Stuðningsyfirlýsing í tilefni heimsloftslagsmótmæla ungs fólks föstudaginn 15. mars, frá Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá:
Mörg hundruð þúsund nemendur í hundruðum borga út um allan heim hafa fylgt fordæmi Gretu Thunberg frá Svíþjóð og mótmælt aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Það er gott að taka sér orð Gretu í munn: „Fólk segir mér að það fyllist von þegar það sér mig og önnur ungmenni í skólaverkfalli,“ og það segir „ó, börnin munu bjarga okkur.“ En nei, það gerum við ekki. Við erum of ung til að geta gert það. Við höfum ekki tíma til að bíða eftir því að fullorðnast og bjarga málunum í framtíðinni. Fólkið sem hefur völdin núna þarf að gera það núna.“ Ákall ungmenna um allan heim er að ,,það sé tími til kominn að tala minna og gera meira.“
Þetta unga og frakka fólk kallar eftir neyðaraðgerðum til að stöðva hlýnun jarðar. Það hefur sameinast undir myllumerkjunum #FridaysForFuture og #Climatestrike og viðburðinum Global Strike For Future 15. mars á Fésbók. Ríkisstjórn Íslands hefur skrifað undir Parísarsáttmálann, þar sem lögð er áhersla á að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 2°C. Nýjustu rannsóknir Alþjóðaloftslagsráðsins sýna hins vegar að hlýnun yfir 1.5°C muni ógna tilveru okkar. Plánetan hefur þegar hlýnað um 1°C. Samt stefnum við núna í 3.5°C, vegna þess að þjóðir heims hafa ekki lofað nógu kröftugum aðgerðum.
Þetta á líka við um Ísland.
Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá styðja loftslagsverkföllin og þær mikilvægu kröfur sem liggja að baki þeim. Þrítugasta og þriðja grein nýju stjórnarskrárinnar kveður á um að „nýtingu náttúrugæða skuli haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.“ Sú staðreynd að ný stjórnarskrá Íslands hafi ekki verið innleidd er mikið hneyksli fyrir stjórnendur landsins. Með innleiðingu 33. greinar bæri stjórnvöldum að virða rétt komandi kynslóða.
Undir þessa grein skrifa stjórnarkonur Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá.
- Alexandra Briem
- Andrea Helgadóttir
- Árný Elínborg Ásgeirsdóttir
- Bergljót Tul Gunnlaugsdóttir
- Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir
- Helga Bára Bartels Jónsdóttir
- Isold Uggadóttir
- Katla Hólm Vilbergs Þórhildardóttir
- Katrín Oddsdóttir
- Kristín Erna Arnardóttir
- Kristín Vala Ragnarsdóttir
- Nichole Leigh Mosty
- Ruth Stefnis
- Sema Erla Serdar
- Svala Hjörleifsdóttir
- Þóra Kristín Ásgeirsdóttir