Í lok febrúar kynnti félagsmálaráðuneytið skýrslu um lífskjör og fátækt barna á Íslandi árin 2004-2016. Niðurstaða er sú að þrátt fyrir að staða barna á Íslandi sé almennt góð þá er bág fjárhagsstaða barna einstæðra foreldra og öryrkja áhyggjuefni. Stefna eða stefnuleysi stjórnvalda er einnig áhyggjuefni. Skýrsluhöfundur telur að ekkert bendi til þess í aðgerðum ríkisstjórna í kjölfar efnahagshrunsins að það hafi verið sérstök áhersla á að vernda börn á Íslandi fyrir áhrifum kreppunnar né heldur að það hafi verið reynt að bæta lífskjör barna þegar hagur þjóðarbúsins fór að vænkast. Dæmi um það sé aðgerðarleysi á húsnæðismarkaði sem hefur haft veruleg áhrif á lífskjör barna, sérstaklega barna einstæðra foreldra og öryrkja. Einfaldasta leiðin til að bæta lífskjör þeirra barna sem standa fjárhagslega verst í þjóðfélaginu er að bæta kjör foreldra þeirra, bæta kjör öryrkja og einstæðra foreldra.
Afnám krónu á móti krónu skerðinga öryrkja hefur verið í umræðunni um nokkurt skeið. Talsmenn örorkulífeyrisþega hafa lagt fram skýra kröfu um afnám þeirra í aðdraganda síðastliðinna alþingiskosninga. Eins og með svo margt annað, þá lofuðu frambjóðendur allra flokka að þetta mikla óréttlæti yrði fært til betri vegar.
Það að afnema krónu á móti krónu skerðingar er meira en sjálfsagt réttindamál, það er fullkomlega rökrétt skref ef markmiðið er að aðstoða öryrkja við að hlúa að heilsu sinni og mögulega komast aftur á vinnumarkaðinn. Krónu á móti krónu skerðingar gera það að verkum að einstaklingar sem búa við hana festast í fátæktargildru - Hver einasta króna sem þeir afla sér í tekjur skerðir aðrar tekjur þeirra. Einstaklingur sem hefur takmarkaða getu til að taka þátt í vinnumarkaði en vill þó leggja sitt af mörkum hefur þannig engan hag af því. Vanmátturinn og streitan sem fylgir því að missa alla stjórn á lífi sínu, vera upp á skilyrta lágmarks ölmusu ríkisins komin hindrar bata og stuðlar í versta falli að frekari heilsumissi. Afnám krónu á móti krónu skerðinga felur í sér valdeflingu einstaklingsins til að feta sig inn á vinnumarkaðinn á þann hátt og þeim hraða sem hentar hverjum og einum.
Þingmál Pírata um afnám krónu á móti krónu skerðinga fór í 1. umræðu á Alþingi 24. september 2018 og var að henni lokinni sent til velferðarnefndar til umfjöllunar. Þegar nefndir hafa lokið umfjöllun sinni um einstaka þingmál er þeim alla jafna vísað til 2. umræðu, svo að halda megi áfram vinnu með málið. Vinnu velferðarnefndar um málið lauk í desember 2018 og lagði ég til að málið yrði afgreitt úr nefnd. Meirihluti nefndarinnar felldi tillöguna með vísan til þess að afnám krónu á móti krónu skerðinga væri í vinnslu í velferðarráðuneytinu, að sú vinna væri á lokastigum og samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu myndi viðkomandi starfshópur skila tillögum sínum á næstu vikum. Því væri ekki tímabært að taka málið úr nefnd. Þessi bókun meirihluta nefndarinnar var gerð þann 10. desember og eru því rúmir þrír mánuðir síðan. Ekkert bólar þó á tillögunum sem vísað var til.
Í íslenskri stjórnskipan fer Alþingi með löggjafarvaldið - valdið til að setja lög og valdið til að breyta lögum. Valdið til að breyta lögum um almannatryggingar og afnema krónu á móti krónu skerðingar er að fullu í höndum Alþingis. Það má því alveg velta því upp á hverju neitun meirihluta velferðarnefndar á því að afgreiða málið úr nefnd byggi. Ekki hefur hann kallað eftir eða rekið á eftir tillögum starfshópsins og hann virðist að öllu leyti sáttur með að málið sé nú fast í nefnd. Orðræða félags- og barnamálaráðherra um málið virðist benda til þess að ríkisstjórnin ætli að standa fast á því að ekkert verði gert varðandi krónu á móti krónu skerðingar nema samhliða innleiðingu á hinu margumrædda starfsgetumati. Staðreyndin er þó sú að engin samstaða ríkir á milli hagsmunaaðila og ríkisstjórnarinnar um hvernig starfsgetumati skuli háttað og það er enn langt í land varðandi lausn í þeim efnum. Svo virðist sem að örorkulífeyrisþegar muni fá að bíða áfram eftir réttlætinu.
Biðin bendir til þess að stjórnvöld sjá ekki þann ávinning sem felst í því að valdefla einstaklinga með því að tryggja efnahagsleg og félagsleg réttindi þeirra og skapa þannig raunverulegt frelsi og svigrúm fyrir fólk til að lifa á sínum eigin forsendum. Starfsgetumatið er svipan á meðan að afnám krónu á móti krónu skerðinga er hvatinn, fjárfesting í verðmætum mannauð.
Fulltrúar allra flokka sem eiga sæti á Alþingi hafa talað fyrir afnámi krónu á móti krónu skerðinga, eins og sjá má í myndbandi sem Öryrkjabandalagið tók saman. Nú þegar slíkt frumvarp liggur tilbúið til afgreiðslu úr velferðarnefnd er meirihlutinn hins vegar ekki tilbúinn að afgreiða það. Flokkarnir sem standa að meirihlutasamstarfinu eru ekki tilbúnir til að fá málið inn í þingsal, að ræða um það og þurfa að greiða atkvæði um það. Því þannig myndu þeir svíkja þau loforð sem þau gáfu öryrkjum í aðdraganda kosninga.
Höfundur er þingkona Pírata og formaður velferðarnefndar Alþingis.