Starf á leikskólum er gefandi starf sem færir manni ný ævintýri á hverjum degi þar sem enginn dagur er eins. Börn eru sannir gleðigjafar og sýna manni alltaf hvernig þeim raunverulega líður hverju sinni. Þau eru hreinskilin og sjá heiminn með aðeins öðruvísi augum en við sem erum fullorðin. Þessi staðreynd gerir það að verkum að starfið er áhugavert, skemmtilegt, krefjandi og stundum erfitt. Starfið gefur af sér stundir og atvik sem lifa með manni í minningarbankanum og gleðja.
Starf á leikskólum er eins og áður sagði skemmtilegt og krefjandi í bland, verkefnin eru fjölbreytt og nemendahópurinn líka. Allt þetta kallar á mikilvægi þess að á leikskólum starfi áhugasamt og hæft fólk, karlar og konur. Karlmenn hafa verið í miklum minnihluta starfsmanna en eru mikilvægir inn á leikskólum og hafa rétt eins og konur margt fram að færa í leikskólakennslu. Þeir eru fyrirmyndir drengja og stúlkna, taka þátt í að útrýma staðalímyndum kynjanna og auka á fjölbreytni leikskólanna.
Þegar kemur að starfinu í leikskólum er það mitt mat að það séu forréttindi í sjálfu sér að velja sér ævistarf við það að starfa með börnum í leik og starfi. Fá að fylgjast með þeim þroskast, takast á við ólík verkefni, sigra og ósigra er það sem gerir starfið frábært. Það að geta haft áhrif á hverjum degi á nám og þroska barns og sjá síðar afrakstur sinnar vinnu, hvort sem það er í starfinu sjálfu eða bara út í samfélaginu, samvinnan við foreldra sem síðar koma til manns á förnum vegi og þakka manni fyrir það sem maður hefur gert fyrir barnið þeirra í leikskólanum, það að maður hafi haft áhrif í lífi annara til hins betra er tilfinning sem gefur þessu starfi mikið gildi.
Mitt mat er að starf í leikskólum sé besta starf í heimi og hef ég þess vegna mikinn áhuga á því að auglýsa það fyrir áhugasömum og fá fleiri með í gleðina. Þetta gerir ég meðal annars í gegnum samfélagsmiðla undir nafninu Járnkarlarnir ásamt samstarfsmanni mínum honum Eysteini Sindra Elvarssyni. Þar sýnum við hvað við erum að fást við á leikskólanum og setjum fram skoðanir okkar, ræðum hvað betur mætti fara og sýnum ýmiskonar hugmyndir að skemmtilegum verkefnum.