Alþjóðlegi hamingjudagurinn er haldinn í sjöunda sinn 20. mars að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið með deginum er að vekja til vitundar um mikilvægi hamingjunnar.
Undirrituð útskrifaðist með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði frá Buckinghamshire New University haust 2018. Lokaverkefnið var eigindleg rannsókn á skynjun og skilningi eldri borgara á vellíðan. Rannsóknarspurningarnar voru: Hvernig skynja og skilgreina eldri borgarar á Íslandi vellíðan og hvaða þættir hafa að þeirra mati áhrif á vellíðan á efri árum? Þátttakendur voru sjö einstaklingar á aldrinum 70-79 ára en samkvæmt rannsókn Embættis landlæknis á heilsu og líðan Íslendinga árið 2012 upplifa einstaklingar á þeim aldri mestu hamingjuna. Tekin voru hálfopin viðtöl og gögnin síðan þemagreind.
Sjö þemu fundust í svörum viðmælenda sem sýna hvernig þeir hafa skapað sér hamingjuríka tilveru. Segja má að svör þátttakenda séu einskonar uppskrift að vellíðan. Hér fyrir neðan verður fjallað um þemun sjö:
1. „Þú skapar þér þína hamingju“
Viðmælendur telja að ekki eigi að bíða eftir því að verða hamingjusamur heldur þurfi maður að skapa sér sína hamingju. Með því að viðhafa jákvætt viðhorf, einblína á skemmtilega hluti og velta sér ekki upp úr því sem maður getur ekki haft áhrif á sé hægt að auka vellíðan. Æðruleysi einkennir svör viðmælenda, sem telja mikilvægt að gera það besta úr því þeir hafi. Þeir leggja áherslu á að njóta hvers augnabliks og litlu hlutanna:
„Það eru svo ótrúlega margir litlir hlutir sem eru bara dásamlegir á hverjum degi. Til dæmis, mér dettur nú bara í hug rúmið mitt, það er svo gott rúmið mitt [brosir], að ég hlakka til að fara upp í rúmið mitt á kvöldin þegar ég er orðin þreytt og, og … lesa góða bók, það finnst mér mjög skemmtilegt. Mér finnst líka ægilega gaman að elda, elda smá góðan mat svona, og um helgar að fá sér kannski eitt rauðvínsglas ... með manninum, þetta er allt voða gaman.”
2. Að stofna til og viðhalda góðum tengslum
Rauði þráðurinn í frásögnum þátttakenda er að gefa af sér og rækta félagsskap við afkomendur og vini. Sjá börnin verða að manni, fylgjast með barnabörnunum vaxa úr grasi og taka þátt í lífi þeirra. Þeir telja að jákvæð félagstengsl auki lífsánægju og almenna vellíðan. Það veiti þægilega tilfinningu að eiga net í kringum sig og geta deilt tilfinningum sínum og áhyggjum með öðrum. Þátttakendur eru flestir frekar virkir félagslega og leita eftir því að vera innan um annað fólk:
„... ég hef mikla þörf fyrir að hitta fólk þannig að ég reyni alltaf að vera einhvers staðar að gera eitthvað með fólki. Og það finnst mér mín hamingja, að geta það.“
3. Að stunda reglubundna líkamsrækt
Viðmælendur eru mjög meðvitaðir um mikilvægi þess að huga að heilsunni til að geta tekið þátt í því sem lífið býður upp á. Þeir stunda margskonar líkamsrækt eins og göngutúra, Qigong, vatnsleikfimi, sund, Zumba, stólajóga, golf og styrktarþjálfun. Þeir telja að líkamlegur, andlegur og félagslegur ávinningur líkamsræktar sé ótvíræður. Regluleg hreyfing bæti svefninn, geri þá frískari og orkumeiri, bæti lundina og auki félagslega vellíðan þeirra.
„Dansinn er svo yndislegur og músíkin og þetta kemur manni í svo gott skap og manni líður svo vel ... ég hlakka til hvers tíma. Bara í hvert skipti sem maður fér héðan út frá henni [Zumba kennara] þá er maður bara kominn upp í einhverjar hæðir.“
4. Að hafa tilgang og merkingu í lífinu
Viðmælendur leggja mikla áherslu á mikilvægi þess að vera einhvers virði fyrir annað fólk og stuðla að vellíðan annarra, t.d. með því að taka í sjálfboðaliðastarfi eða stjórnmálum og gera þannig samfélagið betra. Virk þátttaka í samfélaginu og að láta gott af sér leiða gefur þeim tilgang:
„Maður þarf líka að finna að maður sé að gera eitthvert gagn þó að maður sé á áttræðisaldri, það er bara þannig. Það er nauðsynlegt að maður finni að maður hafi eitthvert hlutverk.“
Þeir telja einnig mikilvægt að læra, dafna og vaxa og hafa eitthvað sem fangar hugann á hverjum degi, t.d. með því að taka þátt í félagsstarfi, sækja fræðslu, stunda listmálun, lesa bækur, ferðast, sinna garðyrkjustörfum, hlusta á tónlist, prjóna, leysa krossgátur og hreyfa sig.
5. Að upplifa jákvæðar tilfinningar
Viðmælendur undirstrika mikilvægi þess að líta glaður og stoltur yfir farinn veg og vera sáttur við sjálfan sig og stöðuna sem maður er í. Einnig að horfa björtum augum til framtíðarinnar. Í viðtölunum má skynja margar jákvæðar tilfinningar eins og gleði, þakklæti, æðruleysi, áhuga, von, stolt, skemmtun, innblástur, kærleik og lotningu:
„Það er fallegt veður í dag, skýjafarið er meira að segja fallegt líka, og við getum speglað okkur í hafinu sem við sitjum hérna og horfum út um gluggann.”
6. Að vera tengdur náttúrunni
Tengingin við náttúruna kemur mjög sterkt fram hjá viðmælendum, sem segja að náttúran gefi þeim gildi og merkingu. Að komast í snertingu við náttúruna, fylgjast með vorfuglum, fá súrefni í lungun á göngum og upplifa heilandi mátt vatsins og hafsins vekur með þeim kraft og vellíðan:
„... þegar manni líður illa þá getur maður horft til hafsins og notið þess, og þá birtir til því að tilbrigðin í því eru jafn merkileg og í lífi okkar mannanna. Kannski er það þess vegna sem maður hefur svona kraft. Ég sæki kraftinn mjög mikið í það að njóta þess að vera við hafið.“
7. Að upplifa vellíðan þrátt fyrir mótlæti
Viðmælendur lýsa vel hvernig hægt er að upplifa jákvæðar tilfinningar eins og þakklæti og kærleik þrátt fyrir erfið veikindi maka og síðar makamissi, eins og meðfylgjandi lýsing sýnir:
„... þarna er samband okkar í miklum veikleika, þú veist, aðstæðurnar eru þannig, en aldrei í eins miklum styrkleika. Það var algjörlega ótrúleg lífsreynsla. Allt önnur nálgun, allt aðrar þarfir sem bókstaflega kölluðu á alla þessa nánd. Fólk hélt að ég væri að drepast úr þreytu. En við nutum samverunnar, bara á annan hátt, en aldrei eins mikið og þarna. Þarna er svo mikið að gefa og svo mikið að þiggja, þetta var mér mikils virði ... þetta var mjög dýrmætur tími í okkar lífi.“
Áföll geta þroskað fólk og gert því kleift að njóta lífsins á annan og dýpri hátt.
Tengsl milli þemanna sjö
Sterk tengsl eru milli ofangreindra þema. Viðmælendur upplifa jákvæðar tilfinningar eins og gleði, sæluvímu og hamingju við að stunda hreyfingu. Hreyfingin hefur áhrif á líkamlega, andlega og félagslega vellíðan þeirra og gefur þeim tilgang. Þeir upplifa jákvæðar tilfinningar eins og stolt, áhuga og ánægju við skapandi vinnu og vitsmunalega örvandi athafnir. Að láta gott af sér leiða gefur þeim ekki aðeins tilgang og merkingu heldur einnig tækifæri til að kynnast nýju fólki, sem aftur eykur vellíðan þeirra. Þeir stofna til og rækta félagstengsl í þeim tilgangi að uppskera jákvæðar tilfinningar. Tengingin við náttúruna færir þeim jákvæðar tilfinningar og tilgang.
Lokaorð
Svörin færa okkur heillandi innsýn í það hvernig eigi að lifa hamingjuríku og ánægjulegu lífi og hvað eldri borgarar gera dags daglega til að auka vellíðan sína. Við getum lært mikið af svörum og viðhorfi þeirra. Athyglisvert er að velta fyrir sér hvað vellíðan á efri árum þýði nákvæmlega. Eins og einn viðmælendanna orðaði svo vel:
„En það sem maður upphugsaði sem hamingju þegar maður var fertugur, er það svo hamingja sem maður velur þegar maður verður 75 ára?”
Höfundur greinarinnar er með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði og gegnir starfi framkvæmdastjóra Þekkingarmiðlunar, ingrid@thekkingarmidlun.is.