt súrefni úr breskum stjórnmálum og allt of mikinn tíma frá fyrirtækjum. Mörg hafa gefið framtíðarplön upp á bátinn og önnur hafa hugsað sér til hreyfings.
Fyrir Íslendinga hefur Brexit mikil áhrif, enda Bretlandsmarkaður lengi verið einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands. Þangað flytjum við mest af okkar verðmætustu sjávarafurðum, þar starfar fjöldi Íslendinga, stundar nám og við flytjum þaðan inn fjöldann allan af vörum og þjónustu. Útganga án samnings verður hrikaleg fyrir íslenska útflutningshagsmuni, jafnvel þótt allt verði gert til að þess að takmarka tjónið.
Útganga með þeim samningi sem Bretar hafa náð við ESB en þingið hefur ekki samþykkt, verður líka flókin. Sama hver endanleg niðurstaða verður mun pundið veikjast, hagvöxtur minnka og tækifærum Breta fækka. Ekki verður lengur sjálfgefið að reka höfuðstöðvar á Bretlandi sem þjóna allri Evrópu, ekki verður fýsilegt að flytja fisk gegnum Bretland inn á Evrópumarkað. Ógnirnar í stöðunni eru margar, en tækifærin hverfandi.
Hafi íslensk fyrirtæki ekki enn áttað sig á afleiðingunum af Brexit, fer hver að verða síðastur að gera ráðstafanir. Útganga án samnings er enn möguleiki – þótt hann sé lítill – en útganga með samningi mun einnig hafa afleiðingar sem fyrirtæki þurfa að búa sig undir.
Í næstu viku sjáum við aðeins betur hvert pólitískur vilji breska þingsins leiðir, fyrst reynir Theresa May að nýju að fá samninginn sinn samþykktan. Það er ólíklegt að það takist. Þá fær þingið að greiða atkvæði um hvort gengið verði út án samnings. Líklegast er að þingið samþykki það – en óljóst er hvernig um slíkt verði samið við 27 ríki ESB. Í þriðja lagi kýs breska þingið um hvort fresta eigi útgöngu og líklegast er að þriggja mánaða frestun náist fram. En þá byrjar líka allur sirkusinn aftur.