Loksins, loksins kom fram frumvarp um breytingu á úreltum lögum, lög sem í dag heita lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, lög frá árinu 1975 sem eins og nafnið gefur til kynna blandar saman allskonar ólíkum hlutum. Samfélagið hefur breyst en það að konur verði ófrískar og hvernig mun seint breytast, það segir sig sjálft. En þegar texti gildandi laga er skoðaður ætti öllum að vera ljóst að þörf er á breytingum. Þótt ekki sé nema fyrir það hvað lögin í dag fjalla um ólíka þætti í sama lagabálki og það hversu sjálfsákvörðunarréttur kvenna er, samkvæmt lagatextanum, lítill. Í raun er það þannig að ferlið við fóstureyðingar í dag er ekki í fullu samræmi við lagatextann, sem er auðvitað ótækt. Þá þarf að taka ákvörðun um hvort breyta þurfi framkvæmdinni þannig að hún sé í fullu samræmi við lögin, eða hvort lögin séu úrelt og þurfi að breyta í auknu samræmi við framkvæmd.
Fæðingarlæknar hafa kallað eftir breytingu á lögunum sem þeir hafa talið barn síns tíma. Í mars 2016 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson nefnd sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun laganna. Í nóvember sama ár skilaði nefndin skýrslu til ráðherra og lagði til að sett yrðu þrenn ný lög í stað eldri laga, þ.e. lög um fræðslu og ráðgjöf varðandi kynheilbrigði, lög um þungunarrof og lög um ófrjósemisaðgerðir. Einnig lagði nefndin til að heimilt yrði að rjúfa þungun að beiðni konu fram að lokum 22. viku þungunar ef engar læknisfræðilegar ástæður mæltu gegn því. Voru niðurstöður nefndarinnar lagðar til grundvallar því frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu.
Hvar á ábyrgðin að liggja?
Mest er deilt um þá lagabreytingu í frumvarpinu að hægt verði að framkvæma þungunarrof að beiðni konu fram að lokum 22. viku án þess að fyrir því séu ástæður sem skrifaðar eru inn í frumvarpið. Í dag er það þannig í lögunum að það þurfa að vera tilgreindar ástæður fyrir því að leyfa skuli fóstureyðingu. Ástæðurnar skulu vera læknisfræðilegar, félagslegar eða að þungunun sé tilkomin í kjölfar nauðgunar. Samkvæmt lögunum þurfa tveir sérfræðingar að skrifa upp á beiðnina og þannig í raun samþykkja að aðstæður konunnar séu í samræmi við það sem lögin heimila. Við mat á félagslegum ástæðum skal tekið mið af því hvort konan hafi alið mörg börn með stuttu millibili og skammt sé frá síðasta barnsburði, hvort konan búi við bágar heimilisaðstæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu, konan geti ekki vegna æsku eða þroskaleysis annast barn á fullnægjandi hátt eða um sé að ræða ástæður sem eru fyllilega sambærilegar framangreindum ástæðum.
Það eru alltaf ástæður fyrir því að kona velur þungunarrof. Hverjar þær eru geta verið mjög mismunandi og ég leyfi mér að efast um að núverandi lagatexti nái utan um það. Ég á bágt með að sjá að löggjafinn geti með einhverju móti skrifað inn í lög hvaða ástæður heimila þungunarrof og þar af leiðandi hvaða ástæður leyfa það ekki. Af þeim sökum er ég á þeirri skoðun að ábyrgðin á ákvörðun um þungunarrof þurfi og eigi að liggja hjá konunni sjálfri. Það er það sem núverandi frumvarp gerir ráð fyrir en að sjálfsögðu verður áfram tryggt að konan fái stuðning og fræðslu við hæfi, bæði fyrir og eftir þungunarrof.