Mörgum brá í brún við lestur hatursfullra athugasemda á íslenskum vefmiðlum við fréttir af fjöldamorðum í bænahúsi múslima í Christchurch. Á sama tíma flúðu hælisleitendur af Austurvelli, þar sem þeir höfðu mótmælt í nokkra daga ómannúðlegri meðferð stjórnvalda, en mætt ofbeldisfullum og tilefnislausum aðgerðum lögreglu og aðför rasista í kjölfarið. Þeir voru ekki lengur öruggir þar, standandi fyrir framan styttu þjóðhetjunnar, mótmælandans Jóns Sigurðssonar.
Þingmaðurinn Smári McCarthy sagði í færslu á Facebook að sér væri brugðið, það kæmi honum á óvart hversu útbreitt útlendingahatur væri á Íslandi. Hann sagðist óttast ofbeldi gagnvart þessum ágætu mönnum sem flúðu af Austurvelli öryggi síns vegna, og að hann óttaðist að einhver af þeim sem hefði tekið þátt í hatursorðræðunni væri mögulega tilbúinn að feta í fótspor ódæðismannanna í Christchurch og Utøya. Ég deili þessum ótta, en þessi staða kemur mér ekki á óvart. Á Íslandi býr ekkert öðruvísi fólk en í Nýja Sjálandi eða í Noregi.
Hatur er aldrei ný og fersk hugmynd einstaklinga, heldur afleiðing viðtekinna viðhorfa og afstöðu þeirra sem telja sig í réttmætri og réttlætanlegri forréttindastöðu gagnvart jaðarhópum. Það getur kraumað undir yfirborði samfélaga, en verður fyrst hættulegt þegar hatursorðræðan er réttlætt og gerð réttmæt. Þegar hún fær viðurkenningu og rými á opinberum vettvangi fær hún tækifæri á að nærast og safna fylgjendum. Þaðan er þeim beint inn á lokaða vefi og inn í samfélagshópa þar sem innræting getur átt sér stað í friði. Tilhneigingin er sú að stilla jaðarhópum upp hvorum á móti öðrum í þeim tilgangi að ala á hugmyndinni um samkeppni um opinbera aðstoð. Þunga áherslu verður að leggja á að þjónusta við, eða skortur á þjónustu, eins hóps verði ekki notuð sem afsökun eða ástæða fyrir mannréttindabrotum gagnvart öðrum hópum. Og sjaldnast eru það jaðarhóparnir sem beita þessari réttlætingu, heldur áhrifa- og valdafólk utan þeirra.
Getur verið að aðstæður hafi breyst hér á landi? Hvers vegna er fólk fullt af andúð í garð hælisleitenda og flóttamanna og tilbúið nú til að fella grímuna og kalla eftir morðum á saklausu fólki, jafnvel eldri konur og umhyggjusamar ömmur, eins og Illugi Jökulsson benti á í áhrifamikilli grein í Stundinni fyrir skömmu?
Við höfum farið yfir strik og við komumst ekki til baka.
Opinbert ofbeldi
Tilefnislausa ofbeldið sem lögreglan beitti friðsama og óvopnaða hælisleitendur á Austurvelli um daginn er hættulegt fordæmi og gefur öðru ofbeldi réttmæti. Það blasir við okkur á hverjum degi að stefna stjórnvalda í málefnum hælisleitenda og flóttafólks er ómannúðleg og grimm, jafnvel þegar börn eiga í hlut. Ég hef ekki gleymt drengnum sem stóð í dyragættinni með bangsann sinn í hendi, horfandi út í myrkrið, eða fötluðum feðginum sem vísa átti úr landi, og nú síðast barni í Hagaskóla sem á að vísa á göturnar í Afganistan. Jú, dæmi er um að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið snúið við, en ofbeldið hefur átt sér stað. Margir aðrir hafa ekki átt rödd í baráttunni gegn brottvísun, ég nefni dæmið um leikskólastarfsmanninn sem nýlega var rifinn frá börnum hér á landi og sendur út í fullkomna óvissu. Ég les um marga skjólstæðinga Toshiki Toma, fólkið sem á ekki möguleika. Ofbeldið er sýnilegt, áþreifanlegt, réttlætt og gert réttmætt með aðgerðum stjórnvalda. Það beinist ekki bara að þeim sem hafa verið gerðir brottrækir úr íslensku samfélagi, heldur situr það einnig eftir í vitund okkar allra, veldur óöryggi og sorg, - og það nærir og réttlætir hatur.
Það verður að skapa aðra leið, við þurfum á fólki að halda og flóttamönnum er ekkert að fækka í heiminum.
Yfirburðaþjóðin
Það urðu kaflaskil hér á landi í október þegar nýtt frumvarp um þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu var kynnt með þeim orðum að nú þyrftu jaðarsettir einstaklingar að umbera meira af henni. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð með þessari orðræðu og vítavert af þeim að gefa þessi skilaboð til að byrja með. Verði frumvarpið að lögum verður nær ómögulegt að sækja fólk til saka fyrir hatursfull ummæli. Fyrirvararnir eru þannig úr garði gerðir að tilmæli Ráðherranefndar Evrópuráðsins um hatursáróður eða hatursorðræðu (nr. R(97)20) verða gerð fullkomlega bitlaus. Þrengingin skerðir þannig möguleika okkar sem samfélags á að finna hvar mörk tjáningarfrelsis og hatursorðræðu eiga að liggja.
Það er óskiljanlegt hvers vegna þrengja þarf skilgreiningu hatursorðræðu í íslenskri löggjöf. Engar samfélagslegar ástæður liggja þar að baki. Frumvarpið gengur langtum lengra en lög á Norðurlöndunum gera. Eina ástæðan sem er gefin, er að Alþingi samþykkti skömmu eftir hrun ályktun um fela ríkisstjórninni það verkefni að leita leiða til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og útgáfufrelsis. Ég verð að segja að ég missti af þessari ályktun Alþingis á sínum tíma, en þó ég styðji heilshugar mikilvægar umbætur á löggjöf um tjáningar- og útgáfufrelsi, þá fer óneitanlega um mann hrollur að minnast þess að yfirburðaþjóðin ætlaði að skapa sér sérstöðu sem alþjóðleg fjármálamiðstöð á sínum tíma. Nú trúum við að hér búi yfirburðaþjóð með sterkari siðferðiskennd en öll önnur þjóðfélög heims þegar kemur að tjáningarfrelsi. Við teljum okkur trú um að við þurfum ekkert á opnum tilmælum Ráðherranefndar Evrópuráðsins að halda, við ætlum bara að skapa okkar eigin viðmið.
Það þarf ekki að koma á óvart að helsti stuðningsaðili þessa frumvarps er Útvarp Saga sem gefur því glimrandi meðmæli í umsögn á vef Alþingis. Gegn þeirri umsögn standa umsagnir fjölda samtaka jaðarhópa sem einróma vara við afleiðingum þess. En því miður, skaðinn er skeður og birtist okkur í því að ónefndum útvarpsstjóra var boðið að sitja í huggulegum umræðu- og skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar á föstudagskvöldi og taka léttan snúning á hatrinu. Við erum komin þangað. Við erum tilbúin til að gefa hatursorðræðu rými, réttmæti og gildi, eins og ekkert sé eðlilegra. Stjórnvöld hafa þannig tekið þátt í að setja almannarýminu ný viðmið um umburðarlyndi með hatri í orðræðu sem við höfum ekki viðurkennt fyrr.
Ábyrgð stjórnmálamanna
Í þriðja lagi þarf að benda á að Klaustursþingmennirnir sitja enn á Alþingi og halda áfram að ala á kúgun gagnvart sendiboðanum sem opinberaði hatursfulla orðræðu þeirra og þeir lítilsvirða þannig áfram þolendur ofbeldisins. Í skjóli Alþingis virðast þeir sitja í sinni friðhelgi og fá að senda sínum fylgismönnum þau skilaboð að þeir komist upp með ofbeldið. Þessir þingmenn eru vafalaust fyrirmynd þeirra sem telja forréttindastöðu sinni ógnað og réttlæta beitingu ofbeldis. Og þeir taka sér dagskrárvaldið.
Ég hef dáðst að framgöngu forsætisráðherra Nýja Sjálands eftir atburðina í Christchurch, og ég hef séð aðra stjórnmálamenn taka leiðtogahlutverk sitt alvarlega t.a.m. í Pittsburgh á síðasta ári þar sem 11 gyðingar voru myrtir í bænahúsi sínu, eða í kirkjunni í Sutherland Springs, Texas, þar sem 26 féllu fyrir hendi morðingja. En íslensk stjórnvöld og stjórnmálamenn virðast ekki skilja þátt sinn í þeim aðstæðum og því umhverfi sem er að skapast um hatursorðræðu hér á landi.
Vaknið! Takið ábyrgð ykkar alvarlega og gangist við henni!
Höfundur er meðlimur í Tabú, femínískri fötlunarhreyfingu.