Helstu mönnum skipafélaganna tala gjarnan um kolefnissporið, hvað það sé umhverfisvænna að flytja með skipum, en með öðrum farartækjum. Það er reyndar ekki alltaf rétt. Það er mikill munur á litlu skipi og stærra skipi, og að flytja með fullu skipi eða hálf tómu, en í þessari grein er borin saman olíunotkun gámaflutninga á vegum á Íslandi og með því sem talað hefur verið um sem strandferðir.
Áður voru vegir lélegir og flutningabílar voru búnir mun verri dekkjum en þekkjast í dag, svo farmur landflutningabíla var lítill og tók langan tíma að fara á milli. Mest af flutningum til og frá landsbyggðinni fór með strandferðaskipum. Vörur komu og fóru beint milli hafna á ströndinni og erlendra hafna.
Hringvegurinn var byggður með varanlegu slitlagi. Skip fluttu vöru í gámum og flutningabílar gátu tekið meiri farm, og Hvalfjarðargöng styttu veginn norður. Ríkisskip lokaði og Samskip og Eimskip tóku við, voru með skip á ströndinni, en Samskip hætti því á árinu 2000 og Eimskip í lok árs 2004.
Á þeim 9 árum sem liðu þangað til þessir flutningar voru teknir upp á ný, voru oft umræður um hvað skipaflutningar væru umhverfisvænni en bílar. Í apríl 2005 gaf Samgönguráðuneytið út skýrslu, NEFNDARÁLIT UM ÞRÓUN FLUTNINGA INNANLANDS, sem mærði umhverfislega yfirburði strandflutninga, byggt á óraunhæfum forsendum, eins og 80% farmnýtingu skipa. Þó var minnst á útreikninga Eimskips með samanburði á notkun skips, Mánafoss, og flutninga á vegum, þar sem talið var að útstreymi koldtvíoxíðs minnkaði um 57% samfara því að flutningum var hætt með Mánafossi (síða 13) og allt flutt með bílum. Síðan þá hafa bílar orðið mun umhverfisvænni, í og með vegna krafna Evrópusambandsins um mengunarvarnir.
Loksins strandsiglingar á ný
Árið 2013 hófu bæði Samskip og Eimskip þessar siglingar að nýju. Þáverandi samgönguráðherra fagnaði í viðtölum við fjölmiðla: Loksins, loksins.
Áður en eftirfarandi staðhæfing er sannreynd verður að taka fram að ákvæði í lögum um skyldu hafna til að upplýsa um magn sem flutt er um hafnirnar hefur verið túlkað þannig af yfirvaldinu, Vegagerðinni, að þetta geri menn bara þegar andinn blæs mönnum það í brjóst og þá sé bara upplýst um það sem menn vilja upplýsa um. Það hafa orðið til nokkrar skýrslur sem byggjast á ófullkomnum upplýsingum þótt höfundarnir telji sig væntanleg hafa fullkomnar upplýsingar. Hefur verið kvartað til Úrskurðarnefndar upplýsingamála vegna þessa.
Með ófullkomnum upplýsingum má álykta að heildar fjöldi gáma með skipum sem losa og lesta á nokkrum höfnum á ströndinni sé um 20.600 gámaeiningar, TEU, á ári. Tveir þriðju þeirra með vöru til hafnar eða frá, og þriðjungur tómir gámar. Hér er átt við hafnirnar Ísafjörð, Sauðárkrók, Akureyri og Húsavík. Til skamms tíma komu meginlandsskip Eimskips vikulega við á Reyðarfirði. Gámar til Reyðarfjarðar eða frá eru ekki innifaldir í gámafjöldanum.
Á síðasta ári voru flestar vikurnar skip beggja félaga í höfnunum, þannig má segja að á ársgrundvelli voru nálægt 90 viðkomur í höfnunum sem þýðir að það voru að jafnaði 230 TEU í hverri ferð skipa sem höfðu yfir 500 TEU burðargetu. Skipin héldu áfram til Færeyja, Bretlands og meginlandsins. Ef þessi flutningur með skipum hefði farið með bílum að stóru meginlandsskipi hefði kolefnissporið þá orðið minna, af því að stór flutningaskip menga hlutfallslega minna en hin smærri.
Áfram veginn
Ef þessi farmur hefði allur farið á þjóðvegina í venjulegum gámum, þá hefðu verið um 7.200 ferðir flutningabíla, fram og til baka, 4,2 miljónir kílómetra. Með því að reikna með að jafnaði 45 lítra eyðslu á hundrað kílómetra hefði þurft til 1.590 tonn af dísilolíu 77 lítra á TEU. 66% hefðu farið til Reyðarfjarðarhafnar, en þaðan hafa verið vikulega siglingar og 34% til Grundartangahafnar, en það eru vikulegar viðkomur þriggja skipa sem fara til meginlandsins og til Englands. Til að minnka kolefnissporið er kjörið að nota Grundartanga fyrir vörur til og frá landsbyggðinni í stað Sundahafnar.
Við flutning með gámum innan Evrópu með skipum og járnbrautum eru mestan part notaðir 45 feta gámar, aðeins víðari en venjulegir gámar til þess að geta koma fyrir tveimur 120 cm pöllum hlið við hlið í gámnum. Á fagmálinu er rætt um 45´PW-gáma. Sé varan ekki mjög þung má koma 15% meira magni í gáminn. Þá er 15% meira magn í hverri ferð á vegunum. Notkun slíkra gáma gæti sparað akstur og þar með olíunotkun um það bil 10%. Skipafélögin hafa enn ekki boðið upp á þessa minnkun kolefnissporsins, væntanlega vegna þess að alþjóðleg reynsla hefur kennt útgerðum að þegar rúmtak gáma hefur stækkað, sem þýðir að skipið getur borið færri gáma, hefur gengið illa að fá flutningskaupanda til að borga fyrir aukið rými. Afgreiðslu og aksturskostnaður kaupandans minnkar á hvern rúmmetra, og þar gæti sparnaðurinn verið mun meiri en kostnaður vegna aukins rýmis. Eimskip hefur þó tilkynnt að þeir séu að fjárfesta í 45´PW-frystigámum.
Olíusóun
Til að halda úti einu skipi sem fer vikulega í kringum landið þarf 3.000 tonn af skipaolíu samkvæmt upplýsingum frá Eimskip í skýrslunni frá á árinu 2005, sem gerir 145 kíló af skipaolíu á TEU – tvisvar sinnum meira kolefnisspor en með bíl. Tvö skip voru notuð mest allt árið. Þau eyða 6.000 tonnum sem þýðir 290 kg á TEU sem er 3,8 sinnum meira en með bíl. Um þessar mundir er Samskip vikulega og Eimskip aðra hverja viku. Kolefnisjafnan segir að þá þurfi 2,8 sinnum meiri skipaolíu en ef allt færi með bílum. Skipaolían er mun meira mengandi en dísilolía.
Það má reyndar teygja sporið alla leið til Bíldudals. Þangað eru núna vikulegar siglingar til að skila 15 gámum og lesta aðra 15 gáma með laxi. Skipaolía sem þarf fyrir siglinguna norður og til baka í Sundahöfn er nálægt 15 tonn. Magnið sem fór í gámana hefði komist í 13 vöruflutningabifreiðar sem hefðu þurft samtals 5 tonn til að komast báðar leiðir. Skipasporið er þrisvar sinnum dýpra en bílasporið.
Kostnaður vegna þjóðvega
Fyrir margt löngu hélt talsmaður strandferða því fram að það hægt væri að flytja allt með skipum og því væru vegirnir afgangstærð (ekki nákvæmlega eftir haft).
Nú eru vegirnir þungamiðja allra flutninga. Fólk keyrir á milli og fólk tekur rútur. Í skýrslu frá 2013 (Áhrif þungatakmarkanna á vegum, síða 25 ) var mat höfundar skýrslunnar að 52–66 vöruflutningabílar færu um vegina á sólarhring. Ef gámasiglingum á ströndina yrði hætt mundu bætast við um 24-28 ferðir á dag. Langflestir vegir eru byggðir fyrir þann þunga sem fluttur er allt árið. Það er óumdeilt að þung ökutæki slíta vegum mun meira en fólksbílar. Hins vegar er slit á vegum vegna veðurs óháð umferð. Góða vegi þarf, hvort sem farnar eru 50 eða 70 ferðir vöruflutningabifreiða sem eru búnar samkvæmt ströngustu kröfum um akstur á vegum.
Heldur er minna um beinharðar upplýsingar um kostnað við vöruflutninga á vegum landsins. Nágrannar okkar, Svíar, vita að til að ná árangri eða taka réttar ákvarðanir þarf að byggja á áreiðanlegum upplýsingum. Samkvæmt þeim er kostnaður vegna slits vega, þegar dráttarbíll með vagn með 40 tonna heildarþunga er ekið, 4,89 íslenskar krónur á kílómeter, samkvæmt gengi 21 febrúar 2019 (Vierth, Evaluating the external cost of trailer transport 31012018) . Viðurkennd evrópsk viðmiðun kennd við Ricardo gefur þennan kostnað hærri, 7,87 ísl krónur. Af því allt er dýrara á Íslandi er kannski rétt að setja 50% álag á þessa upphæð sem yrði þá kr. 11,81 á kílómeter. Kostnaður vegna slits á vegi frá Akureyri til Reyðarfjarðar og til baka yrði því kr. 6.661. Sé gert ráð fyrir að kostnaður á hvern ekinn kílómeter sé $ 2, eða kr. 240, þá er framlag til slits vegarins 5% af tekjum ferðar. Best væri að fá þennan kostnað í einni lykiltölu frá Vegagerðinni, eins og tíðkast erlendis.
Dráttarbíll með vagn og 45´PW gám vegur 21 tonn og er því þungi farms við 40 tonna heildarþunga 19 tonn. Samkvæmt reglugerðum getur mesti heildarþungi verið 49 tonn með ákveðnum skilyrðum sem þýðir nálægt 28 tonna farmþyngd. Kostnaður vegna slits mundi aukast verulega, en samt vel þess virði miðað við að auka farm með 45%.
Samkvæmt evrópskum útreikningum (ITF, 28 júní 2018) er launa og olíukostnaður samtals 56 – 74% af kostnaði ferðar. Fer nærri að tæpur helmingur kostnaðar akstursins renni í ríkissjóð. Má gera ráð fyrir að með þeim tekjum hins opinbera yrðu þessir flutningar ekki niðurgreiddir og umhverfinu betur borgið á vegum en með þeim skiparekstri sem hefur viðgengist.
Vegir og rútur í stað flugvéla og skipa
Hér hefur verið rakið að núna er flutningur gáma innanlands umhverfisvænni á vegum en skipum. Flutningabílar hafa orðið sparneytnari í liðnum áratug. Þróun flutningabíla miðar að því að hægt verði að knýja þá með rafmagni. Þegar lausn verður fundin á hleðslu málum verður mengun af akstri slíkra bíla hverfandi.
Það þarf að halda áfram að gera göng og bæta og stytta vegi. Á teikniborðinu eru tillögur sem leiða til 20 km styttingar á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Kostnaður er um tvö kísilgöng. Langflestir sem fara á milli, fara með bíl og stærsti hluti kostnaður ferðarinnar er olía og þar getur stærsti hlutinn farið í að byggja upp vegina. Miðað við 1000 ökutæki á sólarhring og að jafnaði 8 lítra eyðslu á 100 km, þá mun þessi stytting leiða til 500 tonna minni olíunotkunar á ári.
Stytting leiðar og öruggari vegir koma þeim til bóta sem vilja ferðast milli landshluta á eigin vegum!
Draumar og veruleiki
Það er enn mikið talað um strandsiglingar. Sumt eru draumar og annað er veruleiki. Í frumvarpi til Samgönguáætlunar lagt fram hausið 2018 segir á síðu 30 Með auknum strandsiglingum hefur útflutningshöfnum fjölgað. Í árslok 2017 voru reglubundnir vöruflutningar frá 11 höfnum hringinn í kringum um landið. Fyrst þarf að vera ljóst hvað telst til strandflutninga. Í þessum skrifum er miðað við reglulega flutninga í gámum til og frá hafna á ströndinni, sem ekki var þjónað af slíkum skipum milli 2005 og 2013, Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri og Húsavík. Hafnir í Fjarðabyggð höfðu vikulega viðkomu Evrópuskips, og sömuleiðis Vestmannaeyjar sem hafði tvær viðkomur.
Sem dæmi um hversu þessir flutningar voru vaxandi, þá fækkaði Eimskip siglingum á strönd frá því að vera vikulega í að vera á hálfs-mánaðar fresti um það leiti sem frumvarpið var lagt fram. Reyndar með skipi sem hefur 40% meiri burðargetu, en eftir sem áður er flutningsgetan 70% af því sem var. Enn og aftur, vöntun á upplýsingum veikir þessa umræðu, en samt er ég nokkuð viss um að ég er jafn illa upplýstur og samgönguráðherra.
Aðrir flutningar um hafnir á strönd eru flutningur á uppsjávarfiski á pöllum með frystiskipum frá a.m.k. 7 höfnum, flutningur á áburði og olíu og annar tilfallandi flutningur eins og hey úr Skagafirði og Húnavatnssýslu til Noregs. Þessir flutningar eiga það sameiginlegt að verð farms er tiltölulega lágt, og að þeir þola bið. Vika til eða frá skiptir yfirleitt ekki máli.
Gámaflutningur er með dýrari vöru sem oftar en ekki er flutt reglulega í smærri skömmtum til móttakanda sem býst við vörunni á vissum degi, um það bil.
Evrópusambandið hefur reynt að færa flutninga af vegum til járnbrauta og skipa. Árangur hefur verið klénn í flestum tilvikum, af mörgum ástæðum; menn vilja daglegar afskipanir, verðmunur er lítill og það hefur oft gengið erfiðlega að sanna að skipaflutningar séu umhverfisvænni en landflutningar eða blanda af landflutningum og farþegaferjum. Þar veltur á hagkvæmni stærðarinnar því eftir því sem skipin eru stærri minnka neikvæð umhverfisáhrif (og reyndar eftir því sem skipin eru nýrri, því sífellt koma nýjar umhverfiskröfur við hönnun skipa). En í fæstum tilfellum er hægt að fylla stór skip nógu oft, að hafa fleiri en eina brottför á viku. Fyrir marga nægir ekki ein brottför á viku.
Skipin sem hafa verið notuð á ströndinni eru 505 TEU, og nýting þeirra er í standsiglingum er minna en 40%, sennilega um að jafnaði 25%. Samanburður að ofan sýnir að landflutningar hafa í öllum tilfellum mikla umhverfislega yfirburði.