Fyrir nokkrum árum buðu bresk stjórnvöld geysihátt verð fyrir nýja endurnýjanlega raforku inn á breska raforkumarkaðinn. Þar á meðal voru samningar við vindorkuver utan við bresku ströndina, þar sem raforkuframleiðendunum var tryggt lágmarksverð á bilinu 114-120 GBP/MWst, sem jafngildir um 150 USD á núverandi gengi. Til samanburðar má hafa í huga að samkvæmt síðustu ársskýrslu Landsvirkjunar var meðalverð á orku fyrirtækisins í almennri heildsölu árið 2018 um 43 USD/MWst og meðalverð til stórnotenda nálægt 28 USD/MWst.
Þetta háa verð sem bresk stjórnvöld buðu, til að auka framboð endurnýjanlegrar orku í Bretlandi, skapaði áhugaverð tækifæri fyrir Ísland til að selja raforku um sæstreng. Þarna var möguleiki á að snarauka tekjur Landsvirkjunar og um leið auka mjög arðgreiðslur til eiganda fyrirtækisins, sem er íslenska ríkið. Nokkrar þreifingar áttu sér stað um slíkt verkefni milli breskra og íslenskra stjórnvalda. En í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit sumarið 2016 virðist hafa fjarað undan þeim athugunum.
Kannski munu íslensk og bresk stjórnvöld á ný leggja aukinn þunga á sæstrengsverkefnið. En þá er nánast víst að dregið hefur úr þeim möguleika að bresk stjórnvöld yrðu reiðubúin að tryggja þar svo há verð sem samið var um vegna nýrra grænna orkuverkefna fyrir 2016. Á allra síðustu árum hefur nefnilega orðið geysileg kostnaðarlækkun í vindorkutækninni og þar með er viðmiðunarverð nýrrar raforku frá endurnýjanlegum auðlindum mjög breytt frá því sem áður var. Í þessari grein er útskýrt hvernig lækkandi verð á vindorku hefur breytt viðskiptalegum forsendum sæstrengs og dregið úr líkum á því að slíkt verkefni verði að veruleika á næstu árum.
Nýjar hefðbundnar íslenskar virkjanir þurfa um 40-45 USD/MWst
Í dag stefnir raforkuverð í almennri heildsölu á Íslandi í um 45 USD/MWst. Þar skiptir hvað mestu að raforkufyrirtækin hér þurfa nálægt þessu verði til að geta reist nýjar virkjanir. Að vísu verður eflaust unnt að virkja hér vind með eitthvað lægri tilkostnaði. En grunnafl í formi vatnsafls og jarðhitavirkjana verður dýrara og oft sem nemur um 45 USD/MWst.
Þess vegna er líklegt að raforkuverð hér fari senn að nálgast 45 USD/MWst í heildsölu (þó svo stóriðjan muni áfram njóta lægra verðs frá virkjunum sem eru vel á veg komnar með að verða upp greiddar). Umrætt verð upp á um 45 USD/MWst er vel að merkja ekki mikið hærra en núverandi heildsöluverð hér, sem að meðaltali var um 43 USD/MWst árið 2018.
Án nýrra virkjana verður raforkuverðið hærra
Þetta umrædda verð, þ.e. 45 USD/MWst, er sem sagt sú upphæð sem heildsöluverð raforku á almenna markaðnum á Íslandi stefnir líklega í. Af þeirri einföldu ástæðu að þetta er u.þ.b. það verð sem nýjar grunnaflsvirkjanir hér þurfa til að verða byggðar (til að borga sig). Verði engin slík virkjun byggð á næstunni, svo sem vegna þess að raforkuverð verði of lágt til að réttlæta fjárfestinguna, kemur senn að því að framboð raforku mun ekki geta mætt eftirspurninni. Þá gæti raforkuverðið hér hækkað ennþá meira.
Líklegast er samt að þarna myndist jafnvægi, þ.a. að hér verði ávallt til staðar næg raforka á eðlilegu eða viðunandi verði. Á almennna markaðnum gæti heildsöluverðið haldist á bilinu 40-45 USD/MWst í þó nokkur ár. Eðli málsins samkvæmt er þetta verð einungis sett hér fram sem viðmiðun, því almenna verðið er í íslenskum krónum og gengið sveiflast jú töluvert. En þegar horft er nokkur ár fram í tímann má sem sagt líklega gera ráð fyrir einhverri hækkun á heildsöluverði raforku frá því sem nú er, en þó hóflegri.
Lágmarksverð um sæstreng til Bretlands um 85 USD/MWst?
Fróðlegt er að bera raforkuverðið hér saman við það orkuverð sem myndi þurfa til að það borgaði sig að flytja út raforku um sæstreng til Bretlands. Eðlilegt er að ganga út frá því að Bretar gætu ekki fengið hér raforku á lægra meðalverði en um 45 USD/MWst. Þetta verð er vel að merkja hugsað sem algert lágmark á meðalverði rafmagns til Breta. Í reynd yrði hér líklega lítill áhugi á að selja Bretum rafmagn nema á talsvert hærra verði. En það er önnur saga. Hér í þessari grein miðum við við 45 USD/MWst sem lágmark.
Svo þarf að bæta flutningskostnaðinum til Bretlands við. Slíkur kostnaður hér innanlands yrði sennilega nálægt 5 USD/MWst. Og kostnaður vegna flutnings um sæstrenginn yrði mögulega um 35 USD/MWst. Þar með þyrftu Bretar að greiða um 85 USD/MWst til að fá íslenska raforku að Bretlandsströndum. Það hvort áhugi væri á að selja Bretum raforku á slíku meðalverði er óvíst.
Ódýr erlend vindorka dregur úr áhuga á sæstreng
Til samanburðar er rétt að hafa í huga að nú er orðið unnt að virkja vind í sjó, á góðum svæðum, fyrir upphæð sem er mun lægri en umræddir 85 USD/MWst. Í nýjum greiningum sínum segir Lazard að kostnaðurinn þarna fari nú svo langt niður sem 62 USD/MWst. Og það eru reyndar nú þegar dæmi um að kostnaðurinn sé kominn niður í um 50 EUR/MWst, sem jafngildir um 56 USD/MWst á núverandi gengi
Það eru ekki mörg ár síðan að slíkur kostnaður, þ.e. vegna vindorku utan við ströndina, var langtum meiri. Og þá var verðbilið vegna íslenskrar raforku annars vegar og nýrra svona vindorkuverkefna hins vegar, miklu meira en er í dag. Sá mikli verðmunur er sem sagt að fjara út.
Lækkandi kostnaður í vindorkutækninni veldur því m.a. að nú eru að rísa vindmyllugarðar utan við strönd Evrópu sem þurfa ekki neinar niðurgreiðslur eða annan fjárstuðning og munu keppa alfarið á markaðsgrundvelli. Það er þessi þróun sem er mikilvægasta ástæða þess að nú kann að vera orðið ólíklegra en var, að sæstrengur milli Íslands og Evrópu verði að raunveruleika. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr.
Vindorka utan við strendur Evrópu á 45 USD/MWst?
Við þetta bætist að ennþá er hröð þróun í vindorkutækninni. Í dag eru vindmyllufyrirtæki eins og Vestas, Siemens-Gamesa og General Electric að byrja að framleiða ennþá stærri vindmyllur, sem munu skila ennþá ódýrari vindorku. Þar eru nefndar tölur í nágrenni við 60 EUR/MWst (um 67 USD/MWst) og í sumum tilvikum jafnvel svo langt niður sem 40 EUR/MWst (sem jafngildir einungis um 45 USD/MWst). Það eru því horfur á að þessi tegund raforkuframleiðslu geti brátt þrifist vel á svæðum þar sem heildsöluverð á rafmagni er lítið hærra en nú er á Íslandi. Þess vegna gæti orðið snúið að ætla að bæta flutningskostnaði um sæstreng ofan á íslenska raforkuverðið (hvort sem er til Bretlands eða meginlands Evrópu).
Sæstrengsverkefni ólíklegra en var
Í dag eru sem sagt reistir vindmyllugarðar utan við ströndina sem eru svo ódýrir að raforka flutt frá Íslandi yrði langt frá því að vera eins samkeppnishæf eins og leit út fyrir að orðið gæti fyrir einungis fáeinum árum. Þar með má kannski segja að hugmyndin um sæstreng hafi fjarlægst Ísland. Það er samt ennþá fjárhagslega raunhæf hugmynd að eiga viðskipti með toppafl, þ.e. nýta sveigjanlegt afl og umframorku til að flytja út raforku þegar verðið handan strengsins er hátt. Um leið gæfi sæstrengur færi á því að flytja raforku inn til Íslands þegar verðið handan strengsins er lágt.
Slíkt verkefni er þó flóknara eða a.m.k. áhættusamara en ef t.d. bresk stjórnvöld myndu ætíð ábyrgjast lágmarksverð fyrir íslenska rafmagnið. Vandséð er hver væri til í að taka fjárhagslegu áhættuna af svona sæstrengsverkefni ef hvorki bresk stjórnvöld né aðrir ámóta myndu tryggja slíkt lágmarksverð og þar með viðunandi arðsemi af sæstrengnum.
Svo má hafa í huga að s.k. þriðji orkupakki hefur þarna engin áhrif. Þær reglur fela hvorki í sér skyldur til að leggja sæstrengi né takmarka þær rétt ríkja til að ráða eignarhaldi á sæstrengjum eða virkjunum. Það sem þarf að huga að í tengslum við hagsmuni Íslands vegna raforkukerfisins, er fyrst og fremst arðsemin á slíkum kapli eða köplum, verði slíkir sæstrengir lagðir e.h.t. í framtíðinni. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld ráði arðsemi slíkra kapla. Það mætti t.d. gera með sambærilegum hætti eins og gildir um sæstrengi og gaslagnir Norðmanna til Bretlands og meginlandsins.
Næstu 20 ár: Íslensk vindorka hagkvæmasti kosturinn og sæstrengur ólíklegur
Einmitt vegna þeirrar þróunar í vindorkunni, sem hér hefur verið lýst, er líklegt að hér á Íslandi fari brátt að minnka áhugi orkufyrirtækja á að reisa fleiri vatnsaflsvirkjanir og þó enn frekar dýrar jarðvarmavirkjanir. Þess í stað má búast við því að nú munu sjónir orkufyrirtækjanna beinast að íslenskri vindorku. Og að virkjun vindsins á Íslandi muni að einhverju og jafnvel umtalsverðu leyti uppfylla vaxandi raforkueftirspurn hér. Það yrði að öllum líkindum hagkvæmasta leiðin. Sé horft til næstu u.þ.b. 10-20 ára virðist því skynsamlegast að mæta aukinni raforkuþörf hér með vindmyllum. Og það virðist ólíklegt að sæstrengur verði að raunveruleika á þessu tímabili.
Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnur m.a. að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt vindorkufyrirtæki.