Þeir eru kallaðir „böðlarnir frá Bosníu“ og saman báru þeir ábyrgð á mestu þjóðernishreinsunum í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þær fóru fram í smábænum Srebrenica í Bosníu á heitum sumardögum árið 1995. Þar voru allt að 8000 karlmenn, allt múslímar, á aldrinum 14-70 ára aðskildir frá konum sínum og mæðrum og leiddir til aftöku í skógunum í kringum bæinn. Af hersveitum Bosníu-Serba.
„Böðlarnir“ eru þeir Ratko Mladic, yfirhershöfðingi hers Bosníu-Serba (Republika Srbska) og Radovan Karadzic, hinn pólitíski leiðtogi Bosníu-Serba. Saman bera þeir ábyrgð á þjóðernishreinsunum, þjóðarmorði og því sem kallast „glæpur gegn mannkyni.“
Þessi fjöldamorð voru hluti af borgarastríði sem geysað hafi í fyrrum lýðveldum Júgósalvíu á árunum 1991-1995, þegar lýðveldi þessa fyrrum sambandsríkis kommúnistaleiðtogans Jósep Tító, lýstu yfir sjálfstæði hvert á fætur öðru. Fyrst Slóvenía, þá Króatía og síðan Bosnía-Hersegóvína.
Þjóðernisöfgar – þjóðernishyggja
Við þetta voru leystir úr læðingi þjóðerniskraftar og öfgahyggja, sem átti eftir að kosta um 150.000 manns lífið. Að stærstum hluta voru þessir kraftar drifnir áfram að serbneskum þjóðernissinnum og leiðtogum á borð við Slobodan Milosevic (forseta Serbíu, lést 2006), sem vildi halda sambandsríkinu saman og stuðla að myndun Stór-Serbíu. Sá hét draumur þjóðernissinnaðra Serba, en í honum fólst að landssvæði Serbíu næði einnig yfir Bosníu.
Þegar Slóvenía og Króatía lýstu yfir sjálfstæði árið 1991, réðist Alþýðuher Júgóslavíu inn í bæði lýðveldin en var hrakinn á brott. Vorið 1992 lýsti Bosnía yfir sjálfstæði og þá braust út stríð þar. Bosnía var fjölmenningarsvæði, þar bjuggu múslímar, Króatar og Serbar hlið við hlið. Múslímar voru tæp 45%, þar á eftir Serbar, um 30%.
Lengsta umsátur á 20.öld
Saga þessa stríðs er gríðarlega flókin og á tímabili má segja að allir hafi barist við alla, en þetta var landvinningastríð. Það dróst á langinn og á tímabili sátu Serbar um höfuðborgina, Sarajevo. Er þetta lengsta umsátur í sögu nútíma hernaðar, lengra en bæði umsátrið um Stalíngrad og Leníngrad í seinni heimsstyrjöld, eða um 1430 dagar. Bosníu-Serbar létu sprengjum rigna yfir Sarajevó og leyniskyttur í fjöllunum í kringum borgina voru afar virkar. Um 14.000 manns létust í umsátrinu.
Sumarið 1995 voru hersveitir Bosníu-Serba í sókn í kringum bæinn Srebrenica, sem liggur að landamærum Serbíu í A-hluta Bosníu. Um 15.000 manns bjuggu í bænum, eða álíka fjöldi og í Reykjanesbæ. Í bænum voru um 300 hollenskir friðargæsluliðar á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem lýst höfðu yfir að bærinn væri „griðarsvæði.“ Því voru margir flóttamenn þar. Í hersveitum Bosníu-Serbar, sem sóttu að bænum voru um 30-40.000 hermenn. Þetta var leikur kattarins að músinni.
Kemur Mladic
Þann 11. júlí 1995 komu Ratko Mladic og hermenn hans inn í bæinn. Í myndbandi gengur Mladic sigri hrósandi inn í bæinn og lýsir því yfir að nú sé hann „serbneskur“ og tími sé kominn til þess að ná fram hefndum gegn „Tyrkjunum“ (múslímunum) og þeim sem hann kallar á myndbandinu „dahis“ - en það merkir glæpamaður á arabísku.
Hollenskir friðargæsluliðar horfðu á allt þetta gerast og höfðu engar heimildir til að bregðast við og sennilegt má þykja að þeir hefði allir fallið, ef þeir hefði lent í bardögum við stríðsvana hermenn Bosníu-Serba. Einnig er er margt sem bendir til þess að í raun hafi verið búið að ákveða að fórna Srebrenica og að ráðamenn á Vesturlöndum hafi verið meðvitaðir um að svona myndi fara. Á þessu myndbandi eru t.d. frásagnir sem styðja við þá skoðun. Þar réðu pólitiskir hagsmunir ferðinni, m.a. komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þeir bera því ef til vil nokkra siðferðilega ábyrgð.
Enginn reiknaði þó með því að á næstu dögum yrðu um 8000 manns hreinlega teknir af lífi og slátrað eins og gripum í kringum Srebrenica. En þannig fór það og í heimildarmyndinni A Cry from the Grave er sagt frá þessum hryllilegu atburðum.
Réttlæti
En smám saman náði réttlætið fram að ganga og bæði Mladic og Kardzic voru handteknir og leiddir fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól í Haag í Hollandi. Þar hefur einnig verið réttað yfir fleirum en þeim og af öðrum þjóðarbrotum, bæði Serbum, Króötum og múslímum. Flestir þeirra sem hafa hinsvegar verið dæmdir eru annaðhvort Serbar eða Bosníu-Serbar.
Radovan Karadzic fór í felur eftir Bosníu-stríðið, en árið 2008 náðist hann. Var hann næstum óþekkjanlegur sökum hvíts alskeggs sem hann hafði látið sér vaxa. Hann var framseldur til Haag, þar sem réttað var yfir honum. Árið 20016 var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi og sakfelldur í 10 af 11 ákæruliðum.
Vorið 2011 var Mladic svo handtekinn, hann einnig í felum. Hann var umsvifalaust færður til Haag, þar sem réttað var yfir honum fram til nóvember 2017. Af 11 ákæruliðum var hann dæmdur sekur í 10 og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Báðir voru dæmdir fyrir glæpi gegn mannkyni.
Þynging dóms
Karadzic áfrýjaði dómnum og því þurfti að halda réttarhöldum áfram. En áfrýjun hans gerði illt verra og komst dómurinn að því að fyrri refsing hefði verið of mild og þyngdi því dóminn. Hann fékk 40 ára fangelsisdóm, en Karadzic er 73 ára gamall.
Réttarhöld sem þessi eru nauðsynleg, þó þau kosti mikla peninga og taki langan tíma. Því það er algert lykilatriði að menn sleppi ekki frá ábyrgð, eftir hafa framið það sem er hin versta tegund af glæp; glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð - og stundað þjóðernishreinsanir án þess að blikna.
Alþjóðasamfélagið verður að vera á varðbergi, því hættan er stöðug og ný dæmi hafa komið til sögunnar, t.d. í Búrma, þar sem skipulega er reynt að útrýma Róhingjum.
Þá eru uppi ótvíræðar vísbendingar að þjóðernisöfgar og stæk þjóðernishyggja grasseri enn víða í kringum okkur og sé afl sem vert er að gjalda varhug við, því neikvæð öfgakennd þjóðernisstefna er eitt hættulegasta „vopnið“ í vopnabúri stjórnmálanna. Hennar gætir nú því miður verulega beggja vegna Atlantshafsins.
Hér er mjög áhugavert myndband, þar sem Ratcko Mladic segist vilja myrða fréttakonu CNN, Christiane Amanpour, sem flutti fréttir af Bosníu-stríðinu. Mladic var og er grimmur og vægðarlaus.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og skrifaði BA-ritgerð sína í Háskóla Íslands, sem bar titilinn Hrun Júgóslavíu.