Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG skrifar grein í Kjarnann 1. maí sl. um þriðja orkupakkann undir heitinu Orkan er okkar. Nauðsynlegt er að gera athugasemdir við atriði sem þar koma fram og fjalla lítillega um EES-samstarfið.
Ari Trausti viðurkennir að markaðsvæðing sé ekki sjálfkrafa vinsamleg alþýðu manna en hún merki heldur ekki að vald ESB, EFTA o.fl. sé þar með orðið, eða verði, óhjákvæmilega yfirþjóðlegt. Ari Trausti heldur því fram að Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) sé ekki yfirþjóðleg valdastofnun sem geti skipað fyrir um orkusölu. Úrskurðir hennar séu samt endanlegir fyrir deiluaðilum. Þverstæða er í málflutningnum því ACER getur ekki bæði verið „ekki yfirþjóðleg valdastofnun“ og „kveðið upp endanlega úrskurði“.
Ari Trausti segir að auðvelt sé að halda fram fölskum orðum um yfirþjóðlegt vald ACER. Ari segir ACER geti krafist viðbótarafls í virka flutningslínu yfir landamæri ef samningar fullvalda ríkja kveða á um orkumagn sem eitt ríkið stendur ekki við. Það sé ekki merki um yfirþjóðlegt ofurvald heldur virkt eftirlit með að milliríkjasamningar um raforkuflutning og sölu séu haldnir.
Ríki EES eru ekki aðilar að raforkusölusamningum á innri orkumarkaði ESB, það eru raforkuframleiðendur. Að því slepptu, hvernig getur ACER skipt sér af raforkusölusamningum á milli ríkja ef hún hefur ekki yfirþjóðlegt vald? Hvernig eru raforkuframleiðendur innan ríkja skuldbundnir að hlíta úrskurðum stofnunar sem hefur ekki yfirþjóðlegt vald?
Framkvæmdastjórn ESB mun framfylgja úrskurðum ACER, líkt og sumum dómum dómstóls ESB og efast enginn um yfirþjóðlegt vald hans. Þriðji orkupakkinn gerir kröfu um sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar og liggur fyrir frumvarp um það. Ákvörðunarvald ACER í dag beinist að yfirvöldum aðildaríkja og lýtur að samtengingu grunnvirkja við raforkuflutning yfir landmæri, og hvað Ísland varðar því nátengt sæstreng. Fjórði orkupakkinn inniheldur reglur um ACER. Völd ACER eru því í þróun.
Aðild að ACER eða EFTA stoð hennar felur í sér fullveldisframsal. Engin innlend valdastofnun mun geta farið gegn ákvörðun ACER eða EFTA-stoðar hennar. Þó ACER hafi á Íslandi sagst ekki hafa yfirþjóðlegt vald er það jafnrangt. Það er ekki þannig að ESB sé yfirþjóðleg stofnun en undirstofnun, sem falið er samræming og framkvæmd ESB-gerða, sé það ekki. ESB er yfirþjóðleg stofnun, þar sem aðildarríki hafa framselt hluta af ríkisvaldi sínu til ESB og er löggjöf ESB bindandi fyrir aðildarríkin og hefur hún bein laga- og réttaráhrif. Vald ESB er því yfirþjóðlegt og án þess væri sjálfur grundvöllur ESB brostinn.
Þrátt fyrir að eyða stórum hluta greinar sinnar að fjalla um ACER og sæstreng segir Ari að lagning sæstreng sé ólíkleg, sbr.; „Hvernig sem fer er ljóst að raforka til útflutnings um sæstreng (500 – 1.000 MW) er fjarri lagi.“ Jafn fjarri lagi í dag er umræða um sæstreng í tengslum við 3. orkupakkann á Íslandi, sem og aðild Íslands að innri raforkumarkaði ESB. Sama á við um ACER, sbr. núverandi valdheimildir ACER er lúta að raforkuflutningi yfir landamæri. Meginrökin gegn samþykki 3. orkupakkans er sú staðreynd að Ísland er ekki tengt innri raforkumarkaði ESB með sæstreng. Ísland er ekki hluti af markaðinum og á því ekki að innleiða reglur hans.
