Hatursorðræða í garð minnihlutahópa á Íslandi hefur að undanförnu farið vaxandi og hún er mun sýnilegri en hún var áður, í raunheimum og sérstaklega á netinu. Það á sérstaklega við um hatursorðræðu í garð fólks á flótta, innflytjenda og múslima en vaxandi hatursorðræða helst í hendur við aukinn fjölda innflytjenda og fólks á flótta. Þrátt fyrir að íslenskt samfélag hafi um tíma verið skilgreint sem fjölmenningarsamfélag, eins og flest nútímasamfélög, virðist hópur fólks ekki geta „aðlagast“ breyttri samfélagsmynd og hefur sér búið til óvin úr útlendingnum, úr múslimanum, úr flóttabarninu. Sumir gera það til þess að auka völd sín, aðrir til þess að standa vörð um „gildin“ sín - sem það framfylgir samt sem áður ekki í framkomu og samskiptum við aðra, enn aðrir gera það fyrir klikk á fréttirnar sínar og sumir einungis til þess að fá útrás fyrir gremju sína og reiði. Allir eiga það sameiginlegt að vera skítsama um hvaða afleiðingar það hefur fyrir annað fólk.
Sumir fjölmiðlar, ákveðnir stjórnmálamenn og konur og sérstakir stjórnmálaflokkar, sem hafa ekkert annað fram að færa en andúð á útlendingum, hafa verið duglegir við að ýta undir hatursorðræðu í íslensku samfélagi. Hið sama á við um embættismenn, kennara og aðra þátttakendur í opinberri umræðu ásamt, að sjálfsögðu, virkum í athugasemdum. Það er mjög alvarlegt þegar ábyrgðaraðilar eins og stjórnmálafólk, fjölmiðlar og opinberir starfsmenn eru þátttakendur í því að breiða út hatursboðskap, þar sem vægi þeirra í opinberri umræðu er mikið, þeir móta umræðuna og hafa áhrif á hvað telst eðlileg umræða, hvað er í lagi og hvar mörkin liggja í samfélagsumræðunni. Það er því áhyggjuefni þegar þeir eru orðnir þátttakendur í að normalísera hatursorðræðu, en eitt skref í því ferli er til dæmis að þrengja lög um hatursorðræðu á meðan flest þau ríki sem við berum okkur saman við hafa hrint af stað aðgerðum til þess að sporna gegn vaxandi hatursorðræðu og senda skýr skilaboð um að hún sé ekki liðin með því að láta þá sem taka þátt í henni takast á við afleiðingarnar af því.
Hatursorðræða er afleiðing af brenglaðri umræðu sem byggir oftar en ekki á hræðsluáróðri, lygum og málflutningi sem er sérstaklega ætlaður til þess að ýta undir ótta, fordóma og hatur. Það er því yfirleitt fátt annað en órökstuddur ótti, hatur byggt á lygum og skortur á upplýsingum sem býr að baki þeim fordómum sem búa til hatursorðræðuna. Hatursorðræða er samt sem áður stórhættulegt samfélagsmein sem á aldrei að líðast. Hatursorðræða getur haft hrikalegar afleiðingar, jafnt fyrir einstaklinga og hópa fólks, ef hún fær að standa óáreitt. Hatursorðræða hefur áhrif á og grefur undan rétti einstaklinga til jafnréttis, hún ýtir undir mismunun á meðal fólks og hún elur á sundrungu á meðal samfélagshópa. Þar að auki er hún notuð til þess að niðurlægja hópa fólks sem og einstaklinga, gera lítið úr persónu þeirra og brjóta þá niður.
Hatursorðræða er yfirleitt undanfari hatursglæpa, sem segja má að sé næsta skrefið í ferlinu sem hefst á því að fólk fyllist fordómum og þrói með sér hatur gagnvart öðrum einstaklingum og hópum fólks. Hatursorðræða ýtir undir og hvetur til frekara ofbeldis. Slík ummæli má oft finna á athugasemdakerfum fréttamiðlanna og hafa sum verið svo alvarleg að þau hafa verið tilkynnt til lögreglu. Í örfáum tilfellum hafa einstaklingar verið dæmdir fyrir slíka hatursorðræðu. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að fáein orð á samfélagsmiðlum geta haft mikil áhrif á einstaklinga þar sem það getur kveikt hugmynd eða sáð fræi í huga þeirra sem mögulega ganga þegar með einhverjar skaðvænlegar hugmyndir í kollinum. Þegar slíkir einstaklingar koma síðan saman, hvort sem það er í stjórnmálaflokki eða „umræðuhópum“ á netinu og fara að ýta undir hatur, öfgar og ofbeldi er oft stutt í hatursglæpina, eins og hryðjuverkin á Nýja-Sjálandi eru nýjasta dæmið um, en sýnt hefur verið fram á að hatur á netinu var undanfari hryðjuverkanna á Nýja-Sjálandi. Önnur dæmi eru hryðjuverkin í Noregi árið 2011, morðið á bresku þingkonunni Jo Cox árið 2016 og árásir á moskur í Evrópu.
Ítrekað hefur verið varað við hættunni af því að hatursorðræða fái að vaxa í íslensku samfélagi og standa óáreitt. Ekki erum marga einstaklinga að ræða enda verða hinir sömu fyrir vikið að sjálfsögðu skotmörk þeirra sem vilja fá að spúa hatri og öfgum óáreitt. Upp hafa komið tilfelli öðru hvoru í samfélaginu þar sem fólk sammælist um að hatursorðræða eigi ekkert erindi í íslenskt samfélag og ekki mega gera hana að einhverjum eðlilegum hlut. Svo heldur lífið bara áfram og eftir standa þessir fáu einstaklingar sem endurtaka sig í sífellu og eru eflaust farnir að hljóma eins og rispaðar plötur. Flestir fría sig frá hinni samfélagslegu ábyrgð sem við berum öll með því að benda á að „þetta sé svo lítill hópur,“ „það tekur enginn mark á þeim,“ „þeir skipta engu máli.“
Nú er hins vegar komið að tímamótum í íslensku samfélagi.
Nú er komið að næsta skrefi í ferlinu. Þessar „örfáu hræður,“ íslenskir þjóðernissinnar, rasistar og öfgafólk sem „enginn tekur mark á og skipta ekki máli“ sem hafa rottað sig saman í ræsi internetsins um tíma, dreift hatursorðræðu víða um netið, áreitt fólk og staðið fyrir mótmælum gagnvart fólki á flótta – eins ógeðslegt og það er – undirbúa sig nú undir að fá kennslu í vopnaburði sem þau segja sjálf í viðtali við Stundina að sé „til að verjast straumi innflytjenda sem hingað koma,“ til þess að „læra að verja sig ef til átaka kemur vegna straums innflytjenda og flóttamanna til landsins,“ „til þess að búa sig undir yfirtöku íslams.“ Einn viðmælandi blaðsins segist almennt ekki vera hlynnt skotvopnum, þótt hún sé tilbúin til að nota þau á innflytjendur. Þessa þjálfun ætla meðlimir íslensku þjóðfylkingarinnar og annarra jafn ógeðfelldra samtaka sem bera út hatur gegn innflytjendum, fólki á flótta og múslimum að fá frá samtökum sem heita European Security Academy og hafa meðal annars þjálfað „sveitir“ úkraínskra öfga-þjóðernissinna í að nota vopnVið vitum nefnilega öll hvert næsta skrefið í þessu ferli er.
Það er núna sem við ákveðum sem samfélag hvaða leið við ætlum að fara. Ætlum við, hvort sem við erum fjölmiðlafólk, stjórnmálafólk, embættismenn eða almennir borgarar að láta þetta viðgangast? Ætlum við að normalísera hatursorðræðu með því að halda áfram að dreifa henni, senda óskýr skilaboð og gera fátt annað en að þrengja ákvæði laga um hatursorðræðu og láta íslenska öfgamenn vopnast? Eða ætlum við að taka skýra afstöðu gegn fordómum og hatri, gegn hatursorðræðu og koma í veg fyrir að hatursglæpir fari að færast í aukarnar hér, að mismunun ákveðinna hópa festist í sessi og mismunandi hópar fólks geti ekki búið í sátt og samlyndi. Við berum öll ábyrgð sem þegnar í þessu samfélagi. Það er undir okkur komið hvernig samfélagið okkar er og hvert það stefnir. Nú, sem aldrei fyrr er mikilvægt að við tökum skýra afstöðu gegn hatursorðræðu og þegjum ekki þegar íslenskir öfgasinnar vopnast. Það eru nefnilega þeir sem eru hættulegir, þeir sem spúa hatri og öfgum og eru tilbúnir til þess að grípa til vopna, en ekki þeir sem þeir telja sig þurfa að berjast gegn.