Fjórða iðnbyltingin mun gjörbreyta flestum atvinnugreinum. Störf breytast, hverfa og ný verða til. Breytt færni hefur í för með sér breytt skipulag atvinnulífs, hvorki meira né minna. Einhverjar starfsstéttir taka þó minni breytingum en aðrar, en fá nýja tækni inn í starfsumhverfi sitt með beinum eða óbeinum hætti. Ein þessara stétta eru kennarar, en spáð hefur verið að starf þeirra taki hvað minnstum breytingum.
Í nýútkominni skýrslu nefndar á vegum forsætisráðuneytisins, Ísland og fjórða iðnbyltingin, er farið yfir mögulega þýðingu fjórðu iðnbyltingarinnar á öll störf, m.a. kennarastarfið. Þar er fjallað um mikilvægi þess að skoða þá þætti þar sem tækni getur bætt starfsaðstöðu fólks til muna og aukið velferð á vinnustað. Slík markmið sé nauðsynlegt að ræða þegar fjallað er um uppbrot á vinnumarkaði vegna tæknibreytinga. Hin svokallaða sjálfvirknivæðing mun hafa í för með sér ákveðna hagræðingu.
Til þess að kennarastarfið standist þá samkeppni sem verður um vel menntað starfsfólk í heimi hinna öru tæknibreytinga verða vinnuveitendurnir, þ.e. sveitarfélögin, að taka þau skref sem hægt er að taka í þágu tækni og aukinnar velferðar á vinnustað. Einfaldara aðgengi að alls kyns þjónustu er liður í því sem og að rafrænum kerfum, sem ætlað er að halda utan um viðamikið starf kennarans. Sveitarfélögin verða að huga að sínum mannauði þegar áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar eru metin. Lykill að velferð hvers sveitarfélags er mannauðurinn og hann skapast ekki án góðrar undirstöðu, sem er menntunin.
Fjárfest í framtíðinni
Ákvarðanir sveitarstjórna um fjárfestingu hafa bein áhrif á starfsumhverfi. Sveitarstjórnir verða að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að sporna við afturför í starfsumhverfi kennara. Skólakerfið má ekki dragast aftur úr en það gerist og gerist mjög hratt ef tæknin skilar sér ekki inn í starf kennarans eins og öll önnur störf. Það skiptir mestu að hlúa vel að störfunum, sem aldrei munu hverfa.
Ég legg fram tillögu í bæjarstjórn Garðabæjar um að mæta framtíðinni, bæta velferð og efla starfsumhverfi kennara sérstaklega með því að undirbúa innleiðingu rafræns kerfis. Kerfis sem auðveldar kennurum/skólum að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda byggt á hæfni þeirra og námsgetu. Með innleiðingu slíks kerfis má einfalda utanumhald gagna, upplýsingagjöf til nemenda og fá um leið góða yfirsýn yfir námsframvindu.
Við í Garðabæjarlistanum viljum að bæjarstjórn Garðabæjar geri það sem í hennar valdi stendur til þess að styrkja skólakerfið okkar og standa fremst meðal þjóða.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans.