Á tímum upplýsingatækni er krafa um aukið gagnsæi og greiðan aðgang að upplýsingum eðlileg og ætla má að sú krafa eigi bara eftir að aukast. Hún gildir að sjálfsögðu um lífeyrissjóði og ánægjulegt að sjá stöðugt fleiri láta sig málefni lífeyrissjóða varða. Virku aðhaldi sjóðfélaga ber að fagna og allri upplýsandi og gagnlegri umræðu um lífeyriskerfið skal haldið á lofti enda er það hagur okkar allra.
Rétt er að fara yfir hvar og hvernig nálgast má helstu upplýsingar um lífeyrissjóðina og hvaða upplýsingar er þar að finna.
Vefsíður sjóðanna
Fyrst ber að nefna vefsíður lífeyrissjóðanna en hafa ber í huga að hver lífeyrissjóður er sjálfstæð eining og birtir því einungis upplýsingar um sína starfsemi, en ekki annarra. Á vefsíðunum má nálgast ársreikninga sjóðanna sem innihalda ítarlegar upplýsingar um ávöxtun, eignasamsetningu, kostnað við rekstur og fjárfestingar og árangur fjárfestinga svo fátt eitt sé nefnt. Þá hafa margir lífeyrissjóðir einnig dregið saman helstu upplýsingar úr ársreikningum, svo sem upplýsingar um ávöxtun sl. ára og birt þær sérstaklega á vefsíðu sinni. Sumir ganga svo enn lengra og birta reglulega yfirlit yfir allar fjárfestingar sínar, sundurliðað á einstök verðbréf. Loks setja flestir lífeyrissjóðir fréttir um starfsemina á vefsíður sínar og/eða senda þær í tölvupósti til sjóðfélaga.
Opinberir aðilar
Næst má nefna opinbera aðila sem taka saman upplýsingar um alla lífeyrissjóði og birta á vefsíðum sínum. Fjármálaeftirlitið tekur saman upplýsingar úr ársreikningum lífeyrissjóða og birtir ítarlega samantekt yfir helstu lykiltölur úr ársreikningum þeirra, s.s ávöxtun, kostnað og tryggingafræðilega stöðu en rétt er að hafa í huga að uppgjörsaðferðir samtryggingarlífeyrissjóða eru ólíkar og því eru tölur um ávöxtun ekki að öllu leyti samanburðarhæfar. Þá hóf Fjármálaeftirlitið nýverið að birta ársfjórðungslega samantekt á eignaflokkum fjárfestinga lífeyrissjóðanna.
Landssamtök lífeyrissjóða
Þá má ekki gleyma Landssamtökum lífeyrissjóða sem ásamt því að birta samantekt á ávöxtun séreignardeilda lífeyrissjóðanna sl. 5 og 10 ár, taka saman upplýsingar um sjóðina í heild og birta undir Hagtölum lífeyrissjóða á vefsíðu samtakanna. Jafnframt eru þar birtar fréttir og fræðslugreinar um lífeyrismál.
Sjóðfélagayfirlit
Ef við beinum svo sjónum að sjóðfélögum og hvaða upplýsingar þeir geta fengið um sína eigin stöðu þá senda lífeyrissjóðir út yfirlit tvisvar sinnum á ári. Á þeim yfirlitum kemur fram hvað sjóðfélagi hefur greitt í sjóðinn sl. mánuði, hvaða réttindi sjóðfélaginn á í sínum sjóði og áætluð réttindi við starfslok m.v. áframhaldandi iðgjaldagreiðslur. Vilji sjóðfélagi nálgast þessar upplýsingar oftar eða með rafrænum hætti þá hefur hann aðgang að slíkum yfirlitum fyrir hvert það tímabil sem honum hugnast inni á vef viðkomandi sjóðs yfirleitt undir heitinu Mínar síður. Flestir launþegar hafa hins vegar greitt í fleiri en einn sjóð um ævina og til veita sem besta yfirsýn komu lífeyrissjóðir landsins að sameiginlegu verkefni sem kallast Lífeyrisgáttin. Í Lífeyrisgáttinni geta sjóðfélagar nálgast upplýsingar á einum stað um öll áunnin réttindi í þeim samtryggingarlífeyrissjóðum sem þeir hafa greitt í um ævina.
Samfélagsmiðlar
Samfélagsmiðlar hafa hafið innreið sína hjá lífeyrissjóðum líkt og annars staðar og nokkrir sjóðir hafa nýtt sér þá leið til að auka sýnileika sinn og samskipti við sjóðfélaga. Þá hafa sjóðirnir almennt lagt mikla vinnu í vefsíður sínar og nýtt sér stafræna þróun til að koma upplýsingum á framfæri með skýrum hætti. Þeirri vinnu er þó ekki lokið enda er vinnu við góða framsetningu upplýsinga aldrei lokið og stöðugt hægt að betrumbæta.
Persónuleg ráðgjöf og fræðslufundir
Þrátt fyrir þá miklu og jákvæðu þróun sem orðið hefur á tækninni og rafrænni þjónustu má ekki gleyma mannlega þættinum. Lífeyrissjóðir landsins bjóða sjóðfélögum sínum upp á persónulega ráðgjöf og þjónustu og jafnframt halda margir sjóðir reglulega opna fræðslufundi fyrir sína sjóðfélaga og er þeim í einhverjum tilfellum streymt um samfélagsmiðla til að sem flestir geti nýtt sér þá.
Samanburður á ávöxtun lífeyrissjóða
Af þessari yfirferð má ljóst vera að upplýsingagjöf lífeyrissjóðanna er umtalsverð, enda eðlileg krafa sjóðfélaga að gott aðgengi sé að upplýsingum um þeirra eignir og réttindi. Varðandi aðgengi að samanburði á ávöxtun lífeyrissjóða þá hafa Landssamtök lífeyrissjóða nú þegar tekið saman upplýsingar um ávöxtun séreignardeilda lífeyrissjóðanna og birt þann samanburð á vefsíðu sinni og er það vel. Þá er fyrirhugað hjá samtökunum að birta sambærilega samantekt á ávöxtun á samtryggingardeildum lífeyrissjóða. Samanburður á samtryggingardeildum er hins vegar ekki einfaldur og huga þarf að mörgum þáttum svo hann sé samanburðarhæfur. Til að svo sé þarf fyrst og fremst að leiðrétta fyrir markaðsávöxtun skuldabréfa sem gerð eru upp á kaupkröfu. Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur til dæmis í nýútkominni grein á vefnum efnahagsmal.is fjallað um samanburð á langtímaávöxtun og áhættu lífeyrissjóða á betri hátt en áður hefur verið gert.
Enn betri upplýsingagjöf í framtíðinni
Aukinn áhugi sjóðfélaga á málefnum lífeyrissjóða er mikið fagnaðarefni og vonandi mun hann aukast enn frekar. Lífeyrissjóðir sem og eftirlitsaðilar þeirra hafa lagt sig fram um að miðla ítarlegum upplýsingum undanfarin ár og stöðugt er bætt í. Það er hins vegar ljóst að alltaf má gera betur og bæta framsetningu. Það verður spennandi að fylgjast með og taka þátt í þróun mála næstu árin í þá átt að auka enn frekar upplýsingagjöf í góðu samráði við sjóðfélagana, eigendur lífeyrissjóðanna.
Höfundar eru framkvæmdastjórar Frjálsa lífeyrissjóðsins, EFÍA og LSBÍ og Lífeyrissjóðs Rangæinga.