Fyrirvari Íslands er skv. Ara í hnotskurn sá að sæstrengur sé á forræði þjóðarinnar. Ísland ætlar því að setja fyrirvara sem fjarri lagi er að reyni á í framtíðinni. Það eykur ekki lögmæti hans. Ef fyrirtæki byggði raforkuvirkjun í Noregi og vildi leggja landstreng til að selja raforkuna til Svíþjóðar verður að telja að stjórnvöld í Noregi gætu ekki hamlað þeirri framkvæmd. Það gengi gegn grunnreglu EES um frjálst flæði vöru á innri markaði EES.
Ísland er með aukaaðild að innri markaði ESB í gegnum EES-samstarfið. Það byggist á skyldu EFTA-ríkjanna (Íslands, Noregs og Liechtenstein) að taka upp í landsrétt sinn ESB-gerðir sem vísað er til í viðaukum EES-samningsins og ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem eru bindandi fyrir samningsaðila, sbr. 7. gr. samningsins. EFTA-ríkin geta ekki sett lagalega fyrirvara við upptöku ESB-gerða í landsrétt. Það væri andstætt markmiðum EES-samstarfsins og myndi það falla um sjálft sig tækju ríkin upp á því. Lagalegur fyrirvari verður einungis gerður í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
EES-samstarfið byggir á því að ESB-gerðir eru teknar upp í ESS-samninginn. Dómstóll ESB túlkar reglur ESB-gerða og eftirlitsstofnanir ESB segja til um hvað sé rétt innleiðing og lagaframkvæmd þeirra gerða. EES-samstarfið er því einstefna valds frá ESB til EFTA-ríkjanna þriggja til að tryggja þátttöku þeirra í innri markaði ESB. EFTA-ESB tveggja stoða kerfið gefur EFTA-stoðinni ekki sjálfstætt túlkunarvald yfir lögum ESB.
Það er innan sameiginlegu EES-nefndarinnar sem ríkjum ber að gæta hagsmuna sinna. Ari Trausti gefur í skyn að Ísland hafi ekki gætt hagsmuna sinna nægjanlega í Brussel og segir: „Ísland hefur liðið fyrir eigið fámenni í matstarfinu í Brussel og oft haft náið samstarf við Norðmenn til að auðvelda vinnuna.“ Einnig að: „Nú er verið að bæta við mann¬afl¬ann og efla EES-vinnuna í þessum efn¬um.“ Af hverju er verið að fjalla um þetta atriði í grein um 3. orkupakkann? Hagsmunagæsla Íslands í Brussel innan EES-samstarfsins virðist ekki góð og það sést í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um þriðja orkupakkann. Orsökin er ekki fámenni. Málið er einfalt. Ísland er ekki hluti af innri raforkumarkaði ESB sem eyja í Norður-Atlantshafi ótengd markaðinum og það á að endurspeglast í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Samþykki Alþingi að veita ríkisstjórninni heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar verður Ísland skuldbundið að þjóðarétti að innleiða í landsrétt ESB-gerðir orkupakkans sem gilda fyrir Ísland. Þriðji orkupakkinn samanstendur af átta ESB-gerðum sem sameiginlega EES-nefndin hefur tekið upp í EES-samninginn; þrem um raforku, einni um ACER og fjórum um jarðgas. Gerðirnar um jarðgas gilda ekki um Ísland skv. ákvörðun nefndarinnar. Sama á að eiga við um gerðirnar um raforku.
Raforka er vara en frjálst flæði hennar er háð tengingu dreifikerfa. Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt EES getur íslensk raforka ekki fallið undir reglur um frjálst flæði vöru innan EES.
Í sameiginlegum skilningi utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB frá 22. mars sl. kemur fram að vegna sérstöðu Íslands með einangrað dreifikerfi raforku hafi stór hluti ákvæða 3. orkupakkans hvorki gildi né raunhæfa þýðingu hérlendis. Þessi skilningur á að koma fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Raforka er helsta náttúruauðlind Íslands og eiga íslensk stjórnvöld að fara fram á endurupptöku málsins í sameiginlegu EES-nefndarinnar og óska eftir að gerðirnar um raforku gildi ekki um Ísland, þar sem landið er ekki hluti af innri raforkumarkaði ESB enda raforkudreifikerfi Íslands ekki tengt innri markaðinum.
Höfundur er lögfræðingur LLM.