„Mamma fer alveg að koma, mamma fer alveg að verða búin í vinnunni, vittu til,“ sögðu leikskólakennararnir hughreystandi við litlu grátandi stúlkuna á leikskólanum Smábæ í Hrísey. Hún var í eðli sínu þrjósk og ekki tilbúin að trúa hverju sem er (hvorki þá né í dag) en Erna og Fríða með sinni einstöku hlýju og umhyggju gáfu stúlkunni það hald og traust sem slíkar sálir þurfa.
Litla stúlkan flutti frá eyjunni sinni og Sigrún Ásmunds umsjónarkennari tók á móti henni í 2. bekk í Síðuskóla og allt í einu var stúlkan farin að leika skólaleiki í frítíma. Margrét Baldvins var sáttasemjarinn þegar kom að stríðsástandi sem ríkti á heimili stúlkunnar þegar stærðfræðin gekk ekki upp. Helga Lyngdal og Tobba stóðu sig eins og hetjur á miðstigi þegar þurfti að takast á við erfiðan hugarheim litlu stúlkunnar og vinkvennanna sem töldu heiminn vera að hrynja þegar þær fengu ekki að vera allar í sama bekknum. Fríða frænka, heimilisfræðikennari fyrirgaf brussunni alltaf og kenndi henni dýrmæt handtök í eldhúsinu og þolinmæði Gulla smíðakennara var aðdáunarverð. Á unglingastigi beið litlu stúlkunnar nýr heimur.
Sigga og Siggu beið ærið verkefni þegar þau tóku á móti 8. bekk og vá, hvað það voru skemmtileg ár sem tóku við. Metnaðarfull og umhyggjusöm, héldu þau fast utan um hópinn. Bibbi kveikti áhuga litlu stúlkunnar á alþjóðasamskiptum og samstarfi og gaf henni dýrmæta reynslu þegar hún fékk að fara til Rómar í námsferð í 9. bekk. Danska sem átti víst að vera leiðinlegt fag, var skemmtileg með Kristínu List og Sonju. Björk hvatti litlu stúlkuna áfram í enskunni og Hrefna Frímann leiddi hana í gegn um stærðfræðina sem var oft ansi erfið. Siggi var ákveðinn og metnaðarfullur og gerði náttúrufræði allt í einu skemmtilega. Með Siggu Jóh var svo allt skemmtilegt og gerlegt, enda metnaðarfull og með óbilandi trú á litlu stúlkunni. Það sama á við um Sigrúnu Sig sem kvaddi litlu stúlkuna með fallegum orðum þegar hún hélt út í lífið, þessi orð hafa fylgt henni síðan.
Litla stúlkan fylgdi hefðum föðurfjölskyldunnar og fór í Menntaskólann á Akureyri. Þar kveiktu Linda og Bjarni Guðmunds nýjan áhuga stúlkunnar á sálfræði og þegar Linda leiðbeindi henni í lokaverkefni, breyttist allt. Hildur Hauks gerði enskuna einstaka, Logi Ásbjörns kveikti áhugann á kynjafræði og ef það hefði ekki verið fyrir Einar Sigtryggs hefði litla stúlkan aldrei náð stærðfræðinni. Með Einari Brynjólfs fóru stjórnmál að vera áhugamál og með Bjössa Viff varð saga skemmtileg. Jónasi Helga tók svo að gera það sem hafði alltaf verið svo leiðinlegt og erfitt, áhugavert og hvetjandi. Áhugi og metnaður Eyrúnar Huldar í íslensku gerði það að verkum að litla stúlkan hefur lagt mikla áherslu á íslenskukennslu í námi sínu.
Litla stúlkan er ég, meistaranemi í menntunarfræðum við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Ég er ekki einsdæmi. Langflestir muna eftir sínum áhrifavöldum og þar eru kennarar ofarlega á lista. Þessi listi hér að ofan er þó alls ekki tæmandi og á hann vantar nokkur nöfn. En hann sýnir þó hvers vegna ég valdi kennarafræði. Ef það hefði ekki verið fyrir alla þessa mögnuðu og metnaðarfullu kennara, hefði ég aldrei skráð mig í kennarafræði. Þessir einstaklingar eiga það allt sameiginlegt að hafa haft mikil áhrif á mitt líf. Með ólíkum hætti hafa þeir allir haft áhrif á það hvar ég er í dag og hvernig ég horfi á lífið. Ef þú vilt raunverulega hafa áhrif á samfélagið, er kennarastarfið, rétta starfið fyrir þig. Komdu að kenna.
Höfundur er formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri og meistaranemi í menntunarfræðum við kennaradeild HA